Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sameining Tækniskólans og Iðnskólans í Hafnarfirði

Verkefnishópur hefur skilað af sér skýrslu til mennta- og menningarmálaráðherra um fýsileika þess að sameina Iðnskólann í Hafnarfirði og Tækniskólann ehf.

Husid-Skolavorduholti-juni-2013-029

Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði verkefnishóp 18. mars 2015 til þess að kanna fýsileika þess að sameina Iðnskólann í Hafnarfirði og Tækniskólann ehf. Verkefnishópurinn tók þegar til starfa og skilaði niðurstöðu sinni af sér til ráðherra 21. apríl 2015. Í verkefnishópinn voru eftirtaldir aðilar skipaðir:

Ársæll Guðmundsson skipaður skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði,

Bjarni Bjarnason formaður skólanefndar Iðnskólans í Hafnarfirði,

Bolli Árnason formaður stjórnar Tækniskólans,

Gísli Magnússon skrifstofustjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu,

Jón B. Stefánsson skólameistari Tækniskólans.

Með hópnum starfaði Leifur Eysteinsson gæðastjóri mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Í skipunarbréfi verkefnishópsins segir meðal annars að meginmarkmið vinnu hans sé að kalla fram staðreyndir og rök fyrir sameiningu skólanna tveggja og að sama skapi kanna hvað mæli gegn sameiningu. Greina skal núverandi starfsumhverfi skólanna og hvernig aðstæður muni breytast með sameiningu. Einnig skal verkefnishópurinn taka saman helstu álitamál um sameiningu skólanna. Þá var þess getið að verkefnishópurinn ætti að kalla eftir nauðsynlegum upplýsingum og setja þær fram til að hægt sé að sjá, eftir fremsta megni, fýsileika þess að skólarnir sameinist.

Í niðurstöðum hópsins segir að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að fýsilegt sé að sameina skólana í einn skóla undir merki Tækniskólans ehf. Hópurinn telur að verulegur fjárhagslegur ávinningur verði af sameiningu skólanna sem nýta má til uppbyggingar innra starfi þeirra og til sóknar fyrir starfsnám. Hann telur einnig að tækifæri gefist til að efla faglegt umhverfi starfsfólks og að auknir möguleikar verði til að efla stöðu nemenda og vinna gegn brotthvarfi. Í skýrslu hópsins eru dregin fram helstu rök fyrir þessum niðurstöðum. Þá leggur verkefnishópurinn til að ekki verði dregið að taka ákvörðun í þessu máli svo vinna geti hafist við sameiningu skólanna og allri óvissu um framtíð þjónustu við nemendur og um stöðu starfsfólks verði eytt sem fyrst.

Fýsileikakönnun – Sameining Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans ehf

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum