Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ábyrgð, réttindi og skyldur aðila skólasamfélagsins

Niðurstöður könnunar á stöðu innleiðingar reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð, réttindi og skyldur aðila skólasamfélagsins

Í október 2013 fól mennta- og menningarmálaráðuneytið Capacent ehf. að kanna að hvaða leyti og með hvaða hætti grunnskólar hefðu innleitt ákvæði reglugerðar nr. 1040/2011, um ábyrgð, réttindi og skyldur aðila skólasamfélagsins, tveimur og hálfu ári árum eftir gildistöku hennar. Niðurstöður liggja fyrir og er skýrsla Capacent á vef ráðuneytisins.

Könnun á framkvæmd reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum

Nokkrar niðurstöður:

·         Um 88% segja mat á skólabrag vera hluta af innra mati skólans og 84% grunnskóla hafa innleitt agastjórnunarkerfi til þess að byggja upp og viðhalda góðum skólabrag.

·         91% hefur sett sér aðgerðaáætlun gegn einelti og 90% birta aðgerðaráætlunina á vef skólans.

·         90% segja einelti hafa í skólanum hafa verið kannað á síðastliðnum tveimur árum en einungis 45,5% skóla hafa birt niðurstöðurnar á vef skólans.

·         7 % skólastjóra segja einelti í skólanum aldrei hafa verið kannað.

·         126 skólastjórar (af 163) segja skólareglurnar hafa verið samdar á síðastliðnum sex árum en dæmi eru um að skólar gefi upp árið 2001, 2002, 2003 og 2004. Nokkra athygli vekur að nokkrir skólastjórar segast ekki vita hvenær skólareglurnar voru samdar.

·         72 skólastjórar eða 45% segjast hafa þurft að nota líkamlegt inngrip í skólanum skólaárið 2012-2013, oftast vegna hættulegrar hegðunar nemenda.

Í könnuninni kom fram að 74% grunnskóla telja að þeim hafi tekist mjög vel eða frekar vel að innleiða reglugerðina og mikill meiri hluti eða 91% telur ekki þörf fyrir að endurskoða einstök atriði hennar.

UM KÖNNUNINA:

Könnunin er hluti af lögboðnu eftirliti mennta- og menningarmálaráðuneytisins skv. 4. og 38 gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, reglugerð nr. 893/2009 um mat og eftirlit í grunnskólum og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald og þriggja ára áætlun ráðuneytisins um úttektir og kannanir í grunnskólum á tímabilinu 2013-2015. 

Í könnuninni voru 49 spurningar. Spurt var um atriði í tengslum við skólabrag (spurningar 1-12), einelti og fagráð gegn einelti (spurningar 13-28), skólareglur (spurningar 29-37), brottrekstur úr kennslu/skóla (spurning 38) og hvort skólinn hafi þurft að nota líkamlegt inngrip og verklagsreglur þar að lútandi (spurningar 39-44). Í lokin voru skólastjórar spurðir almennra spurninga eins og hvort þeir telji mikla eða litla þörf á að ráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga útbúi almenn viðmið um skólareglur, sbr. 9. gr. reglugerðarinnar, hvernig skólanum hafi almennt tekist að innleiða meginákvæði reglugerðarinnar og hvort þeir telji þörf á endurskoðum á einhverjum ákvæðum hennar.

Þrátt fyrir endurteknar ítrekanir af hálfu bæði Capacent Gallup og ráðuneytisins, þar sem áréttað var að samkvæmt lögum nr. 91/2008 um grunnskóla er það skylda sveitarstjórna að veita ráðuneytinu upplýsingar um framkvæmd skólahalds í sveitarfélögum þegar eftir þeim er leitað, svöruðu einungis 166 skólar af 173. Eftirfarandi skólar svöruðu ekki könnuninni: Grunnskólinn í Sandgerði, Lækjarskóli í Hafnarfirði, Hólabrekkuskóli í Reykjavík, Grunn- og leikskóli Hvalfjarðarsveitar, Grunnskóli Grindavíkur, Grunnskóli Grundarfjarðar og Barnaskóli Hjallastefnunnar í Hafnarfirði.

MEIRA UM NIÐURSTÖÐUR:

Skólabragur

Af þeim 166 skólastjórum sem svöruðu spurningu um hvort skólinn hafi skilgreint í hverju jákvæður skólabragur felist, kváðu 97 eða 58,4% svo vera. 58 eða 35% sögðu vinnu við skilgreiningu í vinnslu. 66% svarenda hefur mótað leiðir til að viðhalda jákvæðum skólabrag og rúmlega 93% segja skóla og foreldra vinna sameiginlega að því að viðhalda jákvæðum skólabrag. Um 88% segja mat á skólabrag vera hluta af innra mati skólans og 84% grunnskóla hafa innleitt agastjórnunarkerfi til þess að byggja upp og viðhalda góðum skólabrag. Í skýrslunni má sjá hvaða kerfi eru notuð.

Einelti

Spurt var hvort skólinn hafi mótað heildstæða stefnu, sbr. 7. gr. reglugerðar, til að fyrirbyggja og bregðast við einelti, öðru ofbeldi og félagslegri einangrun. 163 skólastjórar svöruðu spurningunni og segja 152 eða rúmlega 93% svo vera. 91% hefur sett sér aðgerðaáætlun gegn einelti og 90% birta aðgerðaráætlunina á vef skólans. Áætlanirnar ná til þátta eins og skólans í heild, einstakra bekkjardeilda, einstaklinga, kennara, annars starfsfólks skólans, foreldra, skólaaksturs, skólaferðalaga og vettvangsferða, rafræns eineltis, tiltekinna svæða innan skólans, s.s. skólalóðar, mötuneytis, baðaðstöðu, frístundaheimila fyrir nemendur í fyrstu bekkjum grunnskóla, annars frístundastarfs á vegum skólans, leið nemenda í og úr skóla og aðila grenndarsamfélagsins sem starfa með börnum og ungmennum, s.s. á baðstöðum, íþróttahúsi og frístundaheimilum. Einnig var spurt hvort aðgerðaráætlun gegn einelti hefði verið kynnt aðilum skólasamfélagsins og sögðu 96% hana hafa verið kynnta helstu hagsmunaaðilum. 146 eða 90% segja einelti hafa í skólanum hafa verið kannað á síðastliðnum tveimur árum en einungis 45,5% skóla hafa birt niðurstöðurnar á vef skólans. 7 % skólastjóra segja einelti í skólanum aldrei hafa verið kannað. 73% segja starfsfólk sérfræðiþjónustu hafa aðstoðað skólann í tengslum við aðgerðir gegn einelti. Einungis 20 skólar hafa notfært sér þjónustu fagráðs gegn einelti og af þeim segjast 10 vera mjög eða frekar ánægðir með þjónustuna.

Skólareglur

163 skólastjórar svöruðu spurningum um skólareglur. 126 segja skólareglurnar hafa verið samdar á síðastliðnum sex árum en dæmi eru um að skólar gefi upp árið 2001, 2002, 2003 og 2004. Nokkra athygli vekur að nokkrir skólastjórar segast ekki vita hvenær skólareglurnar voru samdar. 75% skólastjóra segja reglurnar hafa verið unnar í samráði við skólaráð og langflestir hafa kynnt þær öllu starfsfólki skólans, nemendum og foreldrum. Rúmlega 30% hafa kynnt skólareglurnar utan skólans. 135 eða um 83% skóla hafa mótað skýr viðbrögð við brot á skólareglum og hafa jafnframt kynnt viðbrögð við brotum fyrir nemendum, foreldrum kennurum og öðru starfsfólki skólans. Um 60% skólastjóra telja mjög mikla eða frekar mikla þörf á ráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga útbúi almenn viðmið um skólareglur en í 9. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 er heimildarákvæði þess efnis.

Brottvikning úr kennslu/skóla

102 skólastjórar eða 63% svarenda segjast ekki hafa vikið neinum nemenda úr kennslustund eða skóla skólaárið 2012-2013. 54 eða 33% segjast hafa vikið nemanda tímabundið úr kennslu það sem eftir lifir dags. Um er að ræða samtals 49 nemendur og það vekur athygli að flestir þeirra voru 7, 8, 10 og 11 ára gamlir. 10 % hafa vikið einhverjum nemanda tímabundið úr einstakri námsgrein 8 % tímabundið úr skóla (hámark vika). Sjö nemendum var vikið tímabundið úr skóla og eru þeir á aldrinum 9 til 15 ára. 2% nemenda var vikið tímabundið úr félags- og tómstundastarfi.

Líkamlegt inngrip

72 skólastjórar eða 45% segjast hafa þurft að nota líkamlegt inngrip í skólanum skólaárið 2012-2013. Uppgefnar ástæður vegna  líkamlegs inngrips er vegna hættulegrar hegðunar nemenda (66 sinnum ), vímuefnanotkunar (einu sinni) og annað (6 og 7 ára nemendur fara ekki að fyrirmælum, ofbeldi gegn nemendum eða starfsfólki, o.fl.). Einungis 20% skóla hafa sett sér verklagsreglur um hvað gera skal þegar skóli þarf að grípa til líkamlegs inngrips og 38,5% segjast vera að vinna að þeim. Þegar reglugerðin var í undirbúningi lögðu hagsmunaaðilar, einkum skólastjórar grunnskóla, mikla áherslu á að fá sérstakt ákvæði um líkamlegt inngrip og viðbrögð við vímuefnaneyslu inn í reglugerðina. Athygli vekur hversu hátt hlutfall grunnskóla 45% þurfti á síðasta skólaári að beita slíku úrræði sem sýnir vel þörfina, en að langmestu leyti er um að ræða viðbrögð við óásættanlegri eða hættulegri hegðun nemenda að mati skólastjóra. Þessi niðurstaða bendir til þess að alvarlegir hegðunarerfiðleikar örfárra nemenda  staðfesti mikilvægi þessa ákvæðis um líkamlegt inngrip.

ÍTAREFNI:

Í 14. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla er fjallað um ábyrgð nemenda á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska og í 30. gr. laganna er fjallað um skólareglur. Þótt 30. grein laganna sé að grunni byggð á sambærilegri grein fyrri laga hafa breytingar verið gerðar á orðalagi og ákvæðið gert skýrara en áður. Sett hefur verið reglugerð nr. 1040/2011 við greinina sem kveður á um ábyrgð, réttindi og skyldur nemenda, foreldra og starfsfólks skóla. Reglugerðin leysir af hólmi eldri reglugerð um skólareglur og aga nr. 270/2000.

Samkvæmt reglugerðinni skal setja skólareglur í hverjum grunnskóla með skýrum viðbrögðum við brotum á reglunum og að úrræði og viðbrögð stuðli að jákvæðri hegðun og miði að því að rækta persónuþroska og hæfni nemenda. Reglurnar skulu árlega kynntar nemendum og foreldrum þeirra og birtar í starfsáætlun. Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, háttsemi, stundvísi, ástundun náms, hollustu og heilbrigðar lífsvenjur.

Þá er í reglugerðinni ítarlega fjallað um starf grunnskóla gegn einelti, sem er nýmæli, en allir skólar skulu hafa heildstæða stefnu til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Skólar skulu setja sér aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál. Aðgerðaáætlun gegn einelti er hluti af skólanámskrá og skal kynnt sérstaklega og birt opinberlega. Starfsfólk sérfræðiþjónustu skal aðstoða skóla í tengslum við aðgerðir gegn einelti og úrlausn einstakra mála eftir því sem þörf krefur. Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis var stofnað sérstakt fagráð í eineltismálum sem starfar á landsvísu en foreldrar eða skólar geta samkvæmt reglugerðinni óskað eftir aðstoð þess ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu.

Nýmæli er að í reglugerðinni er fjallað um líkamlegt inngrip í málum nemenda vegna óviðunandi og/eða skaðlegrar hegðunar þeirra. Áréttað er að starfsfólki skóla sé óheimilt að beita líkamlegum refsingum og líkamlegu inngripi í refsingarskyni. Ef starfsfólk skóla metur að háttsemi nemanda geti leitt af sér hættu fyrir samnemendur og/eða starfsfólk skóla þá ber starfsfólki skylda til að bregðast tafarlaust við slíku með líkamlegu inngripi til að stöðva hann. Ávallt skal þess gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Einnig eru í reglugerðinni settar viðmiðanir um að skólastjórar geta synjað nemendum um skólavist ef grunur leikur á að þeir séu undir áhrifum vímuefna.

Næstu skref:

Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun bregðast við niðurstöðum úttektarinnar með því m.a. að senda erindi til þeirra skóla, sem ekki hafa lokið vinnu við skilgreiningu á skólabrag og sem aldrei hafa kannað umfang eineltis í skólanum, þar sem óskað verður upplýsinga um stöðu mála.

Þá verður kannað hvaða skólar hafi leitað aðstoðar fagráðs gegn einelti og metið hvort þörf er á viðbrögðum eða breyttu verklagi fagráðs.

Skólar verða hvattir til að endurskoða skólareglurnar sínar reglulega og þeir jafnframt upplýstir um hvar nálgast megi mismunandi fyrirmyndir að skólareglum sem settar hafa verið. Allir skólar verða hvattir til að kynna skólareglur fyrir foreldrum og öðrum aðilum skólasamfélagsins utan skólans.

Þá verða skólar hvattir til að nýta sér viðmiðunarreglur, sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sett og birt á heimasíðu sinni, um gerð verklagsreglna um aðgerðir þegar skóli þarf að grípa til líkamslegs inngrips. Ráðuneytið mun athuga hvers konar agastjórnunarkerfi eru notuð í grunnskólum og leggja mat á hvort ástæða sé til að kanna þau nánar.

Skýrslan verður birt á vef ráðuneytisins og send rafrænt til skólastjóra, sveitarstjóra, skólaskrifstofa, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Umboðsmanni barna og Heimilis og skóla.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum