Hoppa yfir valmynd
1. október 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

HÍ fimmta árið í röð á meðal bestu háskóla heims

Fimmta árið í röð er Háskóli Íslands í hópi bestu háskóla heims samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education World University Rankings
Haskoli-Islands

Háskóli Íslands greindi frá því í frétt á vefsíðu sinni að samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education World University Rankings væri skólinn í hópi 300 bestu skóla í heimi. Í frétt Háskólans segir enn fremur:

Háskóli Íslands er í sæti 251-275 á listanum að þessu sinni en nákvæmari röðun liggur ekki fyrir að svo stöddu. Þess má geta að um 17.000 háskólar eru í heiminum og er Háskóli Íslands því meðal efstu tveggja prósenta háskóla á heimsvísu. Á aldarafmæli Háskóla Íslands komst skólinn í fyrsta sinn á listann og hefur hann frá þeim tíma verið í kringum 270. sæti.    

Times Higher Education hefur í yfir áratug birt lista yfir 400 bestu háskóla heims og er hann einn áhrifamesti listi sinnar tegundar. Matið byggist á fjölmörgum þáttum í starfsemi háskólanna, þar á meðal rannsóknastarfi, áhrifum á alþjóðlegum vettvangi, kennslu og námsumhverfi. Rannsóknir eru metnar á grundvelli fjölda vísindagreina sem birtast í virtum alþjóðlegum vísindatímaritum og gæði þeirra og áhrif eru mæld með fjölda tilvitnana. Gæði og vísindaleg áhrif rannsókna starfsmanna Háskóla Íslands eru sá þáttur sem vegur langþyngst við röðun skólans.   Staða Háskóla Íslands á listanum hefur skapað skólanum fjölmörg tækifæri, bæði í samstarfi við virta erlenda háskóla og vísindastofnanir og í alþjóðlegri samkeppni um öfluga vísindamenn og stúdenta.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, bendir á að háskólinn fái mjög háa einkunn fyrir alþjóðlegt samstarf sem er háskólanum gríðarlega mikilvægt. „Einnig skiptir miklu máli að með þessari viðurkenningu á starfi Háskóla Íslands fá prófgráður frá skólanum aukið vægi og með því opnast fleiri dyr fyrir stúdenta okkar að námi í fremstu háskólum heims,“ segir Jón Atli.    Jón Atli þakkar góðan árangur skólans þrotlausu og metnaðarfullu starfi starfsfólks og stúdenta. „Háskóli Íslands á enn fremur einkar öfluga samstarfsaðila innanlands sem gera hann enn betri, s.s. Landspítalann, Íslenska erfðagreiningu, Hjartavernd og Matís. Vonir standa til að með uppbyggingu Vísindagarða Háskóla Íslands fjölgi öflugum samstarfsaðilum enn frekar,“ segir Jón Atli.    Jón Atli bendir á að samkeppnin á listanum sé afar hörð og háskólar víða um heim leitist við að bæta sig á hverju ári. Því sé afar brýnt sé að yfirlýst markmið Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Vísinda- og tækniráðs nái fram að ganga og að Háskóli Íslands verði fjármagnaður til samræmis við sambærilega háskóla á Norðurlöndum á árinu 2020. „Við verðum að halda í við þróunina í nágrannalöndum okkar til að geta boðið upp á samkeppnishæfan háskóla,“ segir Jón Atli enn fremur.   Lista Times Higher Education World University Rankings yfir bestu háskóla heims og upplýsingar um grundvöll matsins má nálgast á

heimasíðu Times Higher Education.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum