Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ráðning landsbókavarðar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur skipað Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur í embætti landsbókavarðar til fimm ára, frá 1. apríl 2007 næstkomandi.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur skipað Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur í embætti landsbókavarðar til fimm ára, frá 1. apríl 2007 næstkomandi. Menntamálaráðuneyti bárust alls sex umsóknir um embættið.

Ingibjörg Steinunn er fædd árið 1955. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu (M.P.A.) árið 2006 frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í bókasafns- og upplýsingafræði frá sama skóla árið 1996. Hún stundaði nám í uppeldis- og kennslufræði við Háskóla Íslands 1988 - 1989 og nam sagnfræði við Háskólann í Lundi árið 1989 - 1990. Ingibjörg Steinunn hlaut B.A. gráðu í bókasafnsfræði og bókmenntasögu frá Háskóla Íslands árið 1978. Hún hefur starfað við bókasöfn, skjalasöfn og skjalastjórn nær samfellt frá árinu 1978.

Ingibjörg Steinunn býr yfir mikilli stjórnunarreynslu. Frá árinu 1980 - 1995 var hún bókasafnsfræðingur bókasafns Fjölbrautaskólans í Breiðholti og frá 1994 - 1999 veitti hún bókasöfnum menntamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og fleiri ráðuneyta forstöðu. Árin 1999 - 2005 var hún skjalastjóri fjármálaráðuneytis og staðgengill skrifstofustjóra rekstrar- og upplýsingaskrifstofu sama ráðuneytis frá árinu 2004 - 2005. Í dag starfar hún sem sviðsstjóri á varðveislusviði Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum