Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Bætt þjónusta við blinda, sjónskerta og daufblinda

Á fundi ríkisstjórnarinnar 16.nóvember voru kynntar tillögur framkvæmdanefndar sem skipað var að frumkvæði menntamálaráðherra í maí sl. með fulltrúum frá menntamála-, félagsmála- og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Blindrafélaginu.

Á fundi ríkisstjórnarinnar 16. nóvember voru kynntar tillögur framkvæmdanefndar sem skipuð var að frumkvæði menntamálaráðherra í maí sl. með fulltrúum frá menntamála-, félagsmála- og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Blindrafélaginu. Framkvæmdanefndin hafði það hlutverk að leggja mat á, gera áætlun um og annast framkvæmd þeirra tillagna sem gerðar höfðu verið um bætta þjónustu við blinda og sjónskerta, sérstaklega í tengslum við menntunarmöguleika, ráðgjafaþjónustu, grunn- og símenntun starfsmanna og þróun námsgagna. Í vinnu sinni komst nefndin að þeirri niðurstöðu að erfitt væri að greina menntunarþáttinn frá almennri þjónustu.

Að tillögu framkvæmdanefndarinnar ákvað ríkisstjórnin fyrr í sumar að grípa til sérstakra bráðaaðgerða til að hægt væri að halda uppi og bæta þjónustu við blinda og sjónskerta einstaklinga þar til endanlegar tillögur nefndarinnar litu dagsins ljós.

Ákveðið var að setja á laggirnar nýjar stöður blindrakennara/kennsluráðgjafa og stöður kennara í umferli og athöfnum daglegs lífs. Flestir hinna nýráðnu einstaklinga hófu sérfræðinám á viðeigandi sviði á haustmánuðum og stunda það næstu 1-2 ár samhliða sérfræðistarfinu.

Framkvæmdanefndin hefur nú lokið störfum og í greinargerð hennar eru settar fram tillögur um bætta þjónustu við blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga og gerð tillaga um framtíðarfyrirkomulag í almennri þjónustu við blinda og sjónskerta einstaklinga á Íslandi.

Í tillögum nefndarinnar er gengið út frá því meginmarkmiði að þjónusta við blinda og sjónskerta einstaklinga verði viðunandi og að aðgengi að þjónustunni verði auðveldað. Þá er rík áhersla á mikilvægi þess að auka skilvirkni og hagkvæmni þeirrar þjónustu sem veitt er.

Nefndin leggur til að sett verði á laggirnar miðlæg þjónustumiðstöð sem heyri undir félagsmálaráðuneyti en annist einnig framkvæmd þeirra þjónustuþátta sem falla undir stjórnsýslulega ábyrgð sveitarfélaga og annarra aðila ríkisins, eða ráðuneyta menntamála- og heilbrigðis- og tryggingamála. Miðstöðinni verði ætlað að annast alla sérfræðiþjónustu við blinda og sjónskerta einstaklinga, sem og aðstandendur þeirra og þá aðra aðila sem starfa með eða styðja við þessa einstaklinga, utan við almenna heilbrigðisþjónustu og sérfræðiþjónustu skóla.

Með stofnun heildstæðrar þjónustumiðstöðvar verður starfsemi Sjónstöðvar Íslands í heild sinni færð til þjónustumiðstöðvarinnar, sem og lítill hluti af starfsemi Blindrabókasafns Íslands. Sjónstöðin verður lögð niður og Blindrabókasafninu breytt í Hljóðbókasafn Íslands og mun sinna þeim einstaklingum sem leita eftir hljóðbókum, en um 1% lánþega nýta sér aðra þjónustu safnsins. Einnig verður tiltekin starfsemi sem nú er sinnt af Blindrafélaginu og Daufblindrafélagi Íslands sem og starfandi blindrakennarar/kennsluráðgjafar færðir til þjónustumiðstöðvarinnar.

Áætlað er að 25,5 stöðugildi þurfi við þjónustumiðstöðina – en þar af voru 13 til staðar þegar framkvæmdanefndin hóf störf og 6 bættust við með fyrrnefndum bráðaaðgerðum.

Ríkisstjórnin fól á fundi sínum í morgun ráðuneytisstjórum menntamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis að vinna að framkvæmd málsins á grundvelli tillagna nefndarinnar.
„Ég tel að með þessu sé stigið afskaplega mikilvægt skref í þá átt að bæta þjónustu við blinda, sjónskerta og daufblinda. Þessi hópur hefur líkt og fleiri liðið fyrir að ábyrgð á þjónustunni hefur dreifst á marga aðila og því oft óljóst hvar ábyrgðin liggur í raun. Á þessu er tekið í tillögum framkvæmdanefndarinnar og ég fagna því að sátt hefur náðst um þetta mikilvæga mál. Það hefur lengi verið ósk blindra og sjónskertra að stofnuð verði ein miðlæg þjónustumiðstöð eða þekkingarmiðstöð er taki á þeirra málum en það mál er nú að komast í höfn. Með því næst tvennt. Annars vegar verður nú skýrt hvert ber að leita eftir þjónustu og hver ber ábyrgð á henni. Hins vegar samnýtist þekking og reynsla þeirra sem starfa að málum blindra og sjónskertra þegar þeir verða samankomnir á einum vinnustað í stað þess að dreifast vítt og breitt um kerfið,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.

Samkvæmt upplýsingum frá Sjónstöð Íslands eru um 1.500 einstaklingar á Íslandi sem teljast fatlaðir vegna skertrar sjónar, um 20 eru daufblindir, um 330 eru lögblindir (innan við 10% sjón) en aðrir eru alvarlega sjónskertir (milli 10% og 30% sjón). Samkvæmt lögum eiga þessir einstaklingar rétt á þjónustu sem gerir þeim kleift að lifa sjálfstæðu lífi og starfa í eðlilegu samfélagi við aðra.


 



 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum