Hoppa yfir valmynd
6. október 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntamálastofnun hefur tekið formlega til starfa

Menntamálastofnun er ný stjórnsýslustofnun á sviði menntamála sem er ætlað að stuðla að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu menntunar í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið.
MMS1

Hún sinnir verkefnum á sviði menntamála og því sem ráðherra felur henni í samræmi við lög sem um hana gilda og tóku að fullu gildi 1. október sl.

Fyrstu skrefin í starfseminni voru stigin í sumar og sum málefni, sem stofnunin sinnir, urðu fljótlega fyrirferðarmikil í opinberri umræðu. Má þar nefna:

  • Stuðningur við þjóðarátak um læsi með ráðgjöf (læsisteymi), skimunarprófum og mat á árangri lestrarkennslu.
  • Innleiðing á nýju hæfnimiðuðu námsmati með bókastafaeinkunnum í lok grunnskóla.
  • Þróun leiða til að stuðla að jafnræði nemenda vegna inntöku í framhaldsskóla, t.d. möguleika á samræmdum hæfniprófum.
  • Staðfesting nýrra námsbrauta í framhaldsskólum vegna styttingar náms.
  • Endurskoðun stefnu um námsgögn í grunnskólum og framhaldsskólum í ljósi aukinnar áherslu á stafrænt efni og notkun spjaldtölva.

Menntamálastofnun sinnir verkefnum sem Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun höfðu áður umsjón með. Einnig sinnir stofnunin verkefnum sem flutt hafa verið frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, svo sem innritun í framhaldsskóla, aðgerðum gegn brotthvarfi í framhaldsskólum, viðurkenningu einkaskóla, útgáfu leyfisbréfa kennara og þjónustu vegna fagráðs gegn einelti.

Bráðabirgðavefur Menntamálastofnunar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum