Hoppa yfir valmynd
8. maí 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Viskubrunnur hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2014

Söguskjóður á Dalvík hlutu hvatningarverðlaun og Helga Margrét Guðmundsdóttir er Dugnaðarforkur Heimils og skóla 2014

Heimili og skóli Foreldraverðlaun 2014
Foreldraverdlaun-Heimili-og-skoli-017

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent í 19. sinn í dag við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, ávarpaði samkomuna og afhenti verðlaunin ásamt formanni dómnefndar, Gísla Hildibrandi Guðlaugssyni og formanni Heimilis og skóla, Önnu Margréti Sigurðardóttur.  Í ávarpi sínu hvatti ráðherra Heimili og skóla til að vinna áfram í því að auka virkni foreldra á öllum skólastigum til virkrar þátttöku í námi barna sinna og foreldrastarfi allt frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla. „Með því að virkja foreldra er hægt að leysa úr læðingi afl sem stuðlar að enn betri menntun og velferð - og um leið að betra og jákvæðara samfélagi“.

Viskubrunnur hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2014

Verkefnið er unnið á Seyðisfirði og er spurningakeppni þar sem foreldrar, starfsfólk og nemendur Seyðisfjarðarskóla sameina krafta sína við undirbúning og safna í leiðinni fyrir skólaferðalagi 9. og 10. bekkjar skólans til Danmerkur. Verkefnið eflir tengsl skólastarfsins við nærsamfélagið og er leið til þess að gera nemendur virkari þátttakendur í samfélaginu og almennu félagsstarfi. „Dómnefndin var sammála um að þetta verkefni væri merkilegt að því leyti að krafist er samvinnu allra bæjarbúa til að verkefnið heppnist vel. Óhætt er að segja að vel hafi til tekist því verkefnið hefur staðið yfir í 14 ár og er einn af þessum föstu punktum í tilveru íbúa. Tengsl heimilis og skóla og nærsamfélags eru sterk í þessu verkefni og frábær upplyfting í svartasta skammdeginu. Við hrifumst af þessum mikla samtakamætti og allt er þetta gert fyrir börnin,“ segir Gísli H. Guðlaugsson, formaður dómnefndar.

Hvatningarverðlaun

Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla 2014 hlaut verkefnið Söguskjóður  sem starfrækt er á Dalvík og er samstarfsverkefni fræðslu- og menningarsviðs Dalvíkurbyggðar og leikskólanna Kátakots og Krílakots. Markmiðið með verkefninu er að fá foreldra (ekki síst af erlendum uppruna) inn í starf skólanna og til að búa til málörvandi námsefni. „Verkefnið er vel útfært og snertir alla fleti samstarfs milli heimila og skóla og greinilega komið til að vera,“ segir í niðurstöðum dómnefndar.

Dugnaðarforkaverðlaun

Dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2014 er Helga Margrét Guðmundsdóttir.  Hún hlaut viðurkenninguna fyrir eflingu foreldrastarfs og borgaravitundar. Hún á stóran þátt í þeirri vitundarvakningu og eflingu foreldrasamstarfs sem hefur átt sér stað á síðustu árum um allt land. „Fáir hafa lagt jafn mikið af mörkum í þennan málaflokk og barist fyrir honum af krafti og elju eins og Helga Margrét hefur gert,“ segir í tilnefningu. 

Í ár bárust 36 gildar tilnefningar til verðlaunanna.

Dómnefnd 2013 var skipuð eftirfarandi aðilum:

  • Gísli H. Guðlaugsson, formaður dómnefndar, stjórn Heimilis og skóla
  • Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands
  • Sveinbjörn Kristjánsson, verkefnastjóri hjá embætti landlæknis
  • Jódís Bjarnadóttir, formaður foreldraráðs MH
  • Sigríður Lára Ásbergsdóttir, deildarstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti
  • Hrund Logadóttir, skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar
  • Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri í Reykjanesbæ

Nánari upplýsingar um verðlaunin og verðlaunahafa veitir formaður dómnefndar, Gísli H. Guðlaugsson, s: 896-7482. Einnig eru upplýsingar um Heimili og skóla og Foreldraverðlaunin á www.heimiligoskoli.is.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum