Hoppa yfir valmynd
15. maí 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ráðherrafundur um Bologna samstarfið

llugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra flutti ávarp, stýrði fundi og tók þátt í umræðum á ráðherrafundi Bologna samstarfsins, sem nú stendur yfir í Yerevan

Bologna-Yerevan

Ráðherrafundur um Bologna ferlið hófst í gær í Yerevan í Armeníu  og lýkur í dag15. maí.  Ísland og Lettland fara sameiginlega með formennsku fram til 30. júní 2015.

Ráðherrafundir Bologna samstarfsins eru haldnir þriðja hvert ár. Á ráðherrafundunum er teknar stefnumótandi ákvarðanir, gefin út  sameiginleg markmið og  sameiginlegar áherslur í málefnum sem snúa að háskólamenntun. Ísland og Lettland leiddu vinnuna við undirbúning fundarins og ritun á ráðherrayfirlýsingu sem ætlunin er að staðfesta á fundinum 15. maí.

Illugi Gunnarsson sagði meðal annars í ávarpi sínu:

“Bologna samstarfið hefur haft víðtæk áhrif.  Ríkin hafa unnið markvisst að sameiginlegum gildum og markmiðum í háskólamenntun og þannig myndað traust, skilning og virðingu fyrir háskólamenntun á milli landanna. Samstarfið hefur verið hvatning fyrir nemendur og starfsmenn til að flytja sig á milli landa með viðurkenndar náms- og starfsaðferðir í farteskinu.  Síðast en ekki síst hefur Bologna samstarfið gert okkur kleift að byggja upp samfélag 47 landa þar sem ólíkar skoðanir eru lagðar til hliðar og öll áhersla lögð á að auka gæði  háskólastarfs bæði hvað varðar menntun og kennslu.”

Á fundinum var samþykkt að veita Hvíta-Rússland aðild að Bologna ferlinu en gerð er krafa um að þeir uppfylli á næstu árum skilyrði sem lúta m.a. að sjálfstæði háskólastofnana og réttindum stúdenta. Hvíta-Rússland hefur áður sótt um aðild en umsókn þeirra var hafnað á ráðherrafundinum sem haldinn var 2012 vegna frelsissviptinga stúdenta og háskólamanna í undanfara kosninga auk annarra pólitískra afskipta af háskólamálum þar í landi.

Ísland var á meðal þeirra 29 Evrópuríkja sem undirrituðu Bologna yfirlýsinguna þann 19. júní 1999 um samstarf á sviði æðri menntunar. Samevrópska háskólasvæðið (e. European Higher Education Area (EHEA)) var stofnað árið 2010 á tíu ára afmæli Bologna ferlisins. Aðildarríki Bologna ferlisins eru nú 47, en einnig koma að því ýmis hagsmunasamtök (t.d. samtök evrópskra stúdenta, samtök evrópskra háskóla og samtök atvinnurekenda í Evrópu), fulltrúar Evrópuráðsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, auk aðila frá Evrópskum gæðamatsstofnunum.

Með ráðherra í för eru Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands, Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri, Sigríður Hallgrímsdóttir aðstoðarmaður ráðherra og Una Strand Viðarsdóttir sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Einnig sækir fundinn fulltrúi frá Landssambandi Íslenskra stúdenta (LÍS) Helga Lind Mar.

Ítarefni:

Megintilgangur Bologna ferlisins er að mynda samevrópskt háskólasvæði þar sem hreyfanleiki nemenda og háskólakennara er auðveldaður. Auk þess á að vinna að því að gera evrópska menntun áhugaverða fyrir stúdenta utan álfunnar. Til að auðvelda gagnkvæma viðurkenningu á námi og samanburð á námi milli landa komu menntamálaráðherrar þátttökulandanna sér saman um að stefna að  því að nám á háskólastigi sé skipulagt í grunnnám og framhaldsnám, þar sem grunnnám er að lágmarki 3 ár, meistaranám 2 ár og loks doktorsnám. Áhersla er lögð á skilvirkt innra eftirlit og mat á öllu námi til að stuðla að sem mestu samræmi milli skóla og landa. Mikið er lagt upp úr skýrri framsetningu á hæfniviðmiðum, þ.e. að sú þekking, leikni og hæfni sé tilgreind sem nemandi á að búa yfir að námi loknu. Þetta á við jafnt um nám á fræðasviðum sem og einstökum námskeiðum. Þá eru prófskírteini gerð aðgengileg með stöðluðum skíreinisviðauka (e. Diploma Supplement (DS)) við hefðbundin prófskírteini. Þar er gefin lýsing á því námi sem lokið hefur verið auk almennra upplýsinga um háskólanám í viðkomandi landi.

Á Íslandi er innleiðing Bologna ferlisins að mestu lokið og má rekja aukna áherslu á innra og ytra gæðaeftirlit háskóla til þess.  Þá má sjá í lögum um háskóla frá 2006 beina tilvísun í Bologna ferlið en íslensk viðmið um æðri menntun og prófgráður, sem fyrst voru gefin út af menntamálaráðuneytinu í febrúar 2007 og uppfærð í maí 2011, voru bein afleiðing Bologna ferlisins og standast allar kröfur þess. Þá hafa allir háskólar á Íslandi tekið upp skírteinisviðauka.

Bologna ferlið er skipulagt kringum ráðherrafundi sem nú eru haldnir þriðja hvert ár. Þar er farið yfir framvindu ferlisins og gefin út ný markmið og áherslur (e. Ministerial Declarations and Communiqués). Þetta eru stefnumótandi ákvarðanir sem löndin reyna síðan að vinna eftir fram að næsta fundi. Samhliða fundunum fer fram Bologna Policy Forum, þar sem ráðherrar ríkja utan Bologna ferlisins fræðast um EHEA og skiptast á skoðunum við ráðherra Bologna rikjanna. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum