Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úttektir á sjálfsmatsaðferðum í grunnskólum árið 2007

Samkvæmt ákvæðum 49. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 er grunnskólum skylt að innleiða aðferðir til að meta skólastarf.

Samkvæmt ákvæðum 49. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 er grunnskólum skylt að innleiða aðferðir til að meta skólastarf. Menntamálaráðuneytinu ber að láta gera úttektir á sjálfsmatsaðferðum skólanna til að ganga úr skugga um að aðferðirnar uppfylli þau viðmið sem sett eru fram í aðalnámskrá grunnskóla og styðji umbætur í skólum. Niðurstöðum úttektanna er m.a. ætlað að vera leiðbeinandi fyrir skóla fyrir áframhaldandi sjálfsmat og umbótastarf.

Á tímabilinu 2001 til 2003 lét ráðuneytið gera úttektir á sjálfsmatsaðferðum í öllum grunnskólum sem þá voru 184 talsins. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að af 184 skólum reyndust einungis 24 uppfylla að öllu leyti bæði viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir og framkvæmd sjálfsmats. Í 118 skólum reyndust sjálfsmatsaðferðirnar ófullnægjandi.

Vorið 2007, 12 árum eftir gildistöku laga um grunnskóla hófst önnur umferð úttekta á sjálfsmatsaðferðum í grunnskólum. Ákveðið var að gera úttektir í 48 skólum á árinu 2007, 25 að vori og 23 að hausti. Skólarnir voru á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi eystra. Allir þessir skólar höfðu fengið ófullnægjandi niðurstöðu í fyrri umferð úttektanna. Niðurstöður þessara 48 skóla liggja nú fyrir og reyndust einungis 8 þeirra uppfylla viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir og framkvæmd. Alls voru 19 skólar með ófullnægjandi sjálfsmatsaðferðir.

Þeir átta skólar sem uppfylltu bæði viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir og framkvæmd sjálfsmats eru: Flataskóli, Foldaskóli, Húsaskóli, Hvassaleitisskóli, Melaskóli, Vesturbæjarskóli, Öldutúnsskóli og Ölduselsskóli.

Alls reyndist 21 skóli fá niðurstöðuna fullnægjandi að hluta, þ.e. þeir uppfylltu flestir viðmið ráðuneytisins um sjálfsmatsaðferðir en framkvæmd sjálfsmatsins var ekki í lagi. Þessir skólar eru:
Dalvíkurskóli, Engidalsskóli, Grunnskóli Ólafsfjarðar, Grunnskólinn í Hrísey, Grunnskóli Seltjarnarness, Hagaskóli, Hamraskóli, Hrafnagilsskóli, Kársnesskóli, Korpuskóli, Langholtsskóli, Laugalækjarskóli, Litlulaugaskóli, Lundarskóli, Lækjarskóli, Réttarholtsskóli, Selásskóli, Seljaskóli, Setbergsskóli, Stórutjarnarskóli og Þelamerkurskóli.

Af þeim 48 skólum sem skoðaðir voru á árinu 2007 uppfylltu 19 skólar hvorki viðmið um sjálfsmatsaðferðir né framkvæmd þess. Þeir eru: Austurbæjarskóli, Álftamýrarskóli, Breiðholtsskóli, Brekkuskóli, Grandaskóli, Grenivíkurskóli, Grunnskólinn á Raufarhöfn, Grunnskólinn á Þórshöfn, Grunnskólinn í Grímsey, Hlíðaskóli í Reykjavík, Hlíðarskóli á Akureyri, Landakotsskóli, Laugarnesskóli, Rimaskóli, Salaskóli,Tjarnarskóli, Valsárskóli, Öskjuhlíðarskóli og Öxarfjarðarskóli.

Til að bregðast við ófullnægjandi niðurstöðum í úttektum á sjálfsmatsaðferðum grunnskólanna og sem liður í eftirliti ráðuneytisins með starfi grunnskóla, hyggst ráðuneytið að loknum ákveðnum tímafresti senda úttektaraðila á ný í þá skóla sem uppfylltu ekki viðmið ráðuneytisins. Eiga úttektaraðilarnir m.a. að meta hvernig skólarnir hafi brugðist við niðurstöðum úttektanna.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum