Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Aukið vísindasamstarf Íslands og Kína

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði viljayfirlýsingu um samstarf ríkjanna á sviði vísinda og rannsókna

Hallgrimur-og-Illugi-i-Kina

Í vinnuheimsókn mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssonar til Kína í mars sl. var meðal annars undirrituð samstarfsyfirlýsingu við Natural Science Foundation of China (NSFC) og ákveðið þróa áframhaldandi vísindasamstarf á sviði norðurslóða með Heimskautastofnun Kína, Polar Research Institute of China (PRIC). Samstarfsyfirlýsingin við NSFC er til fimm ára og kemur m.a. til með að styrkja það samstarf sem nú þegar er til staðar við kínverskar vísindastofnanir. NSFC leggur áherslu á að auka gæði vísindastarfs í Kína með auknu alþjóðasamstarfi og skiptidvöl vísindamanna. Í samstarfssamningnum við Rannís er lögð áhersla á hafvísindi, heimskautarannsóknir, loftslagsbreytingar og jarðvísindi og önnur svið sem áhugaverð eru til samstarfs. Til að byrja með verður áhersla á að bjóða upp á rannsóknadvöl í hvoru landi fyrir sig, vinnufundi og málstofur.

Í heimsókninni til Kína voru haldnir fundir með ráðherrum menntamála, menningarmála og vísinda- og tæknimála í Kína. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, undirritaði viljayfirlýsingu um samstarf ríkjanna á sviði vísinda og rannsókna við Wang Gang, ráðherra vísinda og tækni í Kína. Heimsóttir voru tveir háskólar, Hebei háskóli í Baoding og Tsinghua háskóli í Peking. Fundur var haldinn með Natural Science Foundation of China (NSFC), þar sem Illugi fjallaði um megináherslur Íslands í samstarfinu við Kína og vilja til þess að stuðla að vísindalegu samstarfi á milli þjóðanna og fjallað var um þá möguleika sem felast í samstarfi stofnananna, meðal annars á sviði hafrannsókna, loftslagsbreytinga, heimskautarannsókna, jarðvísinda og fleiri sviða. Einnig hittu íslensku fulltrúarnir aðila frá Hafmálastofnun Kína og Heimskautastofnun Kína, Polar Research Institute of China (PRIC) og ræddu vísindasamstarf á norðurslóðum.

Nokkur samstarfsverkefni eru þegar í gangi á þessum vettvangi og má þar helst telja:

  • Árleg kínversk-norræn norðurslóðaráðstefna undir forystu Rannís og PRIC, frá því 2013.

  • Sameiginleg rannsóknamiðstöð Kína og Norðurlanda í Shanghai sem hóf starfsemi sína í árslok 2013 en PRIC og Rannís leiddu undirbúning að stofnun miðstöðvarinnar.

  • Sameiginleg Norðurljósarannsóknastöð Íslands og Kína, staðsett að Kárhóli í Reykjadal. Þar er gert ráð fyrir að byggja þriggja hæða rannsóknahús, um 750m2 að flatarmáli. Áætlaður framkvæmdakostnaður er 300-350 m.kr. Gert er ráð fyrir að vísindaaðstaða verði opnuð 2016 og sérstök gestastofa 2017.

Aukin tækifæri fyrir vísindi og samfélag

Gera má ráð fyrir að þeir þættir í vísindasamstarfi Íslands og Kína sem fjallað var um í heimsókn mennta- og menningarmálaráðherra geti haft eftirtalda þýðingu fyrir vísindi og samfélag hér á landi:

  • Eykur áhuga vísindamanna frá öðrum þjóðum á vísindasamstarfi við Ísland.

  • Opnar möguleika fyrir íslenska og norræna vísindamenn til að vinna með kínverskum kollegum, ráðstefnur, rannsóknaverkefni.

  • Byggir upp fyrsta flokks rannsóknaaðstöðu á norðurljósum hér á landi sem nýtist bæði vísindasamfélaginu og almenningi.

  • Íslenskir rannsóknaaðilar geta miðlað af þessu samstarfi til kollega sinna á Norðurlöndunum og til annarra erlendra samstarfsaðila.

Ýmis svæðisbundin áhrif:

  • Norðurljósamiðstöðin er mikilvæg fjárfesting í rannsóknum á Norðausturlandi á eftir Háskólanum á Akureyri og eykur þar með veltu og umsvif á svæðinu.

  • Auðveldar að fleiri alþjóðlegum rannsóknamiðstöðvum verði komið upp hér á landi.

  • Jákvæð áhrif á ferðamennsku, einkum utan háannatíma.

Nánari upplýsingar um vísindasamstarfið veitir Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís

Á myndinni eru Hallgrímur Jónasson forstöðumaður Rannís, Dr. Yang Wei forstjóri NSFC í Kína og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra

Byggt á fréttatilkynningu frá Rannís

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum