Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Evrópsk ungmennavika

Í Evrópsku ungmennavikunni verða fjölbreyttir viðburðir í þeim 33 ríkjum sem taka þátt í Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins

EUV

Evrópska ungmennavikan (EUV2015) verður haldin í sjöunda skipti vítt og breitt um Evrópu á tveggja vikna tímabili, frá 27. apríl til 10. maí 2015. EUV2015 samanstendur af fjölbreyttum viðburðum í þeim 33 ríkjum sem taka þátt í Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins og er umsjón og skipulagning viðburða í höndum Landsskrifstofa æskulýðshluta Erasmus+ í hverju landi.

Þema EUV2015 er Hæfileikar ungmenna leystir úr læðingi til að efla þátttöku þeirra í atvinnulífinu og samfélaginu, með lykiláherslu á að fagna fjölbreytileikanum í gegnum þátttöku ungs fólks. Með þessu er lögð áhersla á að gefa ungu fólki tækifæri til að leggja sitt af mörkum og vera virkt á öllum sviðum samfélagsins. Þetta er liður í að tryggja blómstrandi lýðræði og til að auka þátttöku ungs fólks.

Í Brussel verður glæsileg dagskrá sem hefst á European Youth Work Convention 27. - 30. apríl þar sem 450 einstaklingar sem tengjast æskulýðsgeiranum í Evrópu verða saman komnir. Þann 5. maí verður síðan Hugmyndasmiðja ungs fólks frá 30 Evrópuríkjum, þar á meðal frá Íslandi verður haldin 5. maí og daginn eftir  verðlaunaafhending þar sem verkefni Ungmennaráðs Seltjarnarness er tilnefnt fyrir hönd Íslands. 

Lykilatriði Evrópskrar ungmennaviku er að kynna verkefni Erasmus+ áætlunarinnar á sviði æskulýðsmála. Viðburðurinn veitir einnig tækifæri til að rifja upp vel heppnaða framkvæmd ungmennaáætlunarinnar „Youth in Actions“.

Ungmenni sem hafa áhuga á að taka þátt í viðburðum EUV2015 í nágrenni við sig eða í sínu landi geta skoðað www.youthweek.eu, en þar má fá yfirlit yfir þá viðburði sem skipulagðir eru vítt og breitt um Evrópu.

Yfirlit yfir viðburði á Íslandi í Evrópskri ungmennaviku

Ljósmyndasýning ungs fólks  27. apríl - 10. maí
Hópur skapandi ungmenna úr félagsmiðstöðinni Músík og mótor  í Hafnarfirði ætla að setja upp ljósmyndasýningu með myndum sem þau hafa verið að taka síðasta árið. Glæsileg opnun verður á sýningunni 27. apríl klukkan 17:00.

Ungmenni sem virkir þátttakendur í samfélaginu  28. apríl - 07. maí
Húsið ungmennahús í Hafnarfirði ætlar að fá til liðs við sig hóp af krökkum úr 10. bekkjum bæjarins til að taka í gegn útisvæðið í kringum húsið og halda flottan útiviðburð í 07. maí kl. 17:00.

Ungmennaráðið grillar í Való 30. apríl - kl. 12:00
Ungmennaráð Seltjarnarness ætlar að bjóða nemendum í Való uppá ógleymanlegt hádegishlé!

FUN - Framúrskarandi ungur Norðlendingur2. maí - kl. 13:00 - 15:00
JCI Norðurland ætlar að standa fyrir vali á framúrskarandi ungum Norðlendingi og verður viðurkenningin veitt við hátíðlega athöfn í ungmennahúsinu Rósenborg Akureyri.

Lifandi bókasafn í Nýheimum2. maí - kl. 11:00
Jafningjafræðsla Nýheima verð með gríðarlega hresst og sprelllifandi bókasafn á bókasafninu í Nýheimum á Höfn í Hornafirði. Mætið og "lesið" spennandi manneskjubækur!

Ungmennaþing Þingeyinga1. og 2. maí
Glæsilegt ungmennaþing verður haldið á Húsavík af fyrirmynd European Youth Parliament.

Kvikmyndahátíð AUS6. maí -  kl. 19:30 – 21:30
AUS Alþjóðleg ungmennaskipti ætla að blása til kvikmyndahátíðar í Tjarnarbíó. Frítt inn og allir velkomnir!

Allir út!7. maí - kl. 17:00 - 21:00
Molinn í Kópavogi ætlar að bjóða uppá allsherjar hjólabretta og graffítí veislu í tilefni af Evrópskri ungmennaviku. Mætið, graffið, skeitið, étið eitthvað gott og hlustið á góða tónlist!

Finndu bros þitt7. og 8. maí
Ungmennaráð Fljótsdalshéraðs stendur fyrir skemmtilegri dagskrá þar sem markmiðið er að hvetja samfélagið til þess að brosa, vera góð hvort við annað og hafa gaman saman. Flott og fjölbreytt dagskrá með tónlist, skemmtiatriðum og fræðslu.

Félagsmiðstöðvahátíð8. maí - kl. 13:00 - 21:00
Félagsmiðstöðvaráð Kópavogs ætlar að halda allsherjar félagsmiðstöðvahátíð í tilefni Evrópskrar ungmennaviku. Keppni í sápufótbolta og körfubolta, grill og hoppukastalar. Síðan verður haldið frábært ball um kvöldið!

Opið (Klifur)hús! 4 - 8 maí - kl. 16:00 - 22:00
Klifurhúsið verður opið öllum ungmennum á aldrinum 16 - 25 ára vikuna 4. - 8. maí! Upplifið hinn sanna klifuranda í Evrópskri ungmennaviku!

Peran 2015 9. maí - kl. 14:00 - 17:00
Peran er "smástefna" um félagslega nýsköpun og unga frumkvöðla sem haldin verður í Hinu húsinu. Flottir ungir frumkvöðlar verða með kynningar og hægt að spyrja þá spjörunum úr.

Lýðræðismót ungs fólks9. maí  - kl.15:00 - 18:00 (óstaðfest)
Í tilefni Evrópskrar ungmennaviku ætlar Landssamband æskulýðsfélaga að halda Lýðræðismót ungs fólks. Þar mætast ungmenni sem eru virk í æskulýðsstarfi og starfi frjálsra félagasamtaka og ræða lýðræðisþátttöku ungs fólks í þjóðfundarstíl.

Frumsýning Problem? Oh, That's An Opportunity 9. maí - kl. 18:00 - 20:00
Heimildarmyndin Problem? Oh, That's An Opportunity sem fjallar um samfélagslega frumkvöðlastarfsemi verður sýnd og Social Enterprise Iceland kynnir starfsemi sína fyrir gestum í Bíó Paradís. Frítt í bíó og frábær stemming.

Bíósýning heimildarmyndin Áhugamál íslendinga 5. maí kl. 19:30 - 21:30
Kvikmyndagerðarhópurinn Fjórfilma ætlar að bjóða gestum og gangandi í bíó að sjá myndina Áhugamál Íslendinga! Sýningin fer fram í sal 3 í Háskólabíó.

(Byggt á fréttatilkynningu frá EUF, landsskrifstofu ungmennahluta Erasmus+ áætlunarinnar í Íslandi)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum