Hoppa yfir valmynd
10. júní 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Kynning á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um háskóla nr. 63/2006

Kynnt hefur verið í ríkisstjórn frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006.

Kynnt hefur verið í ríkisstjórn frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006. Tilurð frumvarpsins má m.a. rekja til ábendinga úr skýrslu rannsóknanefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndar, sem skipuð var í framhaldi af fyrri skýrslunni. Í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis voru ábendingar til fræðasamfélagsins um hlutverk háskóla, ábyrgð starfsmanna og um almenna þátttöku í samfélagsumræðunni. Jafnframt komu fram ábendingar til fræðasamfélagsins í skýrslu þingmannanefndarinnar um að fræðasamfélagið yrði að taka alvarlega þá gagnrýni sem fram kemur í skýrslu rannsóknanefndarinnar. Þar var bent á að endurskoða þyrfti ákvæði laga um háskóla og laga um opinbera háskóla, einkum með tilliti til fjárhags skólanna, stöðu og hlutverks starfsmanna þeirra í þeim tilgangi að tryggja betur frelsi háskólasamfélagsins og fræðilega hlutlægni. Auk þess sagði að hvetja þyrfti háskólamenn á öllum fræðasviðum til að taka þátt í opinberri umræðu og styrkja með því tengsl fræðasamfélagsins, atvinnulífsins og hins almenna borgara. Nauðsynlegt væri að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna.

Helstu markmið frumvarpsins í samræmi við framangreint eru að skýra betur hlutverk háskóla, fræðilegt sjálfstæði þeirra og starfsmanna háskóla. Lagt er til að starfmönnum og nemendum háskóla verði veitt aukin hlutdeild í stjórnun háskóla. Einungis viðurkenndir háskólar mega bera heitið „háskóli“. Lagt er til að ráðherra verði veitt heimild til að fela einstökum háskólum að sinna kennslu eða rannsóknum á ákveðnum afmörkuðum fræðasviðum. Þá er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að setja reglur um ytra mat á háskólum og um aðfaranám sem háskólar bera ábyrgð á.

Við undirbúning frumvarpsins var efni þess kynnt fyrir samstarfsnefnd háskólastigsins sem skipuð er rektorum allra háskólanna.

Ráðgert er að frumvarpið verði lagt fram á 140. löggjafarþingi (2011-2012) eftir opið samráðsferli með kynningu þess á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem stendur til 15. ágúst næstkomandi. Fólk er hvatt til að skila inn athugasemdum og ábendingum til ráðuneytisins á netfangið [email protected]

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um háskóla nr. 63/2006

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum