Hoppa yfir valmynd
15. maí 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Umræður um samstarf og hugsanlega sameiningu framhaldsskóla á Norðausturlandi

Markmiðið er að nemendur hafi jafnan og greiðan aðgang að fjölbreyttu framboði af gæðanámi og fullnægjandi þjónustu á landsvæðinu

Í fjárlagafrumvarpi 2015 er vikið að breytingum á skipulagi og rekstrarfyrirkomulagi framhaldsskóla í ljósi fækkunar nemenda á næstu árum og það verði metið, meðal annars með tilliti til nemendaþróunar hvaða úrræði geta nýst til þess að stuðla að því að viðhalda breidd í námsframboði, tryggja aðgengi að námi og skapa grundvöll fyrir faglegt starf.

Fyrirsjáanlegt er að nemendum á framhaldsskóla stigi muni fækka á Norðausturlandi á næstu árum og í samræmi við framangreint hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti hafið vinnu við að athuga hvernig megi efla og styrkja framhaldsskólastarfið þar. Í því samhengi hefur verið rætt um aukið samstarf og/eða sameiningu með það að markmiði að nemendur hafi jafnan og greiðan aðgang að fjölbreyttu framboði af gæðanámi, fullnægjandi þjónustu á landsvæðinu og að skólarnir verði sjálfbærir um stoðþjónustu og rekstur.

Áhersla hefur verið lögð á að nemendur geti áfram sótt skóla þar sem þeir eru núna starfandi og að þeir haldi nafni sínu.

Fyrstu fundir um málið voru 13. maí sl. þar sem fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytisins hittu skólameistara og formenn skólanefnda Menntaskólans á Tröllaskaga, Menntaskólans á Akureyri, Framhaldsskólans á Húsavík, Verkmenntaskólans á Akureyri og Framhaldsskólans á Laugum.

Úr fjárlagafrumvarpi 2015:

„Rekstrarstaða menntastofnanna og verkefnin framundan gera það að verkum að nauðsynlegt er að huga að fjármögnun og umfangi starfseminnar á báðum skólastigum. Fyrirsjáanlegt er að nauðsynlegar úrbætur, bæði á háskólastigi og framhaldsskólastigi, verða ekki gerðar nema að skapað verði til þess svigrúm með viðbótar fjármagni eða með því að draga úr umfangi. Gert er ráð fyrir að hvoru tveggja verði gert. Vegna þessara aðgerða og fyrirsjáanlegrar þróunar næstu ár má búast við að rekstrarforsendur einstakra stofnana taki breytingum. Umræðan undanfarin ár hefur oft beinst að mögulegri hagræðingu sem ná megi fram með fækkun stofnana, ýmist með sameiningum eða niðurlagningu. Í því samhengi sem hér um ræðir er fyrst og fremst horft til þess að slík úrræði nýtist til að bregðast við samdrætti í umfangi vegna fækkunar nemenda, fremur en úrræði sem einungis er ætlað að ná fram sparnaði. Því er ekki lagt upp með fyrirfram mótuð sameiningaráform en gert er ráð fyrir að metið verði m.t.t. nemendaþróunar hvar slík úrræði geta nýst til þess að stuðla að því að viðhalda breidd í námsframboði, tryggja aðgengi að námi og skapa grundvöll fyrir faglegt starf“.

„Á fjárlagaárinu 2015 verður áfram unnið að endurskipulagningu náms á framhaldsskólastigi í samræmi við lög um framhaldsskóla nr. 02/2008, nýja aðalnámskrá og markmið Hvítbókar um umbætur í menntun. Það felur í sér breytingar á námsframboði og styttingu náms í framhaldsskólum til lokaprófs. Gert er ráð fyrir því að rekstrarfyrirkomulag og skipulag einstakra skólastofnana breytist. Unnið verður að endurskipulagningu námsframboðs sem boðið er fram í fjarnámi með það að augnamiði að auka skilvirkni og samræma námskröfur. Einnig verður leitast við að nýta frekar sérstök úrræði fyrir eldri nemendur sem í boði eru innan framhaldsfræðslu og frumgreinanáms í samráði við viðkomandi aðila“.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum