Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Útgjöld til háskólastigsins 1,3-1,7% af vergri landsframleiðslu árið 2002

Samkvæmt skýrslu OECD Education at a Glance 2004 námu heildarútgjöld Íslendinga til menntamála um 6,7% af vergri landsframleiðslu árið 2001.

Samkvæmt skýrslu OECD Education at a Glance 2004 námu heildarútgjöld Íslendinga til menntamála um 6,7% af vergri landsframleiðslu árið 2001. Ísland var þá í 4. sæti OECD ríkjanna og hafði færst upp um tvö sæti frá árinu áður. Samkvæmt skýrslunni vörðu Íslendingar 0,9% af vergri landsframleiðslu til háskólastigins.

OECD byggir skýrslu sína á upplýsingum frá Hagstofu Íslands sem er um þessar mundir að yfirfara flokkun útgjalda til menntamála með tilliti til alþjóðlegra staðla og breytinga á menntastofnunum á síðustu árum. Samanburður milli landa getur verið gagnlegur en hann er einnig varasamur vegna þess að menntakerfi og skipulag þjónustu á sviði menntamála er mismunandi eftir löndum og reikningshald stofnana ekki sniðið sérstaklega að þörfum hagskýrslugerðar. Því getur verið flókið að finna nákvæmlega réttar tölur.

Útgjöld ríkis og sveitarfélaga hér á landi eru vanmetin í skýrslu OECD að mati fjármála- og menntamálaráðuneyta. Fullyrða má að Ísland hafi ráðstafað 7,2% af vergri landsframleiðslu til menntamála árið 2001 og þar með verið í 2. sæti. Mestu munar um útgjöld til háskólastigsins m.a. vegna stofnkostnaðar háskóla, aðildar að áætlunum Evrópusambandsins á sviði rannsókna, þróunar- og menntamála, rannsóknarsjóða og rannsóknarstofnana, útgjalda Landspítala-Háskólasjúkrahúss vegna kennsluhlutverks hans og hluta útgjalda Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns.

 

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands námu útgjöld til háskóla og rannsókna um 8.500 m.kr. eða 1,1% af vergri landsframleiðslu árið 2002. Þá var ekki tekið tillit til útgjalda vegna Lánasjóðs íslenskra námsmanna, en hins vegar tekið tillit til ýmissa annarra frádráttarliða, svo sem Happdrættis HÍ og skólagjalda. Samkvæmt mati menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis á útgjöldum til háskóla og rannsókna námu útgjöld til þessa málaflokks hins vegar um 9.800 m.kr. árið 2002 miðað við fyrrgreinda frádráttarliði. Mismunurinn er því rúmir 1,3 milljarðar króna.

 

Það er niðurstaða mennta- og fjármálaráðuneyta að ýmsir fjárlagaliðir hafi verið vantaldir vegna útreikninga á útgjöldum til háskóla og rannsókna árið 2002. Þar á meðal eru rannsóknar- og tæknisjóðir, rannsóknarstofnanir og alþjóðleg samskipti. Í öllum tilfellum nema einu er um að ræða stofnanir sem í fjárlögum falla undir útgjaldaflokkinn háskólar og rannsóknarstarfsemi.

Þess má einnig geta að samkvæmt upplýsingum Landspítala-Háskólasjúkrahúss ver stofnunin 800-1000 m.kr. til kennslu og rannsókna.

 

Það er niðurstaða ráðuneytanna að útgjöld til háskóla og rannsókna hafi numið nær 1,3% af vergri landsframleiðslu árið 2002 og er þá ekki reiknað með útgjöldum til Landspítala-Háskólasjúkrahúss (LSH). Séu hins vegar útgjöld vegna LSH reiknuð með og útgjöld leiðrétt í samræmi við upplýsingarnar hér að framan má ætla að hlutfall útgjalda til háskóla og rannsókna hafi verið tæplega 1,4% af vergri landsframleiðslu.

 

Útgjöld til Lánasjóðs íslenskra námsmanna er undanskilin í ofangreindum upplýsingum. Ef útgjöld til LÍN er bætt við ofangreinda tölu (1,4%) yrðu heildarútgjöld til háskóla og rannsókna 1,7% af vergri landsframleiðslu.

 

Menntamálaráðuneyti mun í samvinnu við Hagstofu Íslands vinna að því að flokkun útgjalda til menntamála verði felld að alþjóðlegum stöðlum.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum