Hoppa yfir valmynd
12. júní 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úttekt á sérfræðiþjónustu

Markmið með úttektinni var kanna hvernig mismunandi útfærslur á sérfræðiþjónustu sex sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum hafa reynst miðað við ákvæði reglugerðar  

Að mati úttektaraðila hefur sveitarfélögum tekist misvel að tryggja aðgengi að sérfræðiþjónustu. Helstu áhrifavaldar virðast vera landfræðileg lega, stærð sveitarfélaga og framboð á fagfólki. Hlutverk, ábyrgð, skyldur og verkaskipting sveitarfélagsins annars vegar og skóla hins vegar um sérfræðiþjónustu sveitarfélagsins, eru víða óljós og þekking á reglugerð um þessi efni víða ábótavant í skólasamfélaginu. Þá telja úttektaraðilar að það skorti samráð milli ríkis og sveitarfélaga um hlutverk, ábyrgð og tilfærslu á sérfræðiþjónustu auk þess að almenn fræðsla, ráðgjöf og upplýsingagjöf til foreldra mætti vera meiri. Að auki er talið að sveitarfélög mættu hafa meira frumkvæði að stuðningi við starfsfólk og skólana, sem faglegar stofnanir og auka eftirfylgni og mat á árangri. Almennt kom  fram meðal viðmælenda í úttektinni að erfitt væri að framfylgja stefnu um skóla án aðgreiningar miðað við fyrirliggjandi samkomulag. Skortur væri á fjármagni, meiri og fjölbreyttari sérfræðiþekkingu og frekari stuðning á faglegum sviðum. Að mati úttektaraðila er mest um veikleikamerki þegar skólarnir sjálfir veita þjónustuna.

Úttektaraðilar setja fram fjölda tillagna til úrbóta. Tillögurnar beinast bæði að sveitarfélögum og ráðuneyti en einnig eru settar fram tillögur til úrbóta um hvert fyrirkomulag fyrir sig, þ.e. sérfræðiþjónustu sem sjálfstæða einingu, sérfræðiþjónustu í byggðasamlagi og sérfræðiþjónustu veitta af skólunum sjálfum. Sjá nánar í skýrslunni.

Bakgrunnur

Í mars 2013 fól mennta- og menningarmálaráðuneytið Capacent Gallup ehf. að gera könnun meðal sveitarstjórna um fyrirkomulag og framkvæmd reglugerðar nr. 584/2010 um sérfræðiþjónustu við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum. Könnunin kom m.a. til vegna ýmissa vísbendinga, sem ráðuneytinu hafði boris,t um að það væru tilteknar brotalamir í framkvæmd sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, m.a. sem lutu að stærð og landfræðilegri legu sveitarfélaga. Könnunin var liður í þriggja ára áætlun ráðuneytisins um úttektir og kannanir í leik- og grunnskólum á tímabilinu 2013-2015 en einnig  hluti af lögboðnu eftirliti mennta- og menningarmálaráðuneytisins  skv. 4. og 38. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og 3. og 20. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla.

Til þess að fá betri mynd af þjónustunni á vettvangi ákvað ráðuneytið, með vísan til ofangreinds, að gera úttekt á fyrirkomulagi og framkvæmd sérfræðiþjónustu í eftirtöldum sex sveitarfélögum: Akureyrarbæ, Fljótdalshéraði, Hafnarfirði, Stykkishólmsbæ, Vesturbyggð og Þingeyjarsveit. Við val á sveitarfélögum var reynt velja sveitarfélög með mismunandi fyrirkomulag á sérfræðiþjónustu, þ.e. sérfræðiþjónustu sem sjálfstæða einingu, sérfræðiþjónustu í byggðasamlagi og sérfræðiþjónustu veitta af skólunum sjálfum.

Markmiðið með úttektinni var kanna hvernig mismunandi útfærslur reynast við að koma til móts við ákvæði fyrrgreindrar reglugerðar um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum. Rannsakað var hvernig til hefur tekist í þessum sveitarfélögum að tryggja fullnægjandi aðgengi að sérfræðiþjónustu innan sveitarfélagsins sem og tengsl við sérfræðistofnanir á landsvísu. Leitað var svara við því hvort staðsetning og stærð sveitarfélaga, mismunandi útfærsla eða skipulag sérfræðiþjónustu hafi áhrif á aðgengi og gæði þjónustunnar. Sérstaklega var athugað hvernig til hefur tekist í fyrrnefndum sex sveitarfélögum að skipuleggja þá tvíþættu sérfræðiþjónustu sem reglugerðin gerir ráð fyrir, þ.e. stuðning við nemendur í leik- og grunnskólum og foreldra þeirra og hins vegar stuðning við starfsemi skóla og starfsfólk þeirra.

Fyrirkomulag og framkvæmd þjónustunnar er á þrjá vegu hjá þeim sveitarfélögum sem úttektin nær til. Hjá Akureyrarbæ og Hafnarfjarðarbæ rekur sveitarfélagið sjálfstæða einingu. Stykkishólmsbær og Fljótsdalshérað eru í byggðasamlagi nokkurra sveitarfélaga. Skólar í Þingeyjarsveit og Vesturbyggð sinna sérfræðiþjónustu í samvinnu við aðkeypta sérfræðinga og með starfsfólki einstakra skóla.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum