Hoppa yfir valmynd
29. desember 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Árangursstjórnunarsamningar 2005

Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, mun í dag undirrita árangursstjórnunarsamninga menntamálaráðuneytis við menningarstofnanir þess.

Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, mun í dag undirrita árangursstjórnunarsamninga menntamálaráðuneytis við menningarstofnanir þess. Athöfnin fer fram í Þjóðmenningarhúsinu og hefst kl. 15.

Menntamálaráðuneytið hefur að undanförnu undirbúið árangursstjórnunarsamninga við menningarstofnanir sem undir það heyra og eru í A-hluta fjárlaga. Þessar stofnanir eru: Blindrabókasafn Íslands, Fornleifavernd ríkisins, Húsafriðunarnefnd, Íslenski dansflokkurinn, Kvikmyndasafn Íslands, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn, Listasafn Einars Jónssonar, Listasafn Íslands, Þjóðleikhúsið, Þjóðminjasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands. Í B-hluta fjárlaga eru Ríkisútvarpið og Sinfóníuhljómsveit Íslands og verða gerðir samningar við þær stofnanir síðar.

Tilgangur árangursstjórnunarsamninganna er að festa í sessi ákveðið samskiptaferli milli ráðuneytis og viðkomandi stofnunar, auk þess að draga fram áherslur í stefnu og áætlunum hennar. Í samningunum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur samningsaðila vegna þeirra verkefna sem stofnuninni hafa verið falin. Þá er í samningunum ákvæði er lúta að starfsmannastefnu, jafnréttismálum, aðgengi að stofnununum og upplýsingamálum. Samningarnir breyta ekki ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi á starfsemi stofnananna eða þeim stjórnsýsluskyldum sem þeim eru ætlaðar lögum samkvæmt.

Ráðuneytið telur mikilvægt að gera samninga af þessu tagi við þær stofnanir sem undir það heyra og hefur þegar góða reynslu af þeim. Þeir auka skilvirkni í starfsemi stofnananna og tryggja að samskipti þeirra við ráðuneytið séu með reglubundnum hætti.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum