Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Undirritun samninga um Smáþjóðaleikana

Mennta- og menningarmálaráðherra, borgarstjóri og forseti ÍSÍ undirrituðu samstarfssamninga um Smáþjóðaleikana 2015

IMG_7593

Smáþjóðaleikarnir munu fara fram dagana 1. til 6. júní 2015 í Reykjavík og eins og nafnið bendir til er um að ræða íþróttakeppni með þátttöku smáþjóða í Evrópu. Fyrstu leikarnir voru haldnir í San Marínó árið 1985 og voru 25 íslenskir þátttakendur á þeim en þeir verða um 200 á leikunum næsta sumar.

Níu þjóðir taka þátt í Smáþjóðaleikunum: Ísland, San Marínó, Andorra, Mónakó, Malta, Liechtenstein, Kýpur, Svartfjallaland og Lúxemborg. Keppt verður í frjálsum íþróttum, sundi, júdó, skotfimi, tennis, borðtennis, körfuknattleik, blaki, áhaldafimleikum og golfi. Gert er ráð fyrir að um 1200 sjálfboðaliða þurfi til að starfa á leikunum.

Í tilkynningu frá ÍSÍ segir m.a. að stuðningur samstarfsaðila Smáþjóðaleikanna skipti sköpum fyrir ÍSÍ og Smáþjóðaleikaverkefnið, því án þeirra væri ekki hægt að halda leikana. „Bæði ríkið og Reykjavíkurborg eiga fulltrúa í skipulagsnefnd Smáþjóðaleikanna sem hefur tryggt aðkomu þessara aðila í sambandi við fyrirkomulag leikanna. Fulltrúar samstarfsaðilanna hafa gert allt til þess að veita sem mestan stuðning og unnið vel í skipulagsnefndinni“, segir ennfremur.

Framlag Reykjavíkurborgar er í formi leigukostnaðar vegna íþróttamannvirkja og endurnýjunar og viðhalds áhalda í keppnismannvirkjum. Á fjárlögum ríkisins eru framlög til Smáþjóðaleikanna 25 m.kr. árið 2014 og 75 m.kr. árið 2015.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum