Hoppa yfir valmynd
20. desember 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ný nefnd um málefni fjölmiðla

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun, þriðjudaginn 20 desember, að skipuð verði nefnd um málefni fjölmiðla er falið verði að semja lagafrumvarp á grundvelli þeirra tillagna er lagðar voru fram af fjölmiðlanefnd síðastliðið vor.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun, þriðjudaginn 20 desember, að skipuð verði nefnd um málefni fjölmiðla er falið verði að semja lagafrumvarp á grundvelli þeirra tillagna er lagðar voru fram af fjölmiðlanefnd síðastliðið vor.

Páll Hreinsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, verður formaður nefndarinnar, en Páll Þórhallsson lögfræðingur varaformaður. Auk þeirra munu fulltrúar allra flokka á Alþingi tilnefna fulltrúa í nefndina.

Tvær nefndir hafa verið skipaðar til að fjalla um eignarhald á fjölmiðlum og málefni fjölmiðla. Hin fyrri lauk störfum í apríl 2004, en hin síðari skilaði menntamálaráðherra skýrslu sinni í apríl á þessu ári.

Hin síðari nefnd var skipuð í nóvember 2004 og áttu í henni sæti fulltrúar allra þingflokka, en
formaður var Karl Axelsson, lögmaður.

Var það einróma niðurstaða nefndarinnar að tryggja yrði með öllum tiltækum ráðum menningarlega og stjórnmálalega fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði svo að fjölmiðlar geti sinnt þeim skyldum sínum gagnvart almenningi að koma fram með ólíkar skoðanir, fjölbreytt sjónarhorn, veita yfirvöldum og sterkum hagsmunaaðilum aðhald og efla lýðræðislega umræðu.

 Í skýrslu fjölmiðlanefndar kom fram að leggja bæri áherslu á að öflug almenn umræða ætti sér stað um skýrsluna, efni hennar og tillögur áður en til lagasetningar kæmi. Á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því nefndin skilaði skýrslu sinni hefur átt sér stað mikil umræða um efni hennar og innihald.

 Frá upphafi hefur legið ljóst fyrir að töluverð vinna væri eftir áður en hægt væri að leggja fram frumvarp á Alþingi byggt á niðurstöðum nefndarinnar. Að mati menntamálaráðherra er mikilvægt að viðhalda þeirri þverpólitísku sátt sem myndaðist um málefni fjölmiðla í starfi hinnar síðari nefndar. Því sé mikilvægt að fulltrúar allra þingflokka eigi aðild að því að móta endanlega lagasetningu um málefni fjölmiðla.

Stefnt er að því að nefndin hefji störf í janúar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum