Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framhaldsskólinn á Húsavík

Birt hefur verið skýrsla um niðurstöður úttektar á skólanum

Úttektin var gerð fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti  á grundvelli 42. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 og samkvæmt þriggja ára áætlun mennta- og menningarmálaráðuneytis um úttektir á framhaldsskólastigi. Markmið úttektarinnar var að leggja mat á starfsemi skólans með hliðsjón af gildandi lögum, reglugerðum og aðalnámskrá og veita almennar upplýsingar um starfsemi hans. Lagt var mat á stjórnun og rekstur, skólanámskrá, nám og kennslu, skólabrag og samskipti, samstarf við foreldra, sérþarfir nemenda og kannað hvort innra mat skólans mætti ákvæðum aðalnámskrár og þörfum hans.

Í skýrslunni um Framhaldsskólann á Húsavík segir m.a.:

"Framhaldsskólinn á Húsavík er fámennur bóknámsskóli með áfangakerfi. Meðal styrkleika skólans telja úttektaraðilar vera að stefnuskjöl skólans eru að jafnaði markviss og skýr og markmið í skólasamningi eru skipulega fram sett og vel að þeim unnið. Mikil vinna hefur verið lögð af hálfu stjórnenda og kennara í endurskoðun skólanámskrár í ljósi ákvæða Aðalnámskrár framhaldsskóla 2011. Stefna skólans um kennsluhætti er afdráttarlaus og metnaðarfull. Framhaldsskólinn á Húsavík nýtur velvildar og virðingar í næsta umhverfi sínu og virðist vel tengdur nærsamfélagi sínu.
Nemendum, sem nánast eingöngu koma frá Húsavík og næsta umhverfi, hefur farið fækkandi á undanförnum árum sökum íbúaþróunar á svæðinu. Mikil fækkun nemenda síðustu ár kemur niður á námsframboði og hefur leitt til fækkunar starfsmanna. Fækkun stöðugilda við kennslu reynir mikið á þverfaglega hæfni kennara. Skólinn er kominn að hættumörkum hvað varðar nemendafæð.Skortur á heimavist og/eða leiguhúsnæði fyrir aðkomunemendur hamlar eðlilegri þróun skólans.
Meðal aðgerða til úrbóta má nefna aðúttektaraðilar telja að gera þurfi að markvisst átak í því með aðkomu sveitarfélags, fyrirtækja og stofnana í Norðurþingi að móta framtíðarsýn fyrir skólann með það að meginmarkmiði að styrkja nám sem fyrir er í skólanum, fjölga námsleiðum og skapa nýjar og fjölga nemendum. Endurskoða skipurit FSH þannig að það lýsi betur stjórnunaruppbyggingu skólans. Stefna verði mótuð um notkun upplýsingatækni í námi og kennslu og hvort eða hvernig nýta beri tækjakost nemenda (fartölvur, spjaldtölvur, síma) í kennslustundum".

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum