Hoppa yfir valmynd
27. desember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Friðun húsa og hafnarmannvirkja

Ákveðið að friða Tryggvaskála, Seyðisfjarðarkirkju, mannvirki við Gömlu höfnina í Reykjavík, Skálholtskirkju og ytra byrði Skálholtsskóla ásamt nánasta umhverfi.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að tillögu húsafriðunarnefndar að friða Tryggvaskála á Selfossi og Seyðisfjarðarkirkju og nær friðunin til húsanna í heild, þ.e. bæði ytra og innra byrðis. Þá hefur ráðherra ákveðið að friða elstu mannvirkin við Gömlu höfnina í Reykjavík. Um er að ræða eftirfarandi steinhleðslur, sem gerðar voru á árunum 1913 til 1945:

  • Ingólfsgarður (1913)
  • Norðurgarður (1915)
  • Steinhleðslur við Suðurbugt (1928-1930
  • Ægisgarður, eystri hleðsla (1932-1935)
  • Steinhleðslur við Víkina og Verbúðarbryggjur, frá Rastargötu til Bótabryggju (1940-1945).

Að auki hefur mennta- og menningarmálaráðherra  ákveðið að fenginni tillögu húsafriðunarnefndar að friða Skálholtskirkju, Skálholtsskóla og nánasta umhverfi. Friðunin nær til innra og ytra byrðis Skálholtskirkju, ytra byrðis Skálholtsskóla auk nánasta umhverfis að undanskilinni yfirbyggingu yfir friðlýstar fornleifar Þorláksbúðar.

Tryggvaskáli var reistur 1890 af Tryggva Gunnarssyni í tengslum við smíði Ölfusárbrúar. Hann er elsta húsið á Selfossi og þykir ómissandi kennileiti sem nauðsynlegt er að varðveita

Seyðisfjarðarkirkja í núverandi mynd var reist á árunum 1920 til 1922. Hún er að hluta smíðuð upp úr eldri kirkju sem stóð á Vatnsdalseyri fram til 1920. Seyðisfjarðarkirkja er fulltrúi fyrir ákveðna gerð austfirskra timburkirkna, sem bera skýr staðbundin einkenni, þ.e. þakturn og stóra smárúðótta bogaglugga. Kirkjan ber einnig sterk einkenni norskrar timburhúsahefðar , sem ráðandi er í gamla bænum á Seyðisfirði.

Elstu varnargarðarnir í Reykjavíkurhöfn, Ingólfsgarður og Norðurgarður voru á sínum tíma stærstu framkvæmdir sem unnar höfðu verið á Íslandi og þykja bera vönduðu handverki gott vitni.  Aðrar steinhleðslur, sem gerðar voru á fyrri hluta síðustu aldar, voru unnar á svipaðan máta og teljast hafa mikið varðveislugildi.

Skálholtskirkja er eitt af höfuð verkum Harðar Bjarnasonar, fyrrum Húsameistara ríkisins og ásamt með gluggum Gerðar Helgadóttur og altaristöflu Nínu Tryggvadóttur þykir hún meðal öndvegisverka íslenskrar húsagerðarlistar. Hálf öld verður liðin frá vígslu kirkjunnar á næsta ári. Manfreð Vilhjálmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitektar teiknuðu Skálholtsskóla árið 1970 og höfðu þeir fyrri tíða þorpsmynd í Skálholti í huga. Byggingunni er skipt upp í minni hús með tengigangi og til að árétta mikilvægi samræmis í byggingum í Skálholti var skólinn hafður í sömu litum og kirkjan.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum