Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur leikskólans 2015

Mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Orðsporið sem Kópavogsbær og Ölfus hlutu í viðurkenningarskyni fyrir hvetjandi leikskólaumhverfi og fleira.

Ordsporid.2015

Orðsporið var veitt við hátíðlega athöfn í Björnslundi leikskólans Rauðhóls í Norðlingaholti. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti viðurkenningarnar. Sesselja Hauksdóttir leikskólafulltrúi og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri tóku við viðurkenningunni fyrir hönd Kópavogs og Gunnsteinn Ómarsson bæjarstjóri og G. Ásgerður Eiríksdóttir leikskólastjóri tóku við Orðsporinu af hálfu Sveitarfélagsins Ölfuss.

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur föstudaginn 6. febrúar ár hvert. Þetta var í áttunda skiptið sem dagurinn  var haldinn og sem fyrr var ýmislegt gert til hátíðabrigða. Síðastliðin þrjú ár hefur viðurkenningin Orðsporið verið veitt á Degi leikskólans og svo var einnig nú. Orðsporið hefur verið veitt þeim sem þótt hafa skara fram úr í að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og unnið ötullega í þágu leikskóla og leikskólabarna.

Ákveðið var að Orðsporið 2015 yrði veitt þeim rekstraraðila/sveitarfélagi sem þykir hafa skarað fram úr við að hækka menntunarstig starfsmanna leikskóla og/eða fjölga leikskólakennurum í sínum leikskóla.

Valnefnd, skipuð fulltrúum samstarfshóps um Dag leikskólans, (Félag leikskólakennara, félag stjórnenda leikskóla, Heimili og skóli, samband íslenskra sveitarfélaga og mennta- og menningarmálaráðuneytið) vann úr tilnefningum sem bárust og fyrir valinu voru tvö sveitarfélög Kópavogsbær og Sveitarfélagið Ölfus. Bæði sveitarfélögin hljóta Orðsporið fyrir hvetjandi leikskólaumhverfi, sveigjanleika í starfsumhverfi sem gerir leikskólastarfsmönnum kleift að geta sinnt námi með vinnu. Auk þess að bjóða starfsmönnum sínum styrki vegna námskostnaðar og launuð námsleyfi. Í báðum sveitarfélögum hefur þeim sem stundað hafa og lokið  námi í leikskólakennarafræðum fjölgað vegna metnaðarfullrar stefnu til fjölgunar leikskólakennara og ekki síst  framkvæmd þeirrar stefnu.

Árið 2012 var Orðsporið veitt Súðavíkurhreppi fyrir að bjóða gjaldfrjálsan leikskóla og árið 2013 kom Orðsporið í hlut þeirra Kristínar Dýrfjörð og Margrétar Pálu Ólafsdóttur fyrir að hvetja til opinberrar umræðu um málefni leikskólans. Á síðasta ári (2014) fengu aðstandendur þróunarverkefnisins „Okkar mál“ Orðsporið, en markmið verkefnisins er að auka samstarf skóla og stofnana í Fellahverfi með það að leiðarljósi að efla félagslegan jöfnuð, námsárangur og vellíðan barna í hverfinu undir forystu leikskólanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum