Hoppa yfir valmynd
19. júní 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dreifibréf um sundkennslu í grunnskólum

Meðfylgjandi póstur var sendur frá ráðuneytinu þann 16. júní sl. Í þeim pósti vantaði upp á upplýsingar frá Umhverfisstofnun er varðar kennara með leyfisbréf fyrir 15. febrúar 2014, þ.e. að þeim sé heimilt að velja milli þess að fara á endurmenntunarnámskeið árlega skv. III. viðauka reglugerðarinnar eða gangast undir hæfnispróf á þriggja ára fresti skv. III. viðauka.   Leiðréttist það hér með og eru uppfærðar upplýsingar að finna á vefsíðu Umhverfisstofnunar

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vekur athygli skólastjóra, skólaskrifstofa, sveitarfélaga og hagsmunaaðila á eftirfarandi um sundkennslu í grunnskólum:

1. Skv. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, nr. 814/2010, sett af umhverfis- og auðlindaráðuneyti, fer um sundkennslu í grunnskólum samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Um öryggismál á sund- og baðstöðum að öðru leyti er fjallað um í sömu reglugerð. Reglugerðin tekur til allra þeirra sem njóta eða bjóða þá þjónustu sem fram fer á sund- og baðstöðum, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar. Um öryggi á sundstöðum er fjallað sérstaklega í V. kafla reglugerðarinnar samkvæmt 1. mgr. 11. gr.  Þar segir m.a. að allir starfsmenn skulu upplýstir um öryggisreglur, viðbragðsáætlun og neyðaráætlun sem eiga að vera til staðar á öllum sund- og baðstöðum. Starfsmenn, sundkennarar og sundþjálfarar skulu þjálfaðir í notkun viðurkennds skyndihjálparbúnaðar ásamt viðbrögðum við neyðartilvikum, a.m.k. einu sinni á ári.

2. Skv. 15. gr. reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum skulu allir þeir sem starfa á sund- og baðstöðum fá þjálfun í sérhæfðri skyndihjálp sem sérstaklega er ætluð sund- og baðstöðum eigi sjaldnar en árlega. Þá skulu starfsmenn sem sinna laugargæslu, sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur standast hæfnispróf skv. III. viðauka reglugerðarinnar. Um tíðni hæfnisprófs fer skv. töflum hér fyrir neðan:

Hæfnispróf starfsmanna sem sinna laugargæslu,

sundkennara, sundþjálfara og leiðbeinenda.

  Tíðni hæfnisprófs1)
Starfsmenn sem sinna laugargæslu Einu sinni á ári
Sundkennarar (ekki með háskólapróf), sundþjálfara og leiðbeinendur Á tveggja ára fresti
Sundkennarar, sem lokið hafa íþróttafræðinámi á háskólastigi eða jafngildu eldra prófi og hafa leyfisbréf til kennslu, skv. lögum nr. 87/2008 eftir  15. febrúar 2014. Á þriggja ára fresti
Sundkennarar, sem lokið hafa íþróttafræðinámi á háskólastigi eða jafngildu eldra prófi og hafa leyfisbréf til kennslu, skv. lögum nr. 87/2008 fyrir 15. febrúar 2014. Bóklegt endurmenntunarnámskeið, einu sinni á ári þar sem námsefnið er skv. III. viðauka2)

1)Sbr. ákvæði reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, með síðari breytingum.

2)Sjá nánar Hæfnispróf – prófatriði hér fyrir neðan.

 Hæfnispróf – prófatriði1)

  1. Þolsund, 600 m á innan við 21 mínútu (frjáls aðferð).
  2. Hraðsund, 25 m á 30 sek.
  3. Kafsund, 15 m.
  4. Björgunarsund í síðbuxum og síðerma peysu, 25 m með jafningja.
  5. Björgun á óvirkum jafningja með björgunarsveig eða öðrum flotáhöldum, úr miðri laug að hliðarbakka, lyfta viðkomandi upp á bakka með aðstoð eins laugarvarðar.
  6. Sækja 3 hluti í dýpsta hluta laugar (á allt að 3,5 m dýpi). Synda 5 m á yfirborði, kafa niður eftir hlut, hlutnum skilað á bakka, hvíld milli kafana 10 sekúndur.
  7. Hoppa eða stinga sér út í laug, synda 25 m, kafa eftir björgunarbrúðu í dýpsta hluta laugar, færa björgunarbrúðu upp á yfirborðið og synda 25 m til baka, lyfta björgunarbrúðu upp á bakka með aðstoð eins laugarvarðar.
  8. Starfsmenn sem sinna laugargæslu skulu ljúka árlegu námskeiði í skyndihjálp og björgun fyrir sund- og baðstaði og standast alla verklega þætti þess námskeiðs. Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu ljúka þessu námskeiði á tveggja ára fresti. 2)
  9. Fara yfir öryggisatriði og útbúnað (öryggis- og sjúkrabúnað) á viðkomandi sund- og baðstað.

1)Standist viðkomandi ekki einstaka þætti hæfnisprófsins skal hann endurtaka þá hluta innan mánaðar hjá sama leiðbeinanda.

2)Tíðni sbr. ákvæði reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, með breytingum í reglugerðum nr. 773/2012 og 205/2014. Sjá einnig töflu fyrir ofan, Hæfnispróf starfsmanna sem sinna laugargæslu, sundkennara, sundþjálfara og leiðbeinenda.

Leiðbeinendur með gild réttindi til að leiðbeina í skyndihjálp og björgun skulu annast hæfnispróf skv. III. viðauka. Listi yfir leiðbeinendur með gild réttindi er að finna á vefsíðu Umhverfisstofnunar, ust.is. Listi yfir þá sem staðist hafa hæfnispróf eða viðurkenningarskjal þar um skal vera aðgengilegur starfsmönnum heilbrigðiseftirlits við eftirlit á sund- og baðstað.


3. Í
aðalnámskrá grunnskóla (2011 og 2013) segir, að í samræmi við reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum skuli skipulag sundkennslunnar miðast við að 15 nemendur séu að jafnaði í hverjum sundtíma. Til að tryggja öryggi nemenda í kennslustundum og tryggja að markmiðum kennslunnar verði náð skulu nemendur ekki vera fleiri en 15 þegar þeir eru 10 ára og yngri eða ósyndir.  Í skipulagi sundkennslu þarf einnig að taka tillit til þeirrar aðstöðu sem er fyrir hendi, s.s. stærðar laugar og búningsaðstöðu.

Ef nemendur eru fleiri en 15 í sundtíma þá gerir mennta- og menningarmálaráðuneytið þá kröfu að kennari hafi með sér aðstoðarmann í sundtímanum. Viðkomandi aðstoðarmaður verður að hafa tekið hæfnipróf sundstaða eins og reglugerð nr. 814/2010 gerir kröfur um.

4. Í reglugerðinni er jafnframt fjallað um öryggi í skólasundi. Samkvæmt reglugerðinni skal íþróttakennari í samvinnu við starfsmenn sundstaða fara árlega, eða við upphaf hvers sundnámskeiðs, yfir helstu reglur sem gilda á sundstöðum og yfirfara vinnutilhögun í tengslum við sundkennslu þannig að fyllsta öryggis nemenda sé gætt. Íþróttakennari skal einnig gera nemendum grein fyrir þeim hættum sem geta fylgt sundiðkun.

5. Í breytingu á reglugerð nr. 814/2010 sem gerð var á árinu 2012,  nr. 773/2012 kemur m.a. fram: „Þar sem hópar barna undir 10 ára aldri eru saman komnir skulu ekki fleiri en 15 börn vera í umsjá hvers kennara eða ábyrgðarmanns hóps sem, ásamt laugarverði, er ábyrgur fyrir hópnum. Miða skal við að þeir sem starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi séu lögráða og hafi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfsins, sbr. 1. mgr. 10. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Til að auðvelda kennara eða ábyrgðarmanni hópa að fylgjast með hverju barni skulu hópar barna sérstaklega auðkenndir með áberandi lit á sundhettum, armböndum, vestum eða á annan sambærilegan hátt. Fyllsta öryggis skal gætt þegar komið er með hóp af börnum og unglingum í sund. Kennarar og ábyrgðarmenn hópa skulu kynna sér reglur sund- og baðstaða og aðstoða starfsfólk sund- og baðstaða við gæslu.

Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu ávallt gæta þess í samvinnu við starfsfólk sund- og baðstaða að nemendur fari ekki að laug á undan þeim. Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu aldrei víkja frá laug fyrr en allir nemendur/iðkendur yngri en 15 ára eru farnir inn í búnings- eða baðklefa. Þau varúðaratriði sem hvíla á laugarverði hvíla einnig á kennara, þjálfara og leiðbeinanda varðandi nemendur og iðkendur.“

6. Skv. aðalnámskrá grunnskóla frá 2013 í skólaíþróttum (bls. 181-193) er í skólasundi miðað við að nemendur fái a.m.k. 40 mínútur á stundaskrá skóla í hverri viku skólaársins. Þar sem slíku skipulagi verður ekki við komið skal kenna skólasund á árlegum námskeiðum. Á slíkum námskeiðum skal hver nemandi fá að lágmarki 800 mínútur í kennslu. Sá tími, sem eftir stendur, skal nýta til skólaíþrótta (miðað er við 40 mín. kennslustundir).

Skv. viðmiðunarstundaskrá aðalnámskrár grunnskóla, er gert ráð fyrir að heildartími skólaíþrótta í 1.- 4. bekk sé 480 mínútur í viku hverri, 5.-7. bekk sé 360 mínútur og 8.-10. bekk 360 mínútur (að meðaltali 120 mínútur í hverri viku skólaársins frá 1. - 10. bekkjar).

Ráðuneytið væntir þess að allir skólastjórnendur og þeir kennarar sem annast sundkennslu, kynni sér vel ákvæði í lögum, reglugerðum og aðalnámskrá um skólaíþróttir, sjái til þess að nemendur fái lögbundna kennslu og að fyllsta öryggis sé gætt.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum