Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þrjú frumvörp um breytingar á höfundalögum lögð fyrir Alþingi

Öll frumvörpin fjalla um breytingar á höfundalögum nr. 73/1972. Tvö þeirra eru til að leiða í lög ákvæði tilskipana ESB og eitt er áfangi í heildarendurskoðun laganna.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi þrjú frumvörp um breytingar á höfundalögum sem varða lengingu verndartíma hljóðrita, afnot munaðarlausra verka og einkaréttindi höfunda og samningskvaðir.

1. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (tilskipun 2011/77/ESB um breytingu á tilskipun 2006/116/EB: lenging verndartíma hljóðrita)

Frumvarpið snýst um að höfundaréttur að tónverki með texta, þar sem bæði texti og tónverk eru samin sérstaklega fyrir hlutaðeigandi tónverk með texta, helst uns 70 ár eru liðin frá andlátsári þess sem lengst lifir af tilteknum aðilum. Þá er verndartími hljóðrita lengur úr 50 árum í 70 ár. Framlengingu verndartíma hljóðrita fylgir nýtt ákvæði um rétt listflytjenda til árlegrar viðbótarþóknunar á framlengdum verndartíma. Viðbótarþóknunin skal samsvara 20% af þeim tekjum sem framleiðandi hljóðrits hefur af því að á framlengdum verndartíma. Þá er í frumvarpinu nýtt ákvæði sem heimilar listflytjanda að segja upp samningi um framsal réttinda ef umsamin réttindi eru ekki nýtt í nægilegum mæli á lengdum verndartíma.

2. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (tilskipun 2012/28/ESB: afnot munaðarlausra verka)

Um er að ræða frumvarp um breytingu á lögum vegna tilskipunar um tiltekin leyfileg afnot á munaðarlausum verkum. Munaðarlaus verk eru þau verk nefnd sem njóta verndar höfundaréttar en höfundur þeirra er óþekktur eða ekki vitað hvar hann heldur sig og því ekki unnt að leita heimildar hjá þeim til nota verkanna. Með frumvarpinu fá opinberar menningarstofnanir, þ.e. bókasöfn, skjalasöfn, Kvikmyndasafn Íslands og Ríkisútvarpið heimild til að nýta áður útgefið og útsent efni og gera aðgengilegt almenningi að undangenginni ítarlegri leit.

3. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum nr. 73/1972 (endurskoðun höfundalaga – einkaréttindi höfunda og samningskvaðir)

Frumvarpið er samið á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samráði við höfundaréttarnefnd og er liður í heildarendurskoðun höfundalaga, sem hófst haustið 2009. Fyrsta áfanga lauk með undirbúningi frumvarps sem varð að lögum nr. 93/2010. Að þessu sinni snýr endurskoðun höfundalaga einkum að því annars vegar að samræma I. kafla gildandi höfundalaga betur efni tilskipunar 2001/29/EB og hins vegar að endurskoða ákvæði um samningskvaðaleyfi í höfundalögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum