Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ábyrgð og aðgerðir

Katrín Jakobsdóttir tekur við ritinu „Ábyrgð og aðgerðir, niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi“, sem dreift verður í alla grunnskóla landsins.

Ábyrgð og aðgerðir
Ábyrgð og aðgerðir

Nýlega var kom út ritið „Ábyrgð og aðgerðir, niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi“.  Mikil umræða hefur verið á undanförnum árum og alvarleiki eineltis hefur verið viðurkenndur en þrátt fyrir það er einelti engu að síður raunverulegt vandamál í íslensku samfélagi.

Nýlega lauk þverfræðilegri rannsókn á einelti meðal barna á Íslandi. Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni hafði forgöngu um þessa rannsókn í samstarfi við félagsráðgjafardeild, lagadeild og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Grunnurinn að þessari rannsókn voru þrjár meistararitgerðir frá framangreindum deildum og sviði, sem í lokin voru samþættar í eina sameiginlega lokaskýrslu. Ekki er vitað til þess að áður hafi einelti verið athugað út frá þessari þverfræðilegu sýn.

Í ritinu er að finna fræðilegt yfirlit og greinargerð um nokkrar aðferðir sem notaðar hafa verið hér á landi sem og erlendis til að vinna gegn einelti. Einnig eru teknar saman helstu niðurstöður þessarar þverfræðilegu rannsóknar á einelti meðal barna auk tillagna til úrbóta á ýmsum sviðum. Loks er í ritinu að finna útdrætti úr meistararitgerðunum þremur sem fjalla um einelti á þverfaglegum grundvelli.
Rannsóknastofnunin hefur ákveðið að allir grunnskólar landsins fái afhent eintak af bókinni og mun mennta- og menningarmálaráðuneyti á næstunni sjá um að dreifa þeim. Ráðuneytið telur að ritið geti nýst grunnskólum við stefnumótun innan skólanna í tengslum við innleiðingu aðalnámskrár grunnskóla, ekki síst grunnþáttarins velferð og heilbrigði og einnig við innleiðingu nýrrar reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum