Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skýrsla starfshóps vegna þingsályktunar um leikskóla að loknu fæðingarorlofi

Alþingi samþykkti þingsályktun nr. 5/143, dagsett 19. desember 2013, sem fól mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga að skipa starfshóp til að meta kosti þess að bjóða leikskólavist strax og fæðingarorlofi lýkur.

Alþingi samþykkti þingsályktun nr. 5/143, dagsett 19. desember 2013, sem fól mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga að skipa starfshóp til að meta kosti þess að bjóða leikskólavist strax og fæðingarorlofi lýkur. Starfshópnum var ætlað að greina faglegar kröfur og fjárhagsleg sjónarmið sem taka þurfi tillit til, þar á meðal varðandi mannafla og húsnæðis þörf leikskóla miðað við áætlaða fjölgun leikskólabarna á aldrinum eins til tveggja ára, ásamt leiðum til fjármögnunar.

Starfshópinn skipuðu Björk Óttarsdóttir og Gunnar J. Árnason sérfræðingar hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, tilnefnd af ráðuneytinu, Guðjón Bragason sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ingibjörg Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar og Berglind Hansen sérfræðingur á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, öll tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Sigrún Sigurðardóttir leikskólastjóri, tilnefnd af Félagi stjórnenda leikskóla. Valgerður Freyja Ágústsdóttir sérfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga starfaði með hópnum.

Helstu niðurstöður 
Þróun í dagvistunarmálum barna á síðustu tveimur áratugum er í þá átt að gæsla, umönnun og nám barna utan heimilis, frá lokum fæðingarorlofs til upphafs skyldunáms í grunnskóla, hefur færst í æ ríkari mæli inn í leikskóla. Tölur sýna einnig að hlutfall barna á öðru aldursári sem sækja leikskóla hefur haldist nokkurn veginn það sama undanfarin ár. Ef tillaga um leikskóla að loknu fæðingarorlofi á að ná fram að ganga er ekki hægt að reiða sig á að þróun undanfarinna áratuga muni sjálfkrafa leiða í þá átt. Yfirstíga þarf ákveðnar hindranir varðandi húsnæði, starfsfólk og fjármagn.

Þróun dagvistunarmála barna eftir fæðingarorlof fram að skyldunámi í grunnskóla sýnir ótvírætt að faglegt leikskólastarf er sá kostur sem þykir eftirsóknarverðastur fyrir börn og foreldra og mætir best kröfum atvinnulífsins. Miðað við núverandi aðstæður þá er tímabilið frá lokum fæðingarorlofs þar til allflestum börnum á landinu er tryggð leikskólavistvið tveggja ára aldur háð nokkurri óvissu. Sums staðar fá börn vist á leikskólum á fyrstu mánuðum eftir að fæðingarorlofi lýkur en annars staðar þurfa börn að bíða lengur. Aðstæður sveitarfélaga eru mjög mismunandi að þessu leyti.

Fagleg sjónarmið
Leikskólar starfa samkvæmt lögum, reglugerðum og aðalnámskrá þar sem meðal annars er kveðið á um eftirlit sveitarfélaga og ráðuneytis með starfsemi leikskóla.

Rannsóknir benda til þess að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að börn njóti leikskólavistar. Það er verulegur faglegur ávinningur fyrir yngstu börnin að vera í góðum leikskólum með vel menntuðu starfsfólki. Þetta á sérstaklega við um börn með seinkaðan þroska, börn sem búa við bága félagslega stöðu og börn af erlendum uppruna.

Húsnæði
Fjöldi fæddra barna ár hvert er um 4.500 að meðaltali Nú eru 35% eins árs barna í leikskólum. Á undanförnum árum hafa að meðaltali um 34% eins árs barna verið skráð í leikskóla. Þetta þýðir að ef öllum börnum frá 12 mánaða aldri yrði boðin vist á leikskóla þá þyrfti að bæta við í kringum 3.000 leikskólaplássum á landsvísu. Verulegur kostnaðarauki felst í því fyrir sveitarfélög að hverfa alveg frá daggæslu og bjóða í staðinn upp á leikskólavist fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri.

Mannauður
Ef bjóða á öllum þeim sem ekki njóta leikskóladvalar fyrir 2 ára aldur leikskólavist  þarf að fjölga starfsfólki um u.þ.b. 700 stöðugildi til að uppfylla þarfir fyrir faglega umönnun yngstu barnanna. Fleira starfsfólk þarf vegna umönnunar yngstu barnanna en þeirra eldri. Rannsóknir sýna að miklu skiptir að menntað starfsfólk sinni yngstu börnunum ekki síður en þeim eldri.

Kostnaðarauki
Verulegur kostnaðarauki felst í því fyrir mörg sveitarfélög að hverfa alveg frá daggæslu og bjóða í staðinn upp á leikskólavist fyrir öll börn. Áætlaður rekstrarkostnaður við að bjóða upp á leikskólavist fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri er allt að 5,8 milljarðar króna á ársgrundvelli. Stofnkostnaður getur numið allt að 480 milljónir króna fyrir 120 barna leikskóla. Samanlagður heildarkostnaður á hvert barn getur því numið allt að 2.042 þús. kr. á ári.

Leiðir til fjármögnunar
Mögulegar leiðir til fjármögnunar felast einkum í hækkun útsvars og hækkun leikskólagjalda. Ef þetta yrði eingöngu fjármagnað með hækkun útsvars þyrfti það að hækka á bilinu 0,18-0,46 prósentustig. Sveitarfélög hafa mjög mismunandi möguleika á að hækka leikskólagjöld og eru fjárhaglsega afar mismunandi sett.

Mat og ábendingar starfshóps

  • Niðurstöður starfshópsins og kostnaðarútreikingar miða við leikskóla frá 12 mánaða aldri í samræmi við þingsályktunina. Fæðingarorlofið er 9 mánuðir í dag og því skapast enn gap milli fæðingarorlofs og leikskóla frá 12 mánaða aldri verði það að veruleika. Á vegum velferðarráðuneytis er starfshópur að skoða framtíðarfyrirkomulag fæðingarorlofs.
  • Starfshópurinn telur að stefna ætti að því að bjóða öllum börnum dvöl á leikskóla frá 12 mánaða aldri. Þróunin undanfarin 20 ár sýnir glögglega mikla þörf fyrir leikskóla strax að fæðingarorlofi loknu með kröfum bæði frá foreldrum og atvinnulífi. Fagleg rök eru einnig fyrir því að bjóða frekar leikskóla en daggæslu í heimahúsum. Ljóst er að þetta er kostnaðarsamt og að möguleikar sveitarfélaga til að standa undir slíkri uppbyggingu á næstu árum eru mjög misjafnir. Benda má á að á vegum Reykjavíkurborgar er starfshópur að skoða möguleika á að bjóða leikskóla frá 12 mánaða aldri.
  • Starfshópurinn bendir jafnframt á að gera þarf átak til að fjölga leikskólakennurum til að hægt verði að manna leikskólana með fagfólki. Gera má ráð fyrir að það feli í sér aukinn kostnað bæði fyrir ríki og sveitarfélög.
  • Mögulega verður það niðurstaða af frekari rýni á málefnið að heppilegra þyki að takast á við þetta verkefni í áföngum og miða í upphafi við að öllum börnum standi til boða leikskólavist frá 18 mánaða aldri. Í allmörgum sveitarfélögum myndi það leiða til betri þjónustu fyrir barnafjölskyldur en jafnframt þyrfti þá að áliti starfshópsins að huga að starfsumhverfi dagforeldra. Í því sambandi vísar starfshópurinn til ábendinga í viðauka um hvernig hægt væri að styrkja daggæslu í heimahúsum meðal annars með endurskoðun reglugerðar.
  • Ein af þeim hugmyndum sem reifaðar voru á fundum starfshópsins og fundum með gestum var sveigjanleg innritun í leik- og grunnskóla. Starfshópurinn leggur ekki til beinar tillögur um fyrirkomulag þar sem það er flókið í útfærslu og mismunandi aðstæður milli sveitarfélaga og skóla. Í skýrslunni er þó bent á mögulegar leiðir, svo sem innritun tvisvar á ári eða oftar.
  • Skyrsla-Starfshops-um-leikskola-ad-loknu-faedingarorlofi


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum