Menningarmál

Norrænir styrkir til æskulýðsstarfsemi (NORBUK)

Norræna barna og æskulýðsnefndin veitir í umboði Norrænu ráðherranefndarinnar norrænum barna- og æskulýðssamtökum, félögum og hópum styrki til æskulýðsstarfsemi.

Markmiðið með styrkveitingum er að styrkja norræna sjálfsvitund með því að efla þátttöku, skilning og áhuga hjá börnum og unglingum á málefnum er varða menningu, stjórnarhætti og félagslega þætti á Norðurlöndum.  Veittr eru styrkir til samstarfs félagasamtaka og til ýmissa samvinnuverkefna sem barna- og ungmennasamtök og sjálfstæðir barna- og ungmennahópar á Norðurlöndum inna af hendi.

Til að eiga rétt á styrk verða þrjú Norðurlönd að taka þátt eða tvö ef eitt landanna er Grænland, Ísland, Færeyjar, Austur-Finnland eða Norðurkollusvæðið. Styrkir eru aðeins veittir þátttakendum undir 30 ára aldri.

Úthlutað er úr sjóðnum 4 sinnum á ári og eru umsóknarfrestir sem hér segir: 1. febrúar, 1. apríl, 1. september og 1. nóvember.

Þá veitir Norræna æskulýðsnefndin styrki til landssamtaka á sviði æskulýðsmála. Umsóknarfrestur er til 1. október ár hvert.

Umsóknareyðublöð og nánari upplýsingar eru á http://www.kulturkontaktnord.org

Þá eru einnig upplýsingar um Norrænu barna og æskulýðsnefndina á vef Norrænu ráðherranefndarinnar www.norden.org.