Hoppa yfir valmynd
5. október 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nám er vinnandi vegur - átak í starfsmenntun

Mennta- og menningarmálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um styrki til að efla starfsmenntun samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar um átakið Nám er vinnandi vegur.

mennta- og menningarmálaráðuneytið
mennta- og menningarmálaráðuneytið

Mennta- og menningarmálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um styrki til að efla starfsmenntun samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar um átakið Nám er vinnandi vegur. Styrkjunum er ætlað að efla starfstengt nám á framhalds- og háskólastigi og í framhaldsfræðslu. Umsóknarfrestur er til 1. júní 2013. Til úthlutunar eru allt að 200 milljónir kr. Að þessu sinni er lögð áhersla á eftirtalin verkefni:

1.    Samstarfsverkefni aðila úr atvinnulífi, háskóla/skólum, framhaldskóla/skólum og e.t.v. framhaldsfræðslu  þegar við á til þess að þróa,  koma á laggirnar og tilraunakenna námsbraut  á 4. þrepi, með opnum leiðum til áframhaldandi náms á háskólastigi.

Gert er ráð fyrir að námsbrautin verði tilraunakennd innan 2ja ára og að gerð sé grein fyrir rekstrargrundvelli í umsókn. Veittur verður einn samkeppnisstyrkur til verkefnis af þessu tagi, að hámarki 90 milljónir kr.

Styrkhæft verkefni skal fela í sér nýbreytni í tæknimenntun, t.d. í tölvu- og upplýsingatækni eða á sviði hönnunar og fela í sér bæði bóklegt nám í skóla og starfsþjálfun í fyrirtæki/stofnun.  Markhópur námsins er nemendur  sem lokið hafa starfsnámi á framhaldskólastigi. Verði tvö eða fleiri verkefni talin jafngild mun gefast tækifæri til að vinna hugmyndir betur áður en tekin verður ákvörðun um hvaða verkefni hljóti styrkinn.

2.    Styrkir til að búa til nýjar eða endurskoða 2ja ára starfsnámsbrautir sem lýkur með lokaprófi með möguleika á frekara námi á viðkomandi sviði.

Samstarf skóla og fyrirtækja eða stofnana og samstarf við framhaldsfræðslu þegar við á er forsenda styrkveitinga.

3.    Samstarfsverkefni fyrirtækja/stofnana og fræðsluaðila til að:

a.    bjóða starfsmönnum nám eða þjálfun sem í senn gagnast þeim og fyrirtæki/stofnun

b.    styrkja fyrirtæki og stofnanir til að taka við  grunn- og framhaldsskólanemendum og kynna þeim starfsemi sína með þátttöku í störfum sem þar eru unnin

Verkefnin geta snúið að:

  • þróun sérhæfðs náms innan fyrirtækis/stofnunar sem getur orðið eða er vísir að viðurkenndu starfsnámi. Hér getur verið um að ræða fræðslu sem fram fer innan fyrirtækja nú þegar sem löguð er að námsbrautakerfi framhaldsskóla eða þróuð sem námskrá innan framhaldsfræðslu
  • þróun á námi og þjálfun sem nýir starfsmenn taka áður en starf hefst
  • þróun á námi fyrir starfsmenn sem sjá um vinnustaðanám nemenda í samstarfi við fræðsluaðila
  • þróun og skipulagi viðfangsefna sem bjóðast nemendum 8.-10. bekkjar grunnskóla og nemendum á fyrstu árum framhaldskóla sem koma í nokkurra daga eða vikna starfsþjálfun/kynningu í fyrirtæki/stofnun

 

4.    Styrkir á sviði starfsmenntarannsókna

Styrktar verða starfsmenntarannsóknir sem beinast að því að kanna breytingar sem gerðar hafa verið á starfsmenntun og meta árangur þeirra og áhrif. Með fyrirvara um hæfi umsókna verða veittir þrír til fimm styrkir til háskóla, hver að upphæð allt að 5 milljónum kr. Áskilið er að rannsóknin feli í sér framlag nemenda á meistara- og/eða doktorsstigi. Í verkefnislýsingu skal gera grein fyrir framkvæmd verkefnisins auk rannsóknaspurninga.

Dæmi um spurningar og rannsóknarverkefni

Rannsóknir sem snúa að menntakerfinu:

Kerfisgreining á uppbyggingu starfsnáms í íslensku menntakerfi. Hlutverk, verkaskipting, samstarf og tengsl ýmissa aðila sem koma að skipulagi starfsmenntunar (ráðuneyti, starfsgreinanefnd/starfsgreinaráð, starfsnámsskólar, umsýsluaðilar með námssamningum, nemaleyfisnefndir, prófa- og matsnefndir). Greining á námskrám, að hvaða leyti er farið eftir námskrám og hvert er gildi námskrár á tiltekinni námsbraut að mati nemenda, kennara, leiðbeinenda á vinnustað, atvinnulífs? Úttekt á sveinsprófum, samanburður hvað varðar umfang, uppbyggingu og matsaðferðir. Samanburður á grunnnámi á starfsnámsbrautum eftir uppbyggingu námsins, hvers konar nám hentar best sem sameiginlegur undirbúningur undir nám í sérgreinum á tilteknu sviði og út frá hvaða forsendum? Gildi náms í almennum greinum í starfsnámi og tengsl þess við námið í heild. Greining á þörf fyrir hagnýtt starfsnám á háskólastigi.

Rannsóknir sem snúa að nemendum: 

Náms- og starfsval nemenda – hvers vegna líta svo fáir sem raun ber vitni á starfsnám sem fýsilegan fyrsta kost í framhaldsskóla? Brottfall úr starfsnámi á framhaldsskólastigi (hversu mikið og hvað getur skýrt brottfallið, er það ólíkt milli starfsnámsbrauta?) Hvernig er líðan og námsgengi nemenda á starfsnámsbrautum? Hvernig mætir starfsmenntakerfið námsþörfum og framavonum námsmanna á öllum aldri? Hver eru afdrif starfsnámsnemenda á vinnumarkaði? Hversu gott aðgengi hafa fullorðnir námsmenn að námsbrautum framhaldsskóla að loknu raunfærnimati og hvernig er námsgengi þeirra? Hvaða möguleika til frekara náms hafa fullorðnir einstaklingar með stutta formlega skólagöngu að baki? Hvernig vegnar nemendum úr starfsnámi í háskóla (fjöldi, í hvaða nám, úr hvaða starfsnámi, með hvaða undirbúning, í hvaða háskólagreinar, í hvaða háskóla)?

Rannsóknir sem snúa að námi og kennslu:

Hvernig er staðið að framkvæmd einstakra þátta starfsnáms samkvæmt námskrá og hvernig tengjast þeir þættir innbyrðis (almennar greinar, bóklegar og verklegar sérgreinar í skóla, vinnustaðanám/starfsþjálfun á vinnustað)? Greiningar á námskrám tiltekins starfsnáms. Greining á hlutverkum, gildi, sérkennum og samspili skólanáms og vinnustaðanáms í starfsnámi á framhaldsskólastigi. Hlutverk og gildi námsferilsbóka í starfsnámi? Hver er staða starfsnámskennara í skólum og leiðbeinenda/tilsjónarmanna nema á vinnustað hvað snertir menntun, starfsþróun og stoðkerfi? Hvað einkennir leiðsögn, kennslu og kennsluhætti í skólanámi og vinnustaðanámi? Hvernig er námsmati háttað í starfsnámi í ólíkum greinum (tæknigreinar, skapandi greinar, umönnunargreinar, löggiltar iðngreinar, löggiltar heilbrigðisgreinar, greinar sem njóta ekki löggildingar): gildi, skýringar og rök?


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum