Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sameiginleg úrlausnarefni Québec-fylkis og Norðurlanda

Biophilia kynnt á fjölmennu málþingi um sjálfbæra þróun á norðurslóðum

symposiumIMG_en

Í dag hófst í Québec í Kanada málþing með yfirskriftinni „International Symposium on Northern Development“ , sem Norræna ráðherranefndin og fylkisstjórn Québec í Kanada efna í sameiningu. Meginþema málþingsins er sjálfbær þróun norðlægra svæða. Meðal frummælenda eru Auður Rán Þorgeirsdóttir og Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir, verkefnistjórar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þær munu kynna og ræða Biophilia verkefnið, sem nú stendur yfir á vegum ráðuneytisins og Norrænu ráðherranefndarinnar.

Meðal framsögumanna á málþinginu verða Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Vincent Rigby formaður embættisnefndar Norðurskautsráðsins, Bjarke Ingels arkitekt og Minik Rosing prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Við opnun málþingsins fluttu ávörp Philippe Couillard forsætisráðherra Québec og Dagfinn Høybråten framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Fjallað er um málþingið á vef Norrænu ráðherranefndarinnar og þar segir m.a.: Þótt Québec sé landfræðilega fjarlægt Norðurlöndum eiga svæðin það sameiginlegt að stórir hlutar þeirra liggja á norðurslóðum. Af því leiðir að svæðin standa frammi fyrir ýmsum sameiginlegum áskorunum. Viðfangsefnin tengjast þróun hrjóstrugra og viðkvæmra land- og hafsvæða, loftslagsbreytingum og aukinni eftirspurn eftir efnahagsþróun sem á eftir að breyta samfélögum Québec og Norðurlandanna nú og til framtíðar.

Breið samstaða ríkir um að hagvöxtur og samfélagsþróun eigi að byggja á grundvallarhugmyndum um sjálfbærni. Rammi málþingsins helgast af því að Québec og Norðurlönd standa frammi fyrir svipuðum úrlausnarefnum og eiga sameiginlegt að vilja takast á við þau með sjálfbærni að leiðarljósi.

Málþingið sækja stjórnmálamenn, embættismenn, fulltrúar háskóla og atvinnulífs, félagasamtaka og íbúa Québec og Norðurlanda. Það er hugsað sem fundarstaður til að skiptast á þekkingu og reynslu á sviði sjálfbærni.   

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum