Hoppa yfir valmynd
25. mars 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Veflæg upplýsingaveita opnuð um símenntun og starfsþróun kennara 

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra opnaði formlega, þann 19. mars sl., upplýsingaveitu um fræðslutilboð sem ætluð eru kennurum, skólastjórnendum, kennslu-, náms- og starfsráðgjöfum í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum.

Starfsþróun kennara

Markmið upplýsingaveitunnar er tvíþætt: að miðla og að veita yfirsýn. Vonast er til að sem flest fræðslutilboð sem ætlað er að styrkja umræddar starfsstéttir faglega og stuðla þannig að starfsþróun þeirra verði birt á upplýsingaveitunni s.s. námskeið, fyrirlestrar, ráðstefnur, málþing og samstarfsverkefni. Með því móti verða þau aðgengileg fyrir væntanlega þátttakendur en færir einnig fræðsluaðilum og öðrum mikilvægar upplýsingar um hvað er í boði og á hvaða sviðum skortir framboð. Auðvelt er að leita í upplýsingaveitunni og eru fræðslutilboðin sérstaklega merkt útfrá skólastigum, skólagerðum, viðfangsefnum og formi kennslunnar.  
 
Ef vel tekst til verður upplýsingaveitan fastur viðkomustaður skólafólks í nánustu framtíð. Fræðsluaðilar munu setja þar inn efni endurgjaldslaust. Til að byrja með verða það háskólarnir sem mennta kennara sem setja inn efni en öðrum gefst kostur á að bætast í hópinn á næstunni.
 
Fagráð um símenntun og starfsþróun kennara stendur að upplýsingaveitunni. Fagráðið var sett á fót haustið 2012. Stofnun þess kemur í kjölfar vinnu samstarfsnefndar um símenntun kennara sem hóf störf sumarið 2011. Markmið fagráðsins er að vinna að verkefnum á sviði símenntunar og starfsþróunar kennara og skólastjórnenda á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi auk tónlistarskóla.
 
Upplýsingaveitan er staðsett á vef fagráðs um símenntun og starfsþróun kennara: www.starfsthrounkennara.is.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum