Hoppa yfir valmynd
3. september 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Undirbúningur að nýju vinnumati fyrir framhaldsskólakennara

Unnið er að nýju vinnumati fyrir kennslu allra námsáfanga í framhaldsskólum landsins

vvf_vmn_28agu_14b

Vinna við nýtt mat á vinnu kennara í framhaldsskólum er komin á fullt skrið samkvæmt ákvæðum í gildandi kjarasamningi framhaldsskóla þess efnis að unnið skuli að nýju vinnumati fyrir kennslu allra námsáfanga í framhaldsskólum landsins. Verkefnisstjórn  með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Kennarasambands Íslands og fjármálaráðuneytisins stýrir vinnunni. Verkefnisstjórnin tók til starfa í maí en vinnumatsnefndir voru skipaðar nýlega. Þær eru fimm talsins og byggist skipting þeirra á faggreinum og fagsviðum.   

Fyrsti sameiginlegi fundur verkefnisstjórnar og vinnumatsnefnda, sem vinna munu saman að nýju vinnumatskerfi fyrir framhaldsskólakennara, fór fram í húsnæði mennta- og menningarmálaráðuneytisins fimmtudaginn 28. ágúst. Í hverri vinnumatsnefnd sitja fjórir fulltrúar, tveir skipaðir af  Kennarasambandi Íslands og tveir af mennta- og menningarmálaráðuneytinu.


Hópurinn mun vinna að undirbúningi vinnumats og gerð sýnidæma undir stjórn verkefnisstjórnar samkvæmt 7. grein kjarasamnings ríkisins við Kennarasamband Íslands frá 4. apríl 2014. Stefnt er að því að meginútfærsla vinnumatsins verði tilbúin 20. janúar á næsta ári. Félagsmenn Kennarasambands Íslands í framhaldsskólum munu síðan greiða atkvæði um upptöku nýs vinnumats á kennsluþætti kennarastarfsins í febrúar á næsta ári. Verði nýtt vinnumat samþykkt geta framhaldsskólar innleitt það frá og með upphafi skólaársins 2015-16.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum