Hoppa yfir valmynd
9. maí 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menningin styrkir samkeppnishæfni Norðurlanda

Blásið verður til sóknar á sviði menningarmála til að efla samkeppnishæfni Norðurlandanna á heimsvísu.
Norrænir menningarmálaráðherrar
Norrænir menningarmálaráðherrar

Blásið verður til sóknar á sviði menningarmála til að efla samkeppnishæfni Norðurlandanna á heimsvísu. Norrænu menningarmálaráðherrarnir vilja efla skapandi starf og alþjóðlega menningarumræðu og hafa lagt fram sameiginlega aðgerðaáætlun í því skyni.

Menningarmálaráðherrar Norðurlandanna vilja stefna að því að norræn menningarsamvinna verði meira áberandi en nú er í hinni alþjóðlegu samkeppni í tengslum við velferðarmál, gildi og atvinnumál. Ráðherrarnir eru á einu máli um að menning og listir eigi að verða snar þáttur í að efla samkeppnishæfni Norðurlanda og gera þau sýnilegri á alþjóðavettvangi.

„Það er mikilvægt að halda norrænni menningu á lofti í alþjóðlegu umhverfi og við hlökkum til að taka virkan þátt í því starfi sem forsætisráðherrarnir lögðu grunninn að á fundi sínum sem haldinn var á Riksgränsen í Svíþjóð í apríl. Sú vinna hvetur okkur til að marka sameiginlega framtíðarstefnu í menningarmálum,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra menningarmála.

Fyrsta skrefið í aðgerðum menningarmálaráðherranna er að leita eftir samstarfi við viðskipta- og atvinnumálaráðherra landanna og leggja fyrir þá tillögur um sameiginlegar aðgerðir til að efla skapandi iðnað. Norræna tölvuleikjaáætlunin, sem menningarmálaráðherrarnir höfðu frumkvæði að, hefur gefið góða raun og norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn hefur styrkt stoðir iðnaðarins. Nú á að efla starfsemina enn frekar og nýta betur til að markaðssetja Norðurlöndin sem skapandi vettvang.

„Það er ljóst að listsköpun, nýþróun og skapandi atvinnugreinar hafa vaxandi þýðingu á alþjóðlegum samkeppnismörkuðum og Norðurlöndin ættu að hafa mikla möguleika á að verða þar í fremstu röð. Löndin njóta nú þegar mikils álits um víða veröld á sviði hönnunar, tónlistar, bókmennta, kvikmyndalistar og sjónvarps. Þetta vekur nýjar hugmyndir í tengslum við sameiginlega markaðssetningu á norrænu efni,“ segir Þorgerður Katrín ennfremur.
Annar meginþátturinn í áherslum menningarmálaráðherranna er að efla samskipti ólíkra menningarheima. Ráðherrarnir vilja meðal annars styrkja hina norrænu hefð fyrir umfjöllun um menningarmál og lýðræðislega umræðu. Markmiðið er að ýta undir þróun á menningar- og atvinnulífi með auknum menningarsamskiptum milli svæða og landa.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum