Hoppa yfir valmynd
9. september 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skýrsla OECD um menntamál 2014

Hlutfall þeirra sem ljúka framhaldsskólaprófi hækkar jafnt og þétt

EAG-2014

OECD birtir árlega skýrslu um menntamál, Education at a Glance, með tölulegum upplýsingum um þróun menntamála í aðildarlöndunum. Helsu efnisþættir eru menntunarstig og þróun þess, og útgjöld til menntamála. Að auki er fjallað um aðsókn að námi, skipulag skólastarfs, kennslutíma eftir námsgreinum, vinnutíma og laun kennara og fleira. Hér eru nokkur atriði sem fram koma í skýrslunni:

Hlutfall háskólamenntaðra fer stöðugt hækkandi og er núna um 35% af fólki á aldrinum 24-64 ára. Talsvert fleiri konur en karlar ljúka háskólanámi og í aldursflokknum 25 – 34 ára höfðu 44% kvenna en 28% karla lokið háskólagráðu árið 2012.

Um 60% ungs fólks má eiga von á því að ljúka háskólagráðu á lífsleiðinni ef miðað er við núverandi fjölda brautskráninga. Þetta er hæsta hlutfall innan OECD og skýrist að hluta til af fjölda þeirra sem stunda háskólanám seinna á lífsleiðinni.

Hlutfall þeirra sem hafa lokið framhaldsskólaprófi hefur hækkað jafnt og þétt frá aldamótum og var 71% af aldurshópnum 25 – 64 ára. Miklu munar þar um að konum, sem ljúka framhaldsskólaprófi, hefur fjölgað umtalsvert. Um 80% kvenna höfðu lokið framhaldsskóla í aldurshópnum 25-34 ára. Um síðustu aldamót var hlutfallið 65% í sama aldurshópi meðal kvenna.

Hlutfall þeirra sem ljúka framhaldsskóla á skilgreindum námstíma er lægst hér á landi og óvíða er meðalaldur þeirra sem ljúka námi jafn hár og hér. Sex árum frá innritun hafa aðeins 58% lokið framhaldsskóla, 64% kvenna og 52% karla. Hlutfallið er enn lægra hjá innflytjendum  því eftir sex ár hafa aðeins 31% þeirra lokið námi.

Fjöldamargt annað kemur fram í skýrslunni, um útgjöld til menntamála, aðsókn að námi, skipulag skólastarfs, kennslutíma eftir námsgreinum, vinnutíma og laun kennara, o.fl. Í eftirfarandi gögnum eru frekari upplýsingar:

·        Samantekt OECD um helstu niðurstöður um Ísland (á íslensku)

·         Country Note Iceland (enska)

·         Samantekt mennta- og menningarmálaráðuneytis um efni skýrslunnar ásamt töflum með helstu lykiltölum.

·         Vefur OECD um Education at a Glance 2014

·         Á vef OECD Education GSP  er aðgengilegt vefviðmót til að skoða gögnin og bera saman ríki.

·         Á vef OECD um menntamál eru margvísleg gögn og textar, þ.á m. um Education at Glance 2014.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum