Hoppa yfir valmynd
23. maí 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Álit, að því er tekur til kvörtunar yfir vinnubrögðum skólastjóra X í kjölfar atburðar í skólanum 26. janúar 2011

Ráðuneytinu hefur borist erindi dags. 4. febrúar 2011 þar sem kvartað er yfir vinnubrögðum skólastjóra X í kjölfar atburðar í skólanum 26. janúar sl. og óviðunandi frágangi og aðbúnaði á lóð skólans.

Samkvæmt 4. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 fer mennta- og menningarmálaráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem undir lögin falla. Í því felst að ráðuneytið fer með almennt eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um. Verður slíkt eftirlit ekki talið taka til annarra atriða en þeirra sem tiltekin eru sérstaklega í lögum um grunnskóla. Á þessum grundvelli getur ráðuneytið tekið til skoðunar einstök ákvæði laganna og látið í ljós álit sitt á túlkun þeirra og framkvæmd. Einstakar ákvarðanir um réttindi og skyldur nemenda samkvæmt lögum um grunnskóla eru á hinn bóginn ekki kæranlegar til ráðherra nema til þess standi sérstök heimild í einstökum ákvæðum laganna, sbr. 47. gr. laganna. Mál er varða starfsskyldur skólastjórnenda og annars starfsfólks grunnskóla teljast starfsmannamál og lúta eftirliti sveitarstjóra, sem fer almennt með yfirstjórn málefna starfsmanna í sveitarfélaginu, skv. nánari ákvörðun sveitarstjórnar, sbr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í 5. gr. laga um grunnskóla er fjallað um ábyrgð sveitarfélaga á rekstri grunnskóla. Samkvæmt 102 gr. sveitarstjórnarlaga fer innanríkisráðuneytið með málefni sveitarfélaga. Í greininni er kveðið á um það ráðuneyti fari með eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum.
Hvað varðar þann þátt erindis yðar sem snýr að vinnubrögðum og framkomu skólastjórnenda og starfsfólks grunnskóla gera, eins og áður segir, ákvæði laga um grunnskóla ekki ráð fyrir því að mál er varða réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga og skóla, falli undir valdsvið mennta- og menningarmálaráðuneytis.  Þér beinið erindinu því réttilega til Reykjavíkurborgar sem fer með ábyrgð á rekstri og kostnaði X.

Í erindinu kvartið þér einnig yfir því að öryggismálum á skólalóð sé ekki sinnt. Af því tilefni vill ráðuneytið vekja athygli á að samkvæmt reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða á húsnæði og skólalóð að uppfylla kröfur laga nr. 91/2008 um grunnskóla, áðurnefnda reglugerð, aðalnámskrár grunnskóla og laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum. Einnig ber að uppfylla kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda til slíkra mannvirkja. Húsnæði, skólalóð og allur aðbúnaður á ávallt að vera þannig úr garði gert að unnt sé að ná markmiðum laga um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla. Er þar sérstaklega átt við að nemendum og starfsfólki skóla sé tryggt öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi sem skapar öryggi og vellíðan þeirra svo sem varðandi hentugan húsbúnað, hljóðvist og lýsingu, fjölbreytni í náms- og leikaðstöðu og annan búnað. Þá segir einnig í reglugerð um gerð og búnað skólahúsnæðis og skólalóða að húsnæði, lóð, aðstaða, búnaður og öll starfsemi sem börn taka þátt í á vegum grunnskóla eigi að miðast við að öryggi nemenda sé tryggt. Nemandi er á ábyrgð skólans meðan á daglegum starfstíma skólans stendur, þegar hann tekur þátt í skipulögðu skólastarfi innan skólans, á skólalóð eða í ferðum á vegum skólans.

Ráðuneytið bendir á að í gildi er reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim sem sett er með stoð í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Reglugerðin var sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. fyrr greind lög um hollustuhætti.  Samkvæmt þessari reglugerð fer rekstraraðili með ábyrgð á að leiksvæði og leiktæki þess séu í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Ráðuneytið vill einnig vekja athygli á því að það í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga er að vinna að gerð handbóka um öryggis- og slysavarnir í leik- og grunnskólum.  Handbækurnar sem verða í rafrænu formi verða gefnar út á þessu ári. Vinna þessi byggist á ákvæðum sem sett voru í lög um leikskóla og grunnskóla árið 2008, reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655/2009 og áðurnefnda reglugerð um gerð og búnað skólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/2009  með það fyrir augum að leitast við að tryggja hagsmuni og velferð barna og nemenda enn betur.
Með hliðsjón af því að eitt af meginmarkmiðum laga um grunnskóla er að tryggja velferð, öryggi og jákvæðan skólabrag í grunnskólum og að allir nemendur fái notið skólavistar, með jafnrétti og lýðræði að leiðarljósi, er rétt að fram komi að ráðuneytið lítur mál af þessu tagi mjög alvarlegum augum.

Fyrir hönd ráðherra
Arnór Guðmundsson                                            Sigríður Lára Ásbergsdóttir
        


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum