Hoppa yfir valmynd
9. október 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Auglýsing um erindisbréf nemaleyfisnefnda

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur sett nemaleyfisnefndum nýtt erindisbréf og fellt úr gildi erindisbréf nemaleyfisnefnda nr. 950/2002.

ERINDISBRÉF
nemaleyfisnefnda.

1. gr.
Nemaleyfisnefndir eru skipaðar til fjögurra ára af mennta- og menningarmálaráðherra og starfa í umboði hans. Nemaleyfisnefndir eru skipaðar að ósk starfsgreinaráðs, sem gerir tillögu um fjölda nefndarmanna og tilnefnir jafnframt fulltrúa í hverja nefnd fyrir sig. Nemaleyfisnefndum ber að starfa í samræmi við lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem gilda um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað á hverjum tíma.

2. gr.
Nemaleyfisnefnd fjallar um umsóknir einstakra fyrirtækja, meistara eða stofnana um heimild til að taka nema á námssamning eða í starfsþjálfun og afgreiðir þær. Mennta- og menningarmálaráðuneytið gefur út nemaleyfi til fimm ára í senn á grundvelli afgreiðslu nemaleyfisnefndar. Nemaleyfisnefnd gengur úr skugga um að fyrirtæki eða stofnun er óskar eftir að taka nema á námssamning uppfylli skilyrði 8. gr. reglugerðar nr. 840/2011 um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað. Mennta- og menningarmálaráðuneytið setur nemaleyfisnefndum almennar starfsreglur að fengnum tillögum starfsgreinaráðs.

3. gr.
Mennta- og menningarmálaráðherra getur falið nemaleyfisnefnd önnur störf er lúta að starfsnámi á vinnustað, svo sem sérstakar úttektir á starfsþjálfun og vinnustaðanámi í fyrirtækjum og stofnunum. Nemaleyfisnefnd er heimilt að sinna mati og eftirfylgni verkefna sem tengjast vinnustaðanámi og starfsþjálfun sem ákveðið er af mennta- og menningarmálaráðherra eða sem mælt er fyrir um í aðalnámskrá framhaldsskóla.

4. gr.
Erindisbréf þetta, sem sett er á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 840/2011 um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað og með skírskotun til 28. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi erindisbréf nemaleyfisnefnda nr. 950/2002.


Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 20. september 2012.


Katrín Jakobsdóttir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum