Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2011 afhent í Gerðubergi

Kristín Marja Baldursdóttir hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2011sem voru afhent á hátíðardagskrá í Gerðubergi í Breiðholti. Auk þess var veitt sérstök viðurkenning fyrir störf í þágu íslenskrar tungu. 

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2011 voru afhent á hátíðardagskrá í Gerðubergi í Breiðholti. Auk þess var veitt sérstök viðurkenning fyrir störf í þágu íslenskrar tungu.  

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra veitti Kristínu Marju Baldursdóttur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2011.

 Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir:


,,Veruleiki íslenskra kvenna er yrkisefni Kristínar Marju og varpar hún í verkum sínum ljósi á líf og störf kvenna, hlutverk, drauma og þrár.
Jafnrétti kynjanna var markmið og leiðarljós er hún hóf skáldaferil sinn og má merkja það ljóst og leynt í gegnum verk hennar.
Kristín Marja er alþýðuskáld í þeim skilningi að bækur hennar eru lesnar í öllum kimum íslensks samfélags og þjóðin sameinast í sagnaheimi hennar.  Þá hafa verk Kristínar Marju hlotið miklar vinsældir erlendis og þá sérstaklega í þýskumælandi löndum.

Jafnrétti er mannréttindi og persóna Kristínar Marju, listakonan Karítas, segir:
„Í feðraveldinu hampa karlar hver öðrum og það versta er að konurnar hampa þeim líka, því ef þær færu nú að hampa hver annarri hver ætti þá að sjá um þvotta þjóðarinnar?“

Fyrsta skáldsaga Kristínar Marju, Mávahlátur, kom út 1995 og var hún sett á svið hjá Leikfélagi Reykjavíkur og kvikmynduð skömmu síðar. Kristín Marja hefur síðan sent frá sér fleiri skáldsögur, smásögur og ævisögu, ásamt því að eiga að baki farsælan feril sem blaðamaður á Morgunblaðinu.
Karítas án titils og Óreiða á striga sýna hlutskipti kvenna í upphafi 20. aldar og byggja þannig brú á milli fortíðar og nútíðar.
Verk hennar einkennast af kraftmiklum manneskjum. Stíllinn er sterkur og sambandið náið á milli lesenda og persóna.
Hún glímir í sögum sínum við margslungnar hliðar mannlífsins og undirtónninn er konan og hin kvenlæga veröld.
Í bókmenntunum lifir tungumálið, en eingöngu ef þær eru lesnar og Kristín Marja hefur fyrir margt löngu kvatt sér hljóðs hjá íslenskri þjóð og fangað fjöldann með myndrænum lýsingum og fjölskrúðugu máli sagnameistarans, enda blómstrar tungan í snjáðustu bókunum.  
 Því er það að ráðgjafarnefndin telur Kristínu Marju Baldursdóttur verðskulda Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2011.”

Kristín Marja Baldursdóttir, rithöfundur, hlaut í verðlaun 700 þúsund krónur og ritið Íslenskir fuglar, teiknaðir af Benedikt Gröndal 1899-1900.  Íslandsbanki veitir verðlaunaféð.


Viðurkenning á degi íslenskrar tungu:
Í reglum mennta- og menningarmálaráðuneytis um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu segir að auk Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sé heimilt að veita sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu.

Mennta- og menningarmálaráðherra ákvað að tillögu ráðgjafanefndar að veita Stuðmönnum viðurkenningu á degi íslenskrar tungu.
 
Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir:
,,Stuðmenn rekja uppruna sinn til ársins 1970 og Menntaskólans við Hamrahlíð, en segja má að þeir hafi í einni svipan orðið alþjóðareign þegar plata þeirra Sumar á Sýrlandi kom út 1975. Allar götur síðan hafa Stuðmenn kætt, frætt og fætt þjóð sína með söngvum sem komnir eru hátt á annað hundraðið og birst hafa á ótal hljómdiskum og myndböndum, í kvikmyndum, sviðsverkum og bókum. Alla þessa fjóra áratugi hefur „unglingahljómsveit allra landsmanna“ að auki verið órög við að sinna aðdáendum sínum með tónleikum og dansleikjum og hverskyns uppákomum út um allt land.
Margir texta Stuðmanna eru löngu orðnir klassískir og ómissandi þar sem fólk kemur saman. Það varðar því miklu að þeir eru allir ortir og fluttir á íslensku eins og ekkert sé sjálfsagðara. Á tímum þegar slíkt virðist frekar orðið undantekning en regla í poppheimum verður fordæmi Stuðmanna þeim mun mikilvægara. Ráðgjafarnefndin telur að Stuðmenn séu vel að því komnir að hljóta sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2011.”

Viðurkenningarhafi fékk listaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur.
Í ráðgjafarnefnd um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu sitja Kristín Helga Gunnarsdóttir, Kristján Árnason og Þórarinn Eldjárn.
Á vef dags íslenskrar tungu www.menntamálaráðuneyti.is/menningarmal/dit eru frekari upplýsingar um verðlaunin, hátíðardagskrána og aðra viðburði undir merkjum dagsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum