Hoppa yfir valmynd
12. september 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skipun í embætti forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur skipað Véstein Ólason í embætti forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur að fenginni umsögn stjórnar Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skipað Véstein Ólason í embætti forstöðumanns stofnunarinnar frá 12. september 2006 til 1. mars 2009. Menntamálaráðuneyti bárust alls fjórar umsóknir um embættið.

Vésteinn Ólason lauk Mag.Art. prófi í íslenskum fræðum frá heimspekideild Háskóla Íslands 1959 og Dr.phil. gráðu frá sama skóla 1983. Vésteinn er prófessor við hugvísindadeild Háskóla Íslands. Hann gegndi stöðu forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi frá 1999 þar til 1. september sl. er stofnunin var lögð niður með lögum. Vésteinn hefur jafnframt gegnt prófessorsstöðu við Oslóarháskóla í Noregi og við Kaliforníuháskóla í Berkeley í Bandaríkjunum.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er ný stofnun sem varð til 1. september sl. með sameiningu fimm stofnana, þ.e. Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Orðabókar Háskóla Íslands, Íslenskrar málstöðvar, Örnefnastofnunar Íslands og Stofnunar Sigurðar Nordals.

Fjórir sóttu um starf forstöðumanns: Dr. Gísli Sigurðsson, dr. Kristján Árnason, dr. Úlfar Bragason og dr. Vésteinn Ólason.

Í dómnefnd um hæfi umsækjenda voru skipuð þau dr. Marianne Kalinke, prófessor í germönskum fræðum við University of Illinois, prófessor Eiríkur Rögnvaldsson og dr. Sigrún Pálsdóttir.

Í áliti dómnefndar kemur fram að hún mat hvort umsækjendur hefðu prófessorshæfi á fræðasviði stofnunarinnar eins og það er skilgreint skv. lögum og hvernig rannsóknir og störf umsækjenda samræmdust því hlutverki sem stofnuninni er ætlað að rækja. Taldi dómnefnd alla umsækjendur hæfa til starfans.

Í áliti stjórnar stofnunarinnar segir að allir umsækjendur hafi lagt fram mikilvægan skerf til eflingar íslenskrar tungu og menningar og allir hafi þeir stjórnunarreynslu.

Stjórnin telur að Vésteinn Ólason sé hæfastur umsækjenda vegna mikilla og góðra fræðastarfa auk þess sem hann hefur mikla stjórnunarreynslu. Mælti stjórnin einróma með því að Vésteinn yrði fyrir valinu sem forstöðumaður nýrrar Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum