Hoppa yfir valmynd
11. október 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

„Sögueyjan Ísland“ á bókasýningunni í Frankfurt

Svandís Svavarsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra opnar íslenska skálann á bókasýningunni í Frankfurt, sem hefst þriðjudaginn 11. október og stendur til 16. október.

sagenhaftesisland2011
sagenhaftesisland2011

Svandís Svavarsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra opnar íslenska skálann á bókasýningunni í Frankfurt, sem hefst þriðjudaginn 11. október og stendur til 16. október. Eins og kunnugt er verður Ísland og íslenskar bókmenntir í brennidepli á bókasýningunni undir heitinu „Sögueyjan Ísland“ . Á meðan sýningunni stendur og á næstu vikum verða um 400 viðburðir sem tengjast Íslandi á þýska málsvæðinu öllu, ekki aðeins á sviði bókmennta heldur einnig myndlistasýningar, hönnunarsýning, ljósmyndasýning, sýning á munum úr Þjóðminjasafninu, sýningar Íslenska dansflokksins, tónleikar og fleira. Aldrei fyrr hefur íslensk menning fengið aðra eins kynningu í Evrópu.

Hátt í 40 íslenskir höfundar mæta til leiks á bókasýningunni í ár og alls hafa verið gefnir út um 230 nýir titlar sem tengjast Íslandi, hjá 111 forlögum sem gefa út bækur á þýskri tungu. Flestar þýðingarnar tilheyra fagurbókmenntum eða 90 titlar. Einnig koma út tíu safnrit og þar ber hæst heildarútgáfa Íslendingasagnanna, sem er hornsteinninn í heiðursþátttöku Íslands á bókasýningunni. Bókaforlagið S. Fischer gefur þær út. Fyrsta upplag þeirra seldist upp á örfáum dögum, sem er til marks um þann gríðarlegan áhuga á íslenskum bókmenntum sem ríkir í Þýskalandi um þessar mundir. Yfirlit yfir nýútkomnar bækur á þýsku, sem tengjast Íslandi spanna allt frá nýútgefnum verkum til Íslendingasagna og Eddukvæða miðalda, frá íslenskum öndvegisverkum módernismans og samtímabókmennta til fræðibóka, listaverkabóka og ferðahandbóka.

sagenhaftes-island

Íslandsskálinn

Íslenski skálinn er á sýningarsvæðinu og verður opnaður strax á eftir opnunarhátíð bókasýningarinnar. Hugmyndin með Íslandsskálanum er að upplifa Ísland sem „heimkynni“ – sem land bókmenntanna sem og stórbrotinnar náttúru. „Flest íslensk heimili eiga sitt litla bókasafn. Án þessa lifandi áhuga á bókmenntum gæti sjálfstæð bókaútgáfa með u.þ.b. 30 sjálfstæðum forlögum ekki þrifist í svo litlu landi,“ segir Halldór Guðmundsson, verkefnisstjóri „Sögueyjunnar Íslands“. „Við flytjum með okkur hefð heimilisbókasafnanna og með henni íslensku lesendurna til Frankfurt og bjóðum fólki í tvennum skilningi inn í bókaheim okkar.“

Þetta er gert með fleiri hundruð ljósmyndum af Íslendingum í bókasöfnum sínum. Íslenskir lesendur settu myndirnar inn á Facebook (www.facebook.com/sogueyjan.island) í tengslum við átakið „Komdu með til Frankfurt“, eða sendu þær bréflega eða með tölvupósti til skrifstofu „Sögueyjunnar“ í Reykjavík. Að auki gefur að líta myndbandsportrett af Íslendingum sem lesa upp úr eftirlætisbókum sínum. Samanlagt er til orðin úr hinum sjálfstæðu myndbandsportrettum u.þ.b. 30 mínútna löng myndbandsinnsetning. Frá sviði heimilisbókasafna færa gestir sig svo yfir í vandaða 360 gráða kvikmyndarinnsetningu sem sýnir stórbrotið landslag og náttúrufyrirbæri Íslands með áhrifamiklum hætti – og kynnast þarmeð því útsýni sem blasir við göngufólki á Íslandi.

Til að gefa gestum kost á að hvíla sig á ys og þys bókasýningarinnar og hitta fólk í afslöppuðu „íslensku“ andrúmslofti býður „Sögueyjan Ísland“ daglega til „gleðistundar“ kl. 17.00 í skálanum – með íslenskum höfundum, tónlist og léttum veitingum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum