Hoppa yfir valmynd
6. maí 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tilnefningar og kynning á landsskrá Íslands um Minni heimsins

Minni heimsins (Memory of the World) er verkefni á vegum UNESCO sem er m.a. ætlað að vekja athygli á mikilvægum skráðum menningararfi heimsins
Handrit

Landsnefnd Íslands um Minni heimsins auglýsir nú eftir fyrstu tilnefningum til skráningar á landsskrá Íslands. Tilgangur UNESCO með verkefninu Minni heimsins (Memory of the World), ásamt samnefndri varðveisluskrá, er að vekja athygli á mikilvægum skráðum menningararfi heimsins með því að útnefna skráðar heimildir (documentary heritage) sem hafa sérstakt varðveislugildi.

Landsskrá Íslands leggur áherslu á þær heimildir sem eru mikilvægar fyrir allt landið. Handritasafn Árna Magnússonar í Reykjavík og Kaupmannahöfn og manntalið frá 1703, sem eru þegar á heimsskrá UNESCO um Minni heimsins (Memory of the World Register) til marks um mikilvægi þeirra fyrir heimsbyggðina alla, tilheyra jafnframt landsskrá Íslands. Nýjar tilnefningar, sem hljóta skráningu á landsskrána, gætu síðar orðið hvati að umsóknum um skráningar á heimsskrá UNESCO.

Kynning á landsskrá Íslands

Miðvikudaginn 13. maí nk. verður haldinn kynningarfundur um landsskrá Íslands og opnað formlega fyrir tilnefningar. Fundurinn stendur kl. 14.00-16.00 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns og er öllum opinn. Þar mun Arne Skivenes miðla reynslu Norðmanna við að innleiða norsku landsskrána (Norges dokumentarv) og Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar og formaður landsnefndar, og Eiríkur G. Guðmundsson, þjóðskjalavörður og nefndarmaður, ræða hvað gæti átt erindi á landsskrá Íslands og segja frá reynslu stofnana sinna af tilnefningum á heimsskrá UNESCO um Minni heimsins. Að erindum loknum verða pallborðsumræður og kaffiveitingar.

Hvernig á að leggja fram tilnefningar?

Einstaklingar, samtök og stofnanir geta lagt fram tilnefningar til skráningar á landsskrá Íslands og öll form skráðra heimilda eru gjaldgeng, s.s. ritheimildir, upptökur eða ljósmyndir, þar með talin stafræn gögn. Forsenda þess að heimild komist á landsskrána er að hún sé varðveitt í opinberu safni og hafi gildi fyrir landsmenn alla.

Tilnefningar verða metnar út frá ýmsum viðmiðum, svo sem uppruna, fágæti og ástandi heimilda, hvort að þeim steðji ógn, hvort þær hafi félagslegt og andlegt mikilvægi eða séu mikilvægar fyrir ákveðið byggðarlag. Leiðarvísir og eyðublað eru á slóðinni: http://unesco.is/minni-heimsins/

Nánari upplýsingar veitir Soffía Guðný Guðmundsdóttir, [email protected]

Tilnefningar skulu berast fyrir 15. október 2015. Niðurstaða nefndarinnar um skráningar á landsskrá Íslands verður birt síðar á árinu.

Landsnefndina skipa:
Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, formaður,
Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður,
Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður,
Bjarki Sveinbjörnsson forstöðumaður Tónlistarsafns Íslands og
Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, sem er að auki ritari nefndarinnar.

Myndin er tekin af vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum