Hoppa yfir valmynd
10. júní 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Norræn ráðstefna um fullorðinsfræðslu

Yfirskrift ráðstefnunnar er „Norrænar brýr til ævimenntunar“

Norræn ráðstefna um fullorðinsfræðslu
nordiskebroer_441127437

Mennta- og menningarmálaráðuneytið ásamt Norrænu ráðherranefndinni og Norrænu samstarfsneti um nám fullorðinna (NVL) stendur fyrir ráðstefnunni „Norrænar brýr til ævimenntunar“ í Reykjavík dagana 10. og 11. júní 2014. Ráðstefnunni er ætlað að örva umræður innan ráðherranefndarinnar um sjálfbæra norræna velferð og meðal þeirra sem vinna að fullorðinsfræðslu í norrænu ríkjunum.

Í formennskuáætlun Íslands í norrænu ráðherranefndinni segir m.a. um ráðstefnuna: „Sjálfbær þróun norræna velferðarlíkansins, sem að sínu leyti getur lagt grunn að nýsköpun, aukinni samkeppnishæfni og framleiðni, gerir kröfu um víðtæka þátttöku allra sem málið varðar, þ.e. þeirra sem starfa við kennslu fyrir hið opinbera, í einkafyrirtækjum eða sjálfboðastarfi. Athafnalíf og menntakerfi verður að byggja brýr sín á milli til þess að þróa færni og þekkingu“.

 Á ráðstefnunni verður leitast við að samþætta reynsluna af Biophilia kennsluverkefninu þar sem áherslan er lögð á samstarf milli vísinda, menningar og menntunar. Aðferðin miðar að því að styrkja samhengið á milli vísinda, menningar og menntunar. Þátttakendur á ráðstefnunni fá kynningu á nýjustu rannsóknum og prófa þróunarvinnu sem byggir á rannsóknum og sem samþættir listir, náttúruvísindi, kennslufræði fullorðinna og upplýsingatækni/fjölmiðlun.

Verkefnið „Sjálfbær norræn velferð“ miðar að því að finna nýjar og skapandi lausnir, sem eiga að stuðla að auknum gæðum og jöfnuði í menntun, starfi og heilbrigði 25 milljóna íbúa Norðurlandanna.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra flutti ávarp við opnun ráðstefnunnar.

Ráðstefnuna sækja um 230 manns frá öllum Norðurlöndunum og sjálfstjórnarsvæðunum auk fulltrúa frá öðrum löndum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum