Framhaldsskólar

Leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari

Ný lög um menntun og ráðningu, kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008 öðlast gildi 1. júlí 2008. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 86/1998, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

Ákvæði 3., 4. og 5. gr. hinna nýja laga, sem kveða á um menntun kennara, taka til þeirra sem hefja (skrá sig í) nám eftir gildistöku laga þessara. Það þýðir að fram til 1. júlí 2011 skulu þeir sem fá leyfisbréf til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum hafa lokið bakkalárprófi og tilskildu námi í uppeldis- og kennslufræðum. Eftir þann tíma skulu þeir sem fá leyfisbréf hafa lokið meistaraprófi eða jafngildu námi.

Grunn- og framhaldsskólakennarar með leyfisbréf við gildistöku nýrra laga halda fullum réttindum til jafns við þá sem öðlast starfsréttindi grunn- og framhaldsskólakennara samkvæmt nýjum lögum.Umsókn um leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari sbr. lög nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og reglugerð nr. 694/1998 um lögverndun á starfsheiti framhaldsskólakennara.

  • Umsóknareyðublað 
  • Með umsókn skal fylgja staðfest ljósrit af skírteini um háskólapróf og próf úr uppeldis- og kennslufræðum, svo og yfirlit yfir námsferil. Ljósrit skulu staðfest af þeim skóla sem veitir viðkomandi réttindi.
  • Ríkisborgarar frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins leggi fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi í ríki innan svæðisins. Þýðing prófskírteina á að vera frá löggiltum þýðanda.

Athygli er vakin á því að útfyllt eyðublað þarf að undirrita og senda ráðuneytinu í pósti, ásamt staðfestum ljósritum af nauðsynlegum gögnum. Ekki er tekið við umsóknum í bréfasíma eða tölvupósti.  Leyfisbréfið verður sent þegar greiðsla hefur verið innt af hendi.

Afgreiðslufrestur er 3 vikur.

Umsóknir berist mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík.