Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2014

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í tilefni af degi íslenskrar tungu 2014 voru afhent í Iðnó 15. nóvember.

Verðlaunahafar á degi íslenskar tungu með ráðherra

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í tilefni af degi íslenskrar tungu 2014 voru afhent í Iðnó 15. nóvember. Verðlaunin eru veitt árlega. Auk þess voru veittar tvær viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu. [Athugið: dagur íslenskrar tungu er sunnudagurinn 16. nóvember en að þessu sinni er efnt til dagskrár undir merkjum hátíðisdagsins laugardaginn 15. nóvember.]

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra veitti Steinunni Sigurðardóttur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2014.

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir:

 „Steinunn Sigurðardóttir er fædd 26. ágúst árið 1950 og ólst upp í Reykjavík. Hún hefur búið víða um lönd en undanfarin ár hefur hún haft fast aðsetur í Berlín. Steinunn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1968 og lauk heimspeki- og sálfræðinámi við University College í Dyflinni árið 1972. Hún var fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu og fréttaritari með hléum á árunum 1970 til 1982 og hefur einnig starfað sem blaðamaður og þáttagerðarmaður við útvarp og sjónvarp.

Steinunn hóf rithöfundaferilinn aðeins 19 ára gömul þegar ljóðabókin Sífellur kom út. Nýr tónn var sleginn í íslenskum bókmenntum og síðan hafa lesendur glaðst yfir hverju verki sem Steinunn hefur sent frá sér en þau eru orðin rúmlega tuttugu talsins. Hún er ekki einhamur höfundur því auk ljóðabóka hefur hún sent frá sér smásögur, skáldsögur, barnabók, viðtalsbók og leikrit bæði fyrir sjónvarp og útvarp. Steinunn hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins árið 1990 og fimm árum síðar féllu Íslensku bókmenntaverðlaunin henni í skaut fyrir skáldsöguna Hjartastað. Auk þess voru Síðasta orðið, Hugástir, Sólskinshestur, Góði elskhuginn og Jójó tilnefnd til sömu verðlauna. Tvær aðrar skáldsögur hennar, Hjartastaður og Tímaþjófurinn, voru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs af Íslands hálfu. Steinunn á lesendur víða um heim því verk hennar hafa komið út á fjölda tungumála.

Hugmyndaauðgi Steinunnar og vald hennar á íslensku máli hefur löngum vakið aðdáun eða eins og Jón Hallur Stefánsson komst að orði í gagnrýni um ljóðabókina Kúaskít og norðurljós kann hún „þá list að láta óvænt orð á réttum stað uppljóma heilu kvæðin“. Það er mikil gáfa að búa yfir slíkum hæfileika. Fáir skrifa líka af jafnmiklu næmi um ástina og Steinunn en sömuleiðis hefur togstreitan í samskiptum kynjanna verið áleitin í verkum hennar. Í ljóðinu Einu-sinni-var-landinu úr bókinni Ástarljóð af landi segir: „En jafnvel orðhagir menn áttu ekki orð yfir þessa eyju / og töldu sig vera í sérstakri náð að mega finna hana. / Fá að vera.“ Fegurð íslenskrar náttúru er yfir og allt um kring í ljóðheimi Steinunnar  og því fer afar vel á því að hún hljóti verðlaun kennd við Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðing.“

 Í reglum mennta- og menningarmálaráðuneytis um Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar segir að þau beri að veita einstaklingum er hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Ráðgjafarnefnd dags íslenskrar tungu gerir tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verðlaunahafa og rökstyður val sitt. Ráðgjafarnefndin var að þessu sinni skipuð Gerði Kristnýju rithöfundi, sem var formaður, Aðalsteini Ásberg Sigurðssyni, rithöfundi og útgefanda, og Gunnþórunni Guðmundsdóttur, prófessor í bókmenntafræði. Verðlaunahafi fær í verðlaun 700 þúsund krónur, ritið Jökla á Íslandi eftir Helga Björnsson og skrautritað verðlaunaskjal. Íslandsbanki veitir verðlaunaféð.

Sérstakar viðurkenningar á degi íslenskrar tungu

Í reglum mennta- og menningarmálaráðuneytis um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu segir að auk Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sé heimilt að veita sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu. Að tillögu ráðgjafarnefndar ákvað mennta-og menningarmálaráðherra að veita tvær viðurkenningar í tilefni af degi íslenskrar tungu árið 2014.

Þær hljóta annars vegar vefnámskeiðið Icelandic Online og hins vegar Lestrarhátíð í bókmenntaborg. Viðurkenningarhafar fá listaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur.

Í greinargerð ráðgjafarnefndar segir um vefnámskeiðið Icelandic Online:

„Námskeiðið Icelandic Online er vefnámskeið í íslensku sem erlendu máli. Það var tekið í notkun fyrir tíu árum og hefur bæst við námsefnið jafnt og þétt allar götur síðan. Icelandic Online er öllum opið og aðgangur er ókeypis. Námskeiðið er einkum ætlað erlendum háskólanemum en einnig öðrum sem áhuga hafa á íslensku máli og menningu, bæði  erlendis og hér á landi. Að verkefninu standa Hugvísindastofnun, Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og  Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Námskeiðið hefur stuðlað að aukinni íslenskukunnáttu svo um munar og hefur gagnast tugþúsundum notenda víða um heim.“

Í greinargerð ráðgjafarnefndarinnar segir eftirfarandi um Lestrarhátíð í bókmenntaborg:

„Eitt af stærri verkefnum Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO er að standa fyrir árlegri lestrarhátíð í samvinnu við stofnanir, félagasamtök og aðra sem starfa á bókmenntasviðinu. Hátíðin var haldin í fyrsta sinn í október árið 2012 og er fyrir fólk á öllum aldri en athyglinni hefur líka verið beint sérstaklega að unglingum og ungu fólki. Lestrarhátíð er hugsuð sem grasrótarhátíð þar sem allir, sem vilja bjóða upp á viðburði og dagskrá sem tengist þemanu hverju sinni, geta tekið þátt enda eru einkennisorð Bókmenntaborgarinnar Orðið er frjálst. Í þau þrjú skipti, sem hátíðin hefur verið haldin, hefur hún staðið allan októbermánuð og þemað verið mismunandi eftir árum: Vögguvísa (2012), Ljóð í leiðinni (2013) og Tími fyrir sögu (2014). Lestrarhátíðin er einkar vel heppnað og þarft verkefni sem styður dyggilega við íslenska tungu og bókmenntir.“

Á myndunum eru verðlaunahafarnir með Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum