Hoppa yfir valmynd
21. mars 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Málefni Háskólans á Akureyri

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu menntamálaráðherra um að framlög til Háskólans á Akureyri verði aukin um 60 milljónir króna á þessu ári.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu menntamálaráðherra um að framlög til Háskólans á Akureyri verði aukin um 60 milljónir króna á þessu ári. Er 40 milljónum króna ætlað að vega upp aukinn kostnað háskólans vegna aðstöðu í hinu nýja rannsóknarhúsi Borgum og er kostnaði skólans vegna rannsóknarhússins nú að fullu mætt. Þessu til viðbótar verður 20 milljónum króna ráðstafað á þessu ári til að koma til móts við aukinn nemendafjölda í skólanum.

Á undanförnum árum hefur starfsemi Háskólans á Akureyri einkennst af hröðum vexti: námsframboð hefur aukist, nemendum fjölgað og húsnæði stækkað. Á árunum 2000-2005 fjölgaði nemendaheimildum skólans samkvæmt fjárlögum um rúm 123%. Á milli áranna 2005 og 2006 var nemendaheimildum enn fjölgað í fjárlögum eða um 7,9%. Frá árinu 2000 hafa framlög til Háskólans á Akureyri samkvæmt fjárlögum verið aukin um nær 140%.

Hinn hraði vöxtur skólans hefur leitt til ójafnvægis á ýmsum sviðum í stjórnun og rekstri skólans og hann hefur þurft að glíma við margvíslega vaxtarverki. Rekstraráætlanir hafa ekki staðist og þrátt fyrir stóraukin framlög til skólans hafa útgjöld farið fram úr heimildum í fjárlögum.

Um mitt síðasta ár hóf menntamálaráðuneytið vinnu með stjórnendum skólans við að fara yfir rekstur háskólans. Í tengslum við vinnuna var IMG-ráðgjöf falið að gera úttekt á skólanum til að greina starfsemi hans og rekstur og lá niðurstaða hennar fyrir í október. Þar kom fram að háskólinn hefði náð ágætum árangri á mörgum sviðum. Í september sl. skilaði háskólinn endurskoðaðri rekstraráætlun fyrir árin 2005-2008. Samkvæmt henni var meðal annars gert ráð fyrir hagræðingaraðgerðum og 6-7% nemendafjölgun milli ára og að rekstrarafgangur yrði nýttur til að greiða niður halla fyrri ára. Í framhaldi af því gerði ríkisstjórnin tillögu um 110 m.kr. aukafjárveitingu á árinu 2005 sem Alþingi samþykkti. Sú aukafjárveiting hefði átt að leiða til þess að útgjöld skólans yrðu innan fjárheimilda en í ljós kom að áætlun skólans stóðst ekki og var halli á rekstri hans árið 2005.

Menntamálaráðuneytið og stjórnendur Háskólans á Akureyri hafa undanfarna mánuði unnið sameiginlega að því að tryggja rekstrargrundvöll skólans til frambúðar. Er það trú beggja aðila að með þeirri ákvörðun sem nú liggur fyrir sé traustum stoðum skotið undir rekstur hans og tryggt að Háskólinn á Akureyri geti haldið áfram að vaxa og dafna. Háskólinn á Akureyri hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem ein helsta vísinda- og fræðslustofnun landsins. Nemendur eru um 1550 og fastráðnir kennarar og annað starfsfólk eru um 170 manns. Stundakennarar eru tæplega 500. Það er stefna stjórnvalda að skólinn fái að vaxa og eflast á næstu árum og má nefna í því sambandi að skólinn mun í haust taka upp meistaranám í lögfræði í fyrsta skipti.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum