Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nefnd um eflingu starfsnáms

Menntamálaráðherra skipaði 12. janúar sl. nefnd um endurskoðun starfsnáms sem hefur nú lokið störfum og skilað tillögum um hvernig efla megi starfsnám til framtíðar.

Menntamálaráðherra skipaði 12. janúar sl. nefnd um endurskoðun starfsnáms sem hefur nú lokið störfum og skilað tillögum um hvernig efla megi starfsnám til framtíðar.

Í tillögum starfsnámsnefndar felst að hefðbundinni aðgreiningu framhaldsskólanáms í starfsnám og bóknám verður vikið til hliðar. Allt framhaldsskólanám verður því jafngilt.

Helstu áherslur

Meðal helstu áherslna nefndarinnar eru:

  • Aðgreining náms í framhaldsskólum í bóknám og starfsnám verði afnumin.
  • Nýr framhaldsskóli verði ein heild með fjölmörgum námsleiðum.
  • Skólunum verði veitt frelsi til að bjóða viðtökumiðað nám, þ.e. nám sem miðast við lokamarkmið og þarfir nemenda, kröfur næsta skólastigs og/eða atvinnulífs. Nemandi ljúki námi á þeim tíma sem nauðsynlegur er til þessa.
  • Í kjarna verði íslenska, stærðfræði og enska. Kjarni og nám umfram kjarna samvæmt samþykktri námsskrá verði metið jafnt til stúdentsprófs.
  • Náms- og starfsráðgjöf verði efld.
  • Tengsl milli grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla verði efld verulega.

Einn framhaldsskóli

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra kynnti tillögur nefndarinnar á blaðamannafundi í Þjóðminjasafninu þriðjudaginn 11. júlí. ,,Ég hef lagt mikla áherslu á að starfsnám verði skoðað sérstaklega samhliða vinnu við skipulag stúdentsprófsins. Niðurstöður nefndarinnar og tillögur um einn framhaldsskóla án aðgreiningar er mikilvægur liður í því að efla starfsnám til framtíðar," segir menntamálaráðherra.

Frelsi kallar á ábyrgð

Menntamálaráðherra bendir á að í tillögunum felst að framhaldsskólum verði veitt aukið frelsi og að sama skapi beri þeir meiri ábyrgð. Framhaldsskólarnir muni í samstarfi við háskólana annars vegar og atvinnulífið hins vegar, geta mótað námsleiðir sem henta nemendum og atvinnulífinu hverju sinni.

,,Þannig gætu skólar svo dæmi sé tekið sett saman námsleiðir sem tvinna saman starfs- og bóknám, til dæmis verkfræði og byggingartækni eða sagnfræði og textílnám, atvinnutengt verslunarnám eða jafnvel boðið upp á hreinar stærðfræðibrautir. Þetta þrennt, í fyrsta lagi einn viðtökumiðaður framhaldsskóli, í öðru lagi þverfagleg tenging námsgreina og loks í þriðja lagi aukið frelsi og ábyrgð myndar grunn að námi sem er í takt við atvinnulífið, háskólana og alþjóðlega þróun."

Menntamálaráðherra telur tímabært að þróa framhaldsskólann á breiðum grunni – slá um hann rúman ramma þar sem ólíkar raddir finna hljómgrunn og góðar hugmyndir fá verðskulduð tækifæri. Í starfi nefndarinnar hafi verið hlustað á öll sjónarmið og hugmyndirnar séu metnaðarfullar og í takti við framtíðina. ,,Hér er leitast við að skapa frjóan grunn framþróunar í skólastarfi og því fagna ég og þá sérstaklega hversu mikið valfrelsi fylgir þessum hugmyndum, bæði fyrir nemendur og skóla."

Menntamálaráðherra segir að næsta skref sé að setja þessar hugmyndir um einn framhaldsskóla inn í þá vinnu sem nú stendur yfir í ráðuneytinu varðandi 10 skref til sóknar í skólamálum. ,,Ég legg mikla áherslu á að þetta góða innlegg fari strax inn í þá umræðu og þann starfshóp því ég tel þessar hugmyndir eiga mjög vel heima í umræðunni um breytta námsskipan til stúdentsprófs."

Fullkomin samstaða

Jón B. Stefánsson, formaður starfsnámsnefndarinnar, segir fullkomna samstöðu hafa náðst í nefndinni um þessar tillögur en í henni hafi setið fulltrúar allra helstu hagsmunaaðila, atvinnurekenda, launafólks, Kennarasambandsins, framhaldsskólanna og tveir þingmenn beggja vegna borðsins. ,,Sú staðreynd að nefndin er einhuga um tillögurnar hlýtur að vera gott veganesti fyrir framgang málsins."

Jón bendir á að samkvæmt tillögum nefndarinnar geti skólar til dæmis í samstarfi við háskóla búið til nýjar námsleiðir sem séu góður undirbúningur undir sérsvið í háskólanámi og í samstarfi við starfsnámsnefndir hannað nýjar námsleiðir fyrir atvinnulífið eða endurmenntun núverandi vinnuafls. Nemendur geti á mun auðveldari hátt en áður farið milli námsbrauta með kjarnafög þar sem kjarninn sé alls staðar eins.

Starfsnámsnefnd

Í starfsnámsnefnd sátu:

  • Jón B. Stefánsson, skólameistari Fjöltækniskóla Íslands, formaður
  • Baldur Gíslason, skólameistari Iðnskólans í Reykjavík,
  • Hjálmar Árnason, alþingismaður
  • Einar Már Sigurðsson, alþingismaður
  • Aðalheiður Steingrímsdóttir, fulltrúi Kennarasambands Íslands,
  • Emil B. Karlsson, fulltrúi Samtaka atvinnulífsins,
  • Ingi Bogi Bogason, fulltrúi Samtaka iðnaðarins
  • Margrét Friðriksdóttir, skólameistari Menntaskólans í Kópavogi
  • Stefán Ó. Guðmundsson, fulltrúi Alþýðusambands Íslands
  • Starfsmaður nefndarinnar var Ólafur Grétar Kristjánsson.

Nýr framhaldsskóli : skýrsla starfsnámsnefndar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum