Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framhaldsskólar innleiða frjálsan hugbúnað

Á komandi skólaári munu fimm framhaldsskólar styðjast nær eingöngu við frjálsan hugbúnað í starfi sínu.

Helstu atriði:

  • Aukin jöfnuður og hagræðing í skólastarfi.
  • Fimm framhaldsskólar með frjálsan hugbúnað.
  • Framhaldsskólar hvattir til að innleiða frjálsan hugbúnað.


Á komandi skólaári munu fimm framhaldsskólar styðjast nær eingöngu við frjálsan hugbúnað í starfi sínu. Menntaskólinn í Reykjavík mun frá upphafi nýs skólaárs verða rekinn nánast alfarið á frjálsum hugbúnaði og stefnir Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum á að fara sömu leið frá og með áramótum. Fyrir eru Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Menntaskóli Borgarfjarðar reknir að mestu leyti á frjálsum hugbúnaði. Auk þess hefur notkun frjáls hugbúnaðar aukist mikið í öðrum framhaldsskólum landsins.
Meginmarkmið skóla með innleiðingu frjáls hugbúnaðar er aukinn jöfnuður og hagkvæmni í rekstri. Með innleiðingu frjáls hugbúnaðar eru jöfnuður á meðal nemenda og starfsmanna tryggður þar sem allir hafa aðgang að sama hugbúnaði án endurgjalds. Innleiðing frjáls hugbúnaðar felur í sér stofnkostnað en til lengri tíma lækkar kostnaður við rekstur tölvukerfa skólanna sem þýðir að aukið fé mun renna til faglegs starfs.
Undanfarin ár hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið hvatt framhaldsskóla til að innleiða fjálsan hugbúnað. Í febrúar hélt ráðuneytið fyrsta „Frjálsa daginn“ þar sem saman komu fulltrúar framhaldsskóla og háskóla af öllu landinu og deildu reynslu sinni af notkun frjáls hugbúnaðar. Við það tilefni veitti ráðuneytið fé til valdra verkefna tengdum notkun á fjálsum hugbúnaði í framhaldsskólum og háskólum. Í framhaldi af Frjálsa deginum hefur komist á gott samstarf milli framhaldsskóla þar sem þeir hafa miðlað sín á milli reynslu og þekkingu á frjálsum hugbúnaði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum