Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Verðlaun Háskólans í Reykjavík

Mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í rannsóknum, þjónustu og kennslu  

Verdlaun_HR

Rannsóknarverðlaun HR í ár hlaut dr. Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við sálfræðisvið viðskiptadeildar HR og prófessor við Columbia-háskóla í New York. Kennsluverðlaun HR árið 2015 hlaut Anna Sigríður Bragadóttir, kennari við frumgreinadeild HR og handhafi þjónustuverðlauna HR árið 2015 er Sigrún María Ammendrup, skrifstofustjóri hjá tölvunarfræðideild.

Verðlaun HR eru veitt á hverju ári og er markmið með þeim að hvetja kennara og starfsfólk háskólans til nýsköpunar, þróunarstarfs, rannsókna og framúrskarandi þjónustu. Það var Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra sem afhenti verðlaunin. Verðlaun HR hafa verið verið veitt síðan árið 2010 og því hafa nú 15 starfsmenn hlotið verðlaunin.

Illugi Gunnarsson fjallaði í erindi sínu við verðlaunaafhendinguna um stöðu íslensks menntakerfis. „Nú er það þannig að meðalaldur þeirra sem útskrifast úr háskóla hér á landi er mikið hærri en í öðrum OECD-löndum. Menntun er fjárfesting sem gefur mikið meira af sér til bæði einstaklingsins og þjóðfélagsins alls ef viðkomandi útskrifast úr sínu námi fyrr á lífsleiðinni.“ Illugi sagði Íslendinga ekki geta vænst þess að lífskjör okkar verði sambærileg við aðrar þjóðir nema þessu verði breytt. „Þar sem hagkerfi okkar verður knúið áfram af hugviti og þekkingu ber ég mikla virðingu fyrir því starfi sem unnið er innan Háskólans í Reykjavík og það gefur auga leið að fyrir framtíð Íslands gegnir þessi menntastofnun, með sín góðu tengsl við atvinnulífið, lykilhlutverki.“

Áhrif rannsókna á samfélagið mikilvægur þáttur

Rannsóknarverðlaun HR í ár hlaut dr. Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við sálfræðisvið viðskiptadeildar HR og prófessor við Columbia-háskóla í New York. Hún hefur í samstarfi við aðra fræðimenn stundað rannóknir á líðan, hegðun og heilsu barna og unglinga í 20 ár. Stór liður í þeim rannsóknum er könnun sem lögð er fyrir íslensk ungmenni á hverju ári til að fá vitneskju um heilsu þeirra, hegðun og líðan. Gögn úr þessum rannsóknum hafa meðal annars verið notuð til grundvallar í forvarnarstarfi hér á landi og víða í Evrópu.

Við verðlaunaafhendinguna sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Ingu Dóru vera afar afkastamikinn og mikilvægan fræðimann. „Inga Dóra hefur birt yfir 60 greinar á ritrýndum vettvangi og þar af átta greinar á síðasta ári. Hún hefur unnið að rannsóknum sínum í hartnær 20 ár og niðurstöður þeirra hafa haft mikil áhrif á samfélagið. Við val á rannsóknarverðlaunum HR er ekki aðeins litið til afkasta fræðimanna heldur einnig tengingu rannsókna þeirra við íslenskt samfélag. Þar er árangur Ingu Dóru ótvíræður.“ Við val á rannsóknarverðlaunum HR er þar að auki litið til öflunar styrkja, framlags til rannsóknarstarfs háskólans og áhrifa á nemendur og unga rannsakendur.

Inga Dóra hlaut rannsóknarstyrk frá Evrópusambandinu í febrúar síðastliðnum. Inga Dóra er annar Íslendingurinn sem hlýtur þann styrk frá European Research Council (ERC) og er afar sjaldgæft að fræðimenn sem einstaklingar fái slíkan rannsóknarstyrk en upphæð hans var um 300  milljónir íslenskra króna.

Nemendur HR velja 

Kennsluverðlaun HR árið 2015 hlaut Anna Sigríður Bragadóttir, kennari við frumgreinadeild HR en hún á langan og farsælan kennsluferil að baki sem íslenskukennari innan frumgreinadeildar. Við val á handhafa kennsluverðlauna er meðal annars litið til niðurstöðu kennslumats og tengsla við nemendur, notkun fjölbreyttra kennsluhátta og námsmats.  Kennsluverðlaunin eru veitt í samstarfi við Stúdentafélag HR.

Handhafi þjónustuverðlauna HR árið 2015 er Sigrún María Ammendrup, skrifstofustjóri hjá tölvunarfræðideild. Starfsmenn og nemendur tilnefna senda inn tilnefningar til þjónustuverðlauna. Í tilnefningum nemenda kom fram hversu ánægðir þeir eru  með störf Sigrúnar, viðmót og stuðning.  Þegar kemur að þjónustuverðlaunum er horft til gæða þjónustu, skjótra viðbragða, góðs viðmóts og tengsla við nemendur.

Frekari upplýsingar veitir Guðbjörg Guðmundsdóttir, Háskólanum í Reykjavík, í síma 895 0811.

Byggt á fréttatilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík

Á myndinni eru verðlaunahafar ásamt mennta- og menningarmálaráðherra og rektor HR.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum