Hoppa yfir valmynd
11. maí 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Niðurstöður nefndar um lesblindu í grunnskólum

Hinn 27. nóvember 2006 skipaði menntamálaráðherra nefnd sem gera átti tillögur um úrræði fyrir nemendur með leshömlun (dyslexiu/lesblindu) og aðra lestrarörðugleika í grunn- og framhaldsskólum.

Hinn 27. nóvember 2006 skipaði menntamálaráðherra nefnd sem gera átti tillögur um úrræði fyrir nemendur með leshömlun (dyslexiu/lesblindu) og aðra lestrarörðugleika í grunn- og framhaldsskólum. Nefndin hefur nú lokið störfum og lagt fram skýrslu þar sem settar eru fram tillögur til úrbóta auk þess sem færð eru rök fyrir mikilvægi þeirra úrbóta sem talin er þörf á.

Nefndinni var falið að gera tillögur um eftirfarandi:

  • Fyrirkomulag greiningar á lestrarerfiðleikum og eftirfylgni.
  • Stuðning við skóla og kennara þannig að betur megi koma til móts við nemendur sem eiga í erfiðleikum með lestrarnám.
  • Ráðgjöf og stuðning við foreldra barna með lestrarerfiðleika.
  • Próftöku nemenda með leshömlun með tilliti til samræmdra prófa í 4., 7. og 10. bekk og hvernig fara skuli með undanþágur og frávik fyrir þennan nemendahóp. Auk þess átti nefndin að kanna fyrirkomulag, þjálfun og kennslu kennaranema í lestrarkennslu með tilliti til kennslu nemenda með lestrarörðugleika.

Þegar hefur verið hrint af stað aðgerðaáætlun til að koma tillögum nefndarinnar í framkvæmd en á fjárlögum þessa árs eru 15 milljónir sem ætlaðar eru til að mæta kostnaði af bættum úrræðum fyrir einstaklinga með leshömlun. Hefur starfshópi verið falin ábyrgð á því að koma tillögum nefndarinnar í framkvæmd.

Í skýrslunni er lögð áhersla á að árangursríkt sé að bregðast við seinkuðum málþroska og slakri hljóðkerfisvitund hjá börnum strax í leikskóla. Því sé mikilvægt að skoðað verði hvernig haga megi skimunum í leikskólum og markvissri þjálfun í kjölfarið, þar sem það á við. Bent er á að skimun þessa aldurshóps gæti hugsanlega farið fram í samvinnu við heilsugæslu. Þá er einnig fjallað um að huga þurfi að kerfisbundnum samskiptaleiðum milli leikskóla og grunnskóla til að upplýsingar um börn sem vænta má að þurfi sérhæfða þjónustu fylgi þeim yfir í grunnskóla. Menntamálaráðuneytið hefur nú þegar leitað eftir samstarfi við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið þannig að skoða megi hugsanlega samvinnu við heilsugæslustöðvar.

Nefndin leggur m.a. til að Námsmatsstofnun verði falið að breyta samræmdum prófum í 4. og 7. bekk þannig að þau nýtist til að skima fyrir lestrarvanda. Jafnframt er lagt til að fyrirkomulagi og fyrirlögn samræmds prófs í íslensku í 10. bekk verði breytt þannig að tekið sé mið af þörfum nemenda með leshömlun. Sérstaklega er áréttað að þar til prófunum hefur verið breytt verði komið til móts við nemendur með viðurkennda greinda leshömlun með sama hætti og gert var haustið 2006.

Á grundvelli skýrslunnar fór ráðuneytið þess á leit við Námsmatsstofnun að skoðað yrði hve langan tíma það muni taka að breyta prófunum með þessum hætti, hvort það muni hafa einhver áhrif á framkvæmd prófanna og hvað það muni kosta. Námsmatsstofnun hefur þegar svarað fyrirspurninni og telur að til greina komi að breyta prófunum í samræmi við tillögur nefndarinnar fyrir haustið 2008.

Þá er lagt til í skýrslunni að skipaðar verði tvær nefndir. Önnur til að vinna framkvæmdaáætlun fyrir stofnun þekkingar- og fræðaseturs en hin til að setja saman tillögur um hvernig efla megi fræðslu og kennslu í lestrarfræðum með áherslu á sértæka lestrarörðugleika og skylda námsörðugleika í allri kennaramenntun. Ákveðið hefur verið að mæta þessum tillögum með því að skipa einn starfshóp og verður  honum jafnframt falið að fylgja eftir fleiri tillögum nefndarinnar.
 
Nefndin setti m.a. fram eftirfarandi tillögur:

  • Lagt til að menntamálaráðherra láti útbúa tvenns konar fræðsluefni. Annars vegar fyrir foreldra um réttindi nemenda með leshömlun og skyldur skóla og hins vegar fyrir kennara og annað starfsfólk grunn- og framhaldsskóla um hvernig kennarar geta mætt fjölbreyttum þörfum nemenda með leshömlun.
  • Lagt er til að unnin verði samræmd skimunarpróf fyrir 1.-3. bekk grunnskóla með ítarlegum kennsluleiðbeiningum, þ.m.t. próf sem lagt yrði fyrir nemendur við upphaf skólagöngu.
  • Lagt er til að stuðlað verið að því að komið verði til móts við framhaldsskólanemendur sem ekki hafa fengið formlega greiningu.
  • Lagt er til að stuðlað verði að útgáfu kennsluefnis í lestri fyrir fyrstu bekki grunnskóla. 
  • Lagt er til að leitað verði leiða til að að tryggja nemendum grunn- og framhaldsskóla gott aðgengi að upplýsingatækni og að í því samhengi verði skólabókasöfn efld þannig að þau geti betur sinnt nemendum með leshömlun.

Nefndin bendir á að hvetja þurfi nemendur og foreldra til að gera grein fyrir leshömlun nemenda á umsókn þegar sótt er um framhaldsskólavist og að foreldrar verði upplýstir um mikilvægi þess að upplýsingar um leshömlun barnsins flytjist milli skólastiga. Áréttað er að grunn- og framhaldsskólar verði að sjá til þess að nemendur með leshömlun fái tækifæri til að koma þekkingu sinni á framfæri með viðeigandi úrræðum við próftöku. Jafnframt er lagt til að framhaldsskólum verði tryggt fjármagn til að veita nemendum með leshömlun faglega aðstoð við nám.  

Í skýrslu nefndarinnar eru loks lagðar til breytingar á gildandi lögum og reglum um grunn- og framhaldsskóla og hefur þeim tilmælum verið beint til formanna nefnda er nú vinna að endurskoðun þeirrar löggjafar á grundvelli tíu punkta samkomulags menntamálaráðuneytis og Kennarasambandsins að þeir hafi hliðsjón af eftirfarandi tillögum nefndarinnar.

  • Lagt er til að kveðið skuli á í lögum að í skólanámskrá grunn- og framhaldsskóla skuli koma fram hvernig þjónustu við nemendur með leshömlun er háttað, hvaða starfsmaður skólans er ábyrgur fyrir þjónustunni og hún kynnt fyrir foreldrum. Jafnframt að sjálfsmat skóla taki til mats á stuðningi við nemendur með leshömlun.
  • Lagt er til að grunnskólum verði skylt að leggja samræmt skimunarpróf fyrir alla nemendur í 1. bekk og sinna kerfisbundinni skimun í 2. og 3. bekk. Prófunum fylgi leiðbeiningar sem gera skólunum kleift að bregðast við með kerfisbundnum hætti eftir því sem við á. Ef niðurstaða skimunar á seinni hluta yngsta stigs sýnir að nemandinn þarfnast frekari greiningar þá beri skólinn ábyrgð á framkvæmd greiningar. Skólum verði og skylt að greina foreldrum frá niðurstöðum skimunarprófa og þeirri þjónustu sem stendur nemendum til boða.
  • Lagt er til að lög og reglugerðir um grunn- og framhaldsskóla kveði með ótvíræðum hætti á um rétt nemenda með leshömlun til sérstaks stuðnings í námi.
  • Lagt er til að skylt verði að öll námsgögn sem notuð eru í grunn- og framhaldsskólum verði einnig tiltæk í því horfi er hentar leshömluðum nemendum.
  • Lagt er til að tryggt verði, þegar niðurstöður greiningar liggja fyrir og ljóst er að nemendi þarf á sérúrræðum að halda, að nemandi fái kennslu í samræmi við ákvæði reglugerðar um sérkennslu nr. 389/1996.
  • Lagt er til að í námskrám verði hugtakið lestur/læsi endurskoðað með hliðsjón af nýjustu kenningum um lestur.

Skýrslu nefndarinnar í heild sinni má nálgast á vef ráðuneytisins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum