Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember 2011

Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður nú fagnað í sextánda sinn. Í skólum landsins og á vegum margra annarra stofnana og samtaka verður dagsins minnst með einhverju móti.

Dagur íslenskrar tungu
dagur
Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður nú fagnað í sextánda sinn. Í skólum landsins og á vegum margra annarra stofnana og samtaka verður dagsins minnst með einhverju móti.

 Á vef dags íslenskrar tungu er að finna upplýsingar um hluta af því sem fram fer undir merkjum dagsins. Sennilega hafa þó ekki nærri allir áhugaverðir viðburðir ratað inn á vefinn enn og því er rétt að benda fólki á að fylgjast með því sem kann að bætast við vefinn næstu daga. Á vefnum er einnig vísað á ýmsa sérvefi um Jónas Hallgrímsson, þar er hugmyndabanki kennara og yfirlit um þá sem hlotið hafa hin árlegu Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og aðrar viðurkenningar á degi íslenskrar tungu.

Mennta- og menningarmálaráðherra heimsækir Breiðholtið

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra heimsækir skóla í Breiðholti á degi íslenskrar tungu 2011. Hún verður viðstödd samkomu barna og eldri borgara í Fellaskóla, að lokinni ferð um skólann liggur leiðin í Fellaborg, þá í Fjölbrautaskólann í Breiðholti, frístundaheimilið í Hólabrekkuskóla og í Sólborg. Ráðherra opnar veforðabókina ISLEX í Norræna húsinu klukkan fjögur. Hátíðardagskrá mennta- og menningarmálaráðuneytis verður í Gerðubergi í Breiðholti, öllum opin, kl. 17-18. Á hátíðardagskránni afhendir ráðherra Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu.

Hátíðardagskrá í Gerðubergi kl. 17:

  • Tónlist
  • Upplestur (verðlaunahafi úr Stóru upplestrarkeppninni)
  • Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra
  • Viðurkenning afhent á degi íslenskrar tungu
  • Tónlist
  • Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar afhent
  • Ávarp verðlaunahafa 
  • Upplestur  (verðlaunahafi úr Stóru upplestrarkeppninni)

§  Dagskrárslit  – Veitingar í boði mennta- og menningarmálaráðuneytis

Íslensk-skandinavísk veforðabók opnuð í Norræna húsinu

Íslenska-skandínavíska veforðabókin ISLEX verður opnuð við hátíðlega athöfn á degi íslenskrar tungu í Norræna húsinu. Að því loknu verður boðið upp á léttar veitingar. Athöfnin hefst kl. 16. Allir eru velkomnir. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Maraþonlestur í Ársafni. Opinn hljóðnemi 

Upphlutur, heimabakaðir ástarpungar og íslensk tunga setja svip á daginn. Allir velkomnir að lesa og hlusta milli kl. 11-18. Borgarbókasafnið – Ársafn.

Jónasarvaka í Þjóðmenningarhúsinu

Þjóðmenningarhúsið og Menningarfélagið Hraun í Öxnadal standa fyrir árlegri Jónasarvöku. Markús Örn Antonsson forstöðumaður setur vökuna. Börn úr grunnskólum lesa sjálfvalin ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og gera grein fyrir vali sínu og kynnum af Jónasi. Einar Clausen tenór syngur lög við ljóð Jónasar. Tryggvi Gíslason formaður Menningarfélagsins kynnir. Dagskráin hefst kl. 17.15. Allir eru velkomnir.

Hver var Jónas?

Heimildamyndin Hver var Jónas? verður sýnd í The Cinema, Geirsgötu 7b, við Reykjavíkurhöfn á degi íslenskrar tungu. Í myndinni er leitast við, á lifandi og léttan hátt, að varpa ljósi á hinar mörgu hliðar Jónasar og því sem hann áorkaði á sinni skömmu ævi ekki síst er leitast við að varpa ljósi á þann mann sem Jónas hafði að geyma.  Sýningin hefst klukkan 15 og er ókeypis aðgangur.

Lesið úr verkum Jakobs Thorarensen í Kórnum

Félagar úr Bókmenntaklúbbi Hananú lesa úr verkum skáldsins Jakobs Thorarensen á degi íslenskrar tungu kl. 16-17 í Kórnum, á 1. hæð Bókasafns Kópavogs. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir, kaffi og kleinur.

Íslenskuverðlaun fyrir reykvísk skólabörn í Ráðhúsinu

Íslenskuverðlaun skóla- og frístundaráðs verða að vanda afhent á degi íslenskrar tungu í Ráðhúsi Reykjavíkur. Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir. Markmið íslenskuverðlaunanna er að auka áhuga grunnskólanema á móðurmálinu og hvetja þá til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs. Athöfnin hefst kl. 16. Allir eru velkomnir.

Samkoma í Háskólanum á Akureyri

Háskólinn og Menningarfélagið Hraun í Öxnadal standa saman að dagskrá sem er tileinkuð ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. Börn úr grunnskólum flytja ljóð eftir Jónas og gera grein fyrir þeim. Upplestur og söngur. Guðmundur Engilbertsson sérfræðingur segir frá niðurstöðum rannsóknar á lestrarvenjum barna í fjórum löndum Evrópu. Dagskráin er frá kl. 17-18.30 og á að höfða til allra.

Stóra upplestrarkeppnin í grunnskólum

Stóra upplestrarkeppnin fer nú af stað í 16. sinn og hefst formlega á degi íslenskrar tungu; eldri börnin koma í bekki yngri barna og lesa upp sögur og ljóð; verðlaunahafar úr upplestrarkeppni síðasta árs lesa upp.

Söngveisla á degi íslenskrar tungu

Íslenski Sönglistahópurinn býður til söngveislu í IÐNÓ á degi íslenskrar tungu sem er tileinkuð ljóðskáldunum Jónasi Hallgrímssyni og Tómasi Guðmundssyni. Fjöldi tónskálda hefur í gegnum tíðina samið sönglög við mörg af þekktustu ljóðum þessara ástsælu ljóðskálda.  Á dagskránni eru sönglög eftir Sigfús Halldórsson, Inga T. Lárusson, Pál Ísólfsson og Jón Nordal sem og íslensk þjóðlög.

 Aðgangseyrir er 2.000 kr.

Dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum