Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2005

Í dag, miðvikudaginn 16. nóvember, var hátíðardagskrá í sal Listasafns Reykjanesbæjar í Duus-húsum í Reykjanesbæ þar sem afhent voru Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2005 og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu.

Í dag, miðvikudaginn 16. nóvember, var hátíðardagskrá í sal Listasafns Reykjanesbæjar í Duus-húsum í Reykjanesbæ þar sem afhent voru Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2005 og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur ákveðið að veita Guðrúnu Helgadóttur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2005. Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir: "Guðrún Helgadóttir er án nokkurs vafa vinsælasti núlifandi barnabókahöfundur landsins. Bækur hennar eru á þriðja tug og hafa notið gríðarlegra vinsælda íslenskra lesenda allt frá því fyrsta bókin Jón Oddur og Jón Bjarni kom út árið 1974. Varla þarf að hafa mörg um orð um það hversu miklu máli það skiptir fyrir íslensk börn að alast upp við góðar bókmenntir sem höfða til þeirra. Ekki er hægt að efast um áhrifamátt barnabóka Guðrúnar. Hún skrifar til barna á þann hátt að þau finna að þau eiga sér málsvara enda nýtur sjónarhorn barnsins sín einkar vel í bókum hennar. Sem rithöfundur býr Guðrún yfir ríkri frásagnargáfu en jafnframt leggur hún mikið upp úr því að skrifa góðan texta. Hún hefur einkar gott vald á íslenskri tungu og að þessu leyti gegna verk hennar mikilvægu uppeldishlutverki þegar kemur að því að efla málsþroska barna, auðga orðaforða þeirra og gera þau meðvituð um mikilvægi ritaðs máls. Á löngum ferli hefur hún verið óþreytandi við að leggja sitt á vogarskálarnar til varðveislu íslenskrar tungu. Guðrún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín, þar á meðal Norrænu barnabókaverðlaunin, verðlaun úr Thorbjörn Egner sjóðnum, barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur og barnabókaverðlaun skólamálaráðs." Fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu hlýtur Guðrún Helgadóttir Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2005.

Verðlaunin eru 500 þús. kr. og ritsafn Jónasar Hallgrímssonar í skinnbandi. Menningarsjóður Íslandsbanka og Sjóvá-Almennra leggur til verðlaunin.

Viðurkenningar: Í reglum menntamálaráðuneytis um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu segir að auk Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sé heimilt að veita sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu.

Menntamálaráðherra hefur ákveðið að veita tvær viðurkenningar 2005. Önnur er veitt Lestrarmenningu í Reykjanesbæ og hina fær Bókaútgáfan Bjartur. Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir:

1. „Lestrarmenning í Reykjanesbæ er þriggja ára þróunarverkefni (2003-2006) sem hrundið var af stokkunum til að efla lestrarfærni og málskilning barna í bæjarfélaginu. Markmið verkefnisins er að fá allt samfélagið til að taka höndum saman um að efla mál- og lesþroska barna, allt frá fæðingu til fullorðinsára. Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar stýrir verkefninu en að því koma með formlegum hætti heilbrigðisstofnanir og ungbarnaeftirlit, leikskólar, grunnskólar og bókasöfn. Námskeið eru haldin fyrir alla sem að verkefninu koma og vandaðir fræðslubæklingar gefnir út fyrir almenning. Jafnframt hefur markmiðum verkefnisins verið komið á framfæri við almenning gegnum fjölmiðla og með ýmsum öðrum hætti, t.d. með lestraráskorun milli fyrirtækja. Lestrarmenning í Reykjanesbæ er óvenjulega metnaðarfullt og umfangsmikið verkefni. Strax við ungbarnaeftirlit er lögð sérstök rækt við að fylgjast með málþroska og leiðbeina foreldrum um leiðir til málörvunar fyrstu árin. Á leikskólastigi eru lögð drög að markvissu starfi með málörvun og lestur í samvinnu við foreldra og bókasöfn, og því starfi er fram haldið í grunnskólum með fjölbreyttum verkefnum og tengslum við frístundastarf. Sérstaklega er gert ráð fyrir að styðja nýbúa og aðra sem hafa veikari forsendur en aðrir til að ná tökum á íslensku máli og lestri. Árangur barnanna er metinn reglulega. Verkefnið hefur vakið mikla athygli í bæjarfélaginu og utan þess. Það er gott dæmi um verkefni sem unnt væri að skipuleggja í hvaða sveitarfélagi sem er. Sú reynsla og þekking sem aflast hefur í Reykjanesbæ ætti að vera öðrum sveitarfélögum góður stuðningur. Fræðslustjóri í Reykjanesbæ og frumkvöðull verkefnisins er Eiríkur Hermannsson."

2. „Bókaútgáfan Bjartur hefur á undanförnum árum látið þýða erlend úrvalsverk eftir marga af fremstu rithöfundum samtímans. Árlega koma út 4-6 bækur af þessu tagi í ritröðinni Neon og eru þær nú komnar vel á fjórða tuginn. Höfuðáhersla er lögð á ný skáldverk sem vakið hafa athygli í heimalandinu og þykja eiga erindi við íslenska lesendur. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hve mikilvægt það er að nýjum erlendum skáldverkum sé komið á framfæri hér á landi, einkum þegar um er að ræða bækur sem ritaðar eru á málum sem fáir Íslendingar kunna til hlítar eins og ítölsku og rússnesku. En hitt er ekki minna um vert að þýðendur eru þannig hvattir í verki til að láta reyna á þanþol og þróunargetu íslenskrar tungu. Málnotendur og unnendur fagurbókmennta njóta góðs af þeirri glímu og þegar best tekst til nær þýðingin að skjóta rótum í innlendri bókmenntahefð og verða hluti af menningarlandslaginu. Það er lofsvert að bókaútgáfa skuli sýna slíkt frumkvæði og metnað. Bjartur er því vel að viðurkenningu kominn á degi íslenskrar tungu fyrir öflugt kynningar- og útgáfustarf sitt á erlendum samtímabókmenntum. Forstjóri Bjarts og aðaleigandi er Snæbjörn Arngrímsson."

Viðurkenningarhafar fá listaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur.

Í ráðgjafarnefnd um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu sitja Baldur Sigurðsson, Kolbrún Bergþórsdóttir og Sveinn Yngvi Egilsson.

Nánari upplýsingar veitir Ari Páll Kristinsson, Íslenskri málstöð ([email protected]; s. 525-4441, 897-1804). Á vef dags íslenskrar tungu eru frekari upplýsingar um verðlaunin, hátíðardagskrána og aðra viðburði undir merkjum dagsins og á vef Íslenskrar málstöðvar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum