Hoppa yfir valmynd
19. október 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Heimsókn menntamálaráðherra til Liechtenstein og aðalráðstefna UNESCO í París

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir átti dagana 17. og 18. október fundi með ráðamönnum í Liechtenstein en þar var hún í boði dr. Klaus Tschütscher, aðstoðarforsætisráðherra og ráðherra íþróttamála í furstadæminu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Tschütscher
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Klaus Tschütscher ásamt svissneskum nemum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir átti dagana 17. og 18. október fundi með ráðamönnum í Liechtenstein en þar var hún í boði dr. Klaus Tschütscher, aðstoðarforsætisráðherra og ráðherra íþróttamála í furstadæminu.

Miðvikudaginn 17. október hitti ráðherra á annað hundrað svissneska nemendur sem komið höfðu til Liechtenstein til að fylgjast með landsleik Íslands og Liechtenstein í knattspyrnu. Skóli þeirra, sem er í Stans í kantónunni Nidwalden í Sviss, hefur undanfarna mánuði tekið þátt í verkefninu EuroSchools 2008 og hefur Ísland verið þeirra fósturland í verkefninu sem tekur eitt ár.

Sat menntamálaráðherra fyrir svörum um Ísland, íslenska menningu og lífshætti auk þess að kenna nemendunum hvernig hvetja ætti landsliðið til dáða í leiknum með "Áfram Ísland"-hrópum. Það dugði því miður ekki til.

Fimmtudaginn 18. október átti ráðherra fund með Tschütscher þar sem rætt var um samstarf á sviði mennta- og íþróttamála auk þess sem ráðherrarnir fóru yfir fyrirhugaðar umbætur í skólamálum landanna. Þá átti ráðherra fund með Ritu Kieber-Beck, ráðherra utanríkis- og menningarmála, þar sem reifuð voru áform um menningarsamskipti á næstu misserum. Auk þess átti Þorgerður Katrín fund með Alois af Liechtenstein, prinsi furstadæmisins, í Vaduz-kastala.

Föstudaginn 19. október tók menntamálaráðherra þátt í hringborðsumræðum á fundi menntamálaráðherra á 34. aðalráðstefnu UNESCO í París þar sem tengsl menntunar og efnahagslegra framfara voru til umræðu. Þá átti hún fund með Koïchiro Matsuura aðalframkvæmdastjóra UNESCO þar sem m.a. voru ræddar tilnefningar Íslands á heimsminjaskrá UNESCO.

Á morgun laugardag mun menntamálaráðherra ávarpa aðalráðstefnu UNESCO.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum