Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Auglýsing um styrki til námskeiða í íslensku haustið 2007

Auglýst er eftir umsóknum um styrki til námskeiða í íslensku sem ekki eru hluti af almennu námi á grunn- eða framhaldsskólastigi.

Auglýst er eftir umsóknum um styrki til námskeiða í íslensku sem ekki eru hluti af almennu námi á grunn- eða framhaldsskólastigi. Markmið með styrkjunum er að gefa öllum sem búsettir eru á Íslandi færi á að öðlast þá færni í íslensku að þeir geti orðið virkir samfélagsþegnar.

Fræðsluaðilar og fyrirtæki sem bjóða starfsmönnum sínum upp á skipulagða kennslu í íslensku og eru á fyrirtækjaskrá geta sótt um styrki. Fyrirtæki, sem ekki eru fræðsluaðilar, þurfa að láta undirritaðan samning (skannað skjal) við hæfan fræðsluaðila er annast kennsluna fylgja umsókninni.

Umsækjandi skal veita menntamálaráðuneyti upplýsingar um markmið námsins, kennslustundafjölda, kennslutíma, fjölda námskeiða, fjölda þátttakenda og námskeiðskostnað.

Aðilar sem bjóða upp á fleiri en fimm námskeið skila aðeins inn einu umsóknareyðublaði en því skal fylgja sundurliðað yfirlit þar sem fram koma upplýsingar um hvert námskeið og heildarfjölda námskeiða, heildarfjölda þátttakenda, samanlagðan nemendastundafjölda, áætlaðan kostnað og heildarupphæð sem sótt er um.

Að námskeiði loknu, áður en til lokagreiðslu styrks kemur og eigi síðar en 15. desember n.k., ber að senda inn lista með nöfnum og kennitölum nemenda sem sóttu námskeiðið og ber þá að taka mið af þeim sem mættu í 75% kennslustunda að lágmarki. Ráðuneytið hefur eftirlit með gæðum námskeiðahaldsins og áskilur sér rétt til að kalla eftir frekari upplýsingum er varða rekstur og faglega framkvæmd námskeiða. Þar með talið upplýsingar um reikningshald, fjármögnun, greiðslur nemenda og viðveruskráningu, sem og upplýsingar um kennara, menntun þeirra og starfsreynslu og námsefni sem stuðst er við.

Vakin er sérstök athygli á að umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi.
Umsóknareyðublöð og nauðsynlegar upplýsingar eru aðgengilegar undir flokknum sjóðir og eyðublöð á vef menntamálaráðuneytis: menntamalaraduneyti.is. Umsóknir skal senda á [email protected].

Umsóknarfrestur er til 7. september 2007.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum